16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Jóhann Jósefsson:

Ég sem 1. flm. þessarar till. vil þakka n., sérstaklega meiri hl., fyrir það, að hún hefur sinnt málinu. Á undanförnum þingum hefur það vaxið mjög í augum hv. þm. að sinna þessu máli. Ég vil minna þá hv. þm., sem nú keppast við að mála fjandann á vegginn, og á ég þar við hv. hv. 5. landsk. og hv. 1. þm. N.-M., á það, að í hinum upphaflegu till. var hvergi farið fram á annað en það, að þeir eigendur hlutabréfanna, sem eiga fé inni, fengju nokkuð réttan sinn hlut. Það hefur hvergi verið farið fram á það af okkur flm., að gert yrði upp við Hambrosbanka eða önnur útlend fyrirtæki. Hitt er svo annað mál, að ef svo færi, að ríkisstj. sæi sér hag í því að nota bundnar innistæður í útlendu fé til þess að gera bankann arðvænlegri, þá er það hennar að gera till. um það. Hv. 5. landsk. komst þannig að orði, að þetta fólk hefði nóga peninga nú samanborið við það, sem oft hefði verið áður. Ég veit satt að segja ekki, á hverju þessi hv. þm. byggir slíka fullyrðingu, því að ég vil leyfa mér að halda því fram, að hún sé algerlega út í bláinn. Ég þekki persónulega margt af því fólki, sem hér á hlut að máli, og það er allt eldra fólk, sem hefur látið fé sitt á banka, til þess að hafa af því nokkurn stuðning í ellinni. Þetta fólk hefur vitanlega ekki neina peninga handa á milli nú, frekar en endranær. Stríðsgróðinn hefur ekki náð inn fyrir þeirra bæjardyr. Það eru því engin rök í þessu máli að vera að halda því fram, að það sé ekki þörf á því að gera athugun á því, hvers virði þessar innieignir séu, vegna þess að tímarnir séu hagstæðir fyrir fólkið. — Það er hér ekki verið að stofna til neinna bráðra fjárútláta með þessari till., heldur á aðeins að athuga það, hvers virði þessi bréf kunna að vera. Hæstv. viðskmrh. talaði um hinar útlendu innistæður og taldi varhugavert að raska þeim grundvelli, sem lagður hefði verið með stofnun Útvegsbankans. Það, sem hann taldi röskun á þessum grundvelli, er þá það, að þessir íslenzku sparifjáreigendur fengju rétt mat á sínum hluta og möguleika fyrir því að koma honum í peninga. Ég satt að segja skil nú ekki, að hæstv. ráðh. haldi þessu fram í fullri alvöru, að hér sé um svo mikla röskun að ræða, að ríkinu stafi nokkur hætta af því. Ég held, að ekki komi til þess, að Hambrosbanki geri neinar sérstakar kröfur á hendur landinu, þó að litið sé af Alþ. á ástæður nokkur hundruð sparifjáreigenda, sem hafa verið fengnir til þess að binda fé sitt á þennan hátt. Þvert á móti held ég, að þessi banki mundi leiða þetta hjá sér. Hitt er annað mál, hvort menn, sem hafa sæmilegt fjármálavit, álíta annan tíma hentugri fyrir landið til þess að greiða erlendar skuldir, sem á því hvíla, með hinum bundnu sterlingspundum. Hér væri nokkurt íhugunarefni fyrir hæstv. viðskmrh. og ríkisstj. yfirleitt. Að taka það til athugunar á breiðari grundvelli en um er að ræða í þessu eina máli, hvort engar leiðir eru til að nota innifrosnu sterlingspundin til að losa um skuldahöft, sem á okkur hvíla frá Breta hálfu frá fyrri árum, og gera þannig peningana arðbærari Íslendingum en nú.

Þetta var nú útúrdúr, sem aths. hæstv. viðskmrh. gáfu mér tilefni til að fara, en við kemur ekki sérstaklega því máli, sem hér er til umr.

Um það, sem hv. 1. þm. N.-M. hélt fram, að ég hefði fullyrt það við umr. um fjárl., að þessi bréf væru einskis virði, vil ég segja, að það er misheyrn ein. Aftur á móti hef ég mörgum sinnum haldið því fram, að hlutabréfin, í höndum þeirra, sem hafa þau nú, væru ekki veðhæf né arðbær eign, nema ríkið geri þær ráðstafanir, sem Alþ. her siðferðileg skylda til að láta það gera, nefnilega með einhverju móti að gera þessa eign arðbæra.

Annars kom fram í ræðu hv. 1. þm. N.-M. þetta gamla hatur til bankastofnunarinnar, sem hér er um að ræða, en hét öðru nafni hér á árunum, — þetta gamla hatur, sem náði jafnvel til viðskiptamannanna og enn í dag á að bitna á gráhærðum gamalmennum, sem hafa treyst á sparifé sitt sér til framdráttar í ellinni. Ég held, að fyrir þessu sé lítill hljómgrunnur á meðal heiðarlegra þm. Ég held, að það hafi komið fram hjá allri fjvn., að hún vill láta ríkisstj. athuga, hvað er hægt að gera. Og það var réttilega fram tekið hjá hv. þm. Borgf., að í sjálfu sér er meiningarmunurinn á milli aðaltill. meiri hl. fjvn. og till. minni hl. ekki mikill. Þar er ekkert djúp staðfest á milli. Báðir aðilar vilja heimila ríkisstj. aðgerðir í þessu efni. Meiri hl. vill að vísu ganga lengra en minni hl., en engin rök hafa komið fram í nál. þessara nefndarhluta, sem fara neitt í áttina til þess, sem hv. 1. þm. N.-M. kastaði fram.

Ég vil óska þess f. h. okkar flm., að samþ. verði till. meiri hl. fjvn. og benda á, að það er mikill misskilningur hjá hv. frsm. minni hl., að hér sé um 5 millj. kr. útgjöld að ræða. Sparisjóðsféð var 1.3 millj. og hlaupareikningur 400 þús., svo að þetta hvort tveggja nær ekki 2 millj. Er hér allmikill munur frá því, sem hv. frsm. minni hl. vildi vera láta.

Ég vona, að réttlátar aðgerðir fáist, og ég er viss um, að meðan ekki fæst heppileg lausn á kröfum sparifjáreigenda, mun þeirra málstaður enn lengi eiga sér talsmenn á Alþ. Þm. munu finna, að það er nauðsynlegt, að eignir þessa fólks séu ekki frystar inni. Það er betra og réttlátara að gera þá leiðréttingu, sem farið er fram á, og sómasamlegra fyrir Alþ.