21.02.1941
Neðri deild: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

8. mál, innanríkislán

*Einar Olgeirsson:

Viðvíkjandi því frv., sem hér liggur fyrir, vil ég taka fram, að ég býst við, að hv. þm. muni vera sammála um, að rétt sé að greiða þetta lán, sem ríkissjóður hefur tekið í Englandi, en hitt býst ég við, að þm. greini á um, á hvern hátt réttast hefði verið að útvega peninga til þess. Hæstv. ríkisstj. hefur valið þá leið að gefa úr bráðabirgðal. til að fá heimild til að taka 5 millj. kr. innanríkislán. Síðan hefur þetta lán verið boðið út, og helztu peningamenn landsins hafa eygt hér mjög þægilega leið til að geta komið út þeim peningum, sem þeir voru í vandræðum með, og grætt vel á, því að vextirnir eru allháir, enda hafa skuldabréfin gengið vel út, og þessar 5 millj. kr. munu nú vera fengnar. Ég býst við, að það hefði verið nauðsynlegra að afla þessara peninga á annan hátt en með því að gefa út bráðabirgðal, um heimild fyrir ríkissjóð til að taka innanríkislán, — ég tel hyggilegra, að þess fjár hefði verið aflað með því að gefa út bráðabirgðal. um að afnema að einhverju eða öllu leyti það skattfrelsi, sem stórútgerðin hefur notið. Vitanlegt er, að 5 millj. kr. hefðu ekki verið nema mjög lítill hluti þess fjár, sem ríkissjóður hefði fengið með því að afnema skattfrelsi það, sem hér um ræðir, þegar tillit er tekið til þess gífurlega hagnaðar, sem stórútgerðarmenn hafa haft síðastliðin ár, sérstaklega á útflutningi ísfiskjar. Það hefði að öllu leyti verið sú heppilegasta leið fyrir þjóðarheildina. Eins og innflutningsverzluninni er nú .háttað, hefur alls ekki aukizt verðmæti innfluttra vara, vegna þess hve öllum seljendum hefur verið gert örðugt fyrir um gjaldeyrisyfirfærslu í íslenzkum krónum. Hér er því í raun og veru að ræða um ávísanir til þeirra manna, sem eiga fé, til stórútgerðarmannanna í Reykjavík, um að kaupa upp hús, jarðir, fiskibáta og annað slíkt, sem var í eigu Íslendinga áður. Sú fjármálapólitík, sem hæstv. ríkisstj. hefur rekið, er að engu leyti þolandi. Hún hefur á engan hátt mjóað að því að koma á hagstæðum verzlunarjöfnuði eða gera hann betri en áður var, sú fjármálapólitík hefur þvert á móti skapað ógurlegt misræmi innan þjóðarheildarinnar. Hún hefur gert nokkra auðmenn í Reykjavík ríkari en áður, en fjöldinn allur af millistéttunum og þeim mönnum, sem einhverju áttu að tapa, hafa beinlínis orðið langtum fátækari en áður fyrir þær aðgerðir, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið. Með hreinni fjármálapólitík hefði eitthvað af því fé, sem útgerðarmönnum hefur áskotnazt með stórgróða af fisksölu og skattfrelsi síðustu ára, komið ríkissjóði að notum, í stað þess, að sú fjármálapólitík, sem rekin hefur verið, hefur orðið til þess að binda ríkissjóði þyngri skuldabagga en áður.

Hæstv. ríkisstj. hefur hér séð ástæðu til þess að fara öfugt að. Í stað þess að taka í sköttum af stórútgerðarmönnum eitthvað af stríðsgróða þeirra, hleypur ríkið undir bagga með þeim, þegar þeir eru í vandræðum með að ávaxta fé sitt, með því að bjóða út innanríkislán, og sú ráðstöfun veitir þeim góða möguleika til að ávaxta fé sitt fram yfir það, sem þeir að öðrum kosti mundu hafa getað.

Ég álít þess vegna, að sú fjármálapólitík, sem kom fram í þessum bráðabirgðal., sé mjög varhugaverð. En ég býst hins vegar við, að síðar verði nægilegt tilefni til að ræða þá fjármálapólitík og ætla því ekki að fara lengra út í þá pólitík að sinni, en aðeins lýsa yfir áliti mínu á henni við l. umr . þessa frv.