02.04.1941
Neðri deild: 29. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

32. mál, fjarskipti

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Frá því þetta mál var síðast fyrir hv. d., þá hefur orðið að samkomulagi í samgmn. annars vegar og milli hennar og póst- og símamálastj. hins vegar, að eftir atvikum væri rétt að fallast á ýmislegt af því, sem fram kom í þessari hv. d., þegar málið var hér rætt. Það er að vísu svo, að telja má líklegt, að ýmsir hv. þdm, álíti, að betur hefði mátt takast til um sumt af því, sem hér hefur verið til umr., svo sem það, sem athugað var um málfar frv. eins og það lá fyrir. Eins og hv. d. veit, þá hliðraði n. sér að fyrra bragði hjá því að fara að gera glundroða í málfarinu, því ekki var vissa fyrir, að betur mundi takast fyrir henni en þeim, sem farið höfðu höndum um frv. En samt sem áður hefur hún tekið það til íhugunar og 2 hv. nm. hafa verið á fundum með þeim mönnum, sem hafa nú lagt fram sitt lið, í fyrsta lagi að þýða ákvæðin og í öðru lagi að líta yfir málið á þeim. Og það varð að niðurstöðu, að rétt væri, að fram skyldi koma í brtt. að víkja nokkuð við málinu á 1. gr. frv., þ. e. a. s. málfarinu. Þó það sé . ekki fjarska mikilvægt, þá er samt ótvírætt, að nú fer betur á orðalagi gr. en áður var. Enda skýrist betur fyrir þeim hv. nm., sem aðallega hafa fjallað um málið, að í raun réttri var ekki kleift að komast öðruvísi frá því, ef nákvæmlega átti að vera þýtt.

Það, sem hér um ræðir, er algerlega nýmæli í íslenzkri löggjöf. Orðið fjarskipti var talið gott og gilt, og býst ég við, að hv. þm. finnist það einnig, þegar þeir fara að hafa orðið í munni sér nokkuð lengi.

Það getur ekki orkað tvímælis um 1. gr., og er hér farið eftir alþjóðareglum, bæði frakkneskum textum og norrænum. Ég læt hv. þdm. um að rannsaka, í hverju breyt. er fólgin, og tel ekki þörf á að ræða frekar um það.

Þá hefur orðið að samkomulagi, að nokkru leyti eftir ósk póst- og símamálastj., að 10. gr. orðist þannig, að hún gefi gleggri hugmynd um, hvað það er, sem póst- og símamálastj. tekur að sér um leið og hún fær þann einkarétt, sem lögin heimila. Og tel ég, að ekki geti leikið á tvennu um það, að þessi stofnun tekur að sér að gera allt, sem gera þarf til þess að viðhalda þeim framkvæmdum, sem innan vébanda laganna falla, og hafi einnig til þá hluti og það efni, sem með þarf. Eftir því, sem gefið var tilefni ti1 við síðustu umr. málsins, tekur það til radíótækja og stöðva í íslenzkum skipum og rekstrar þeirra. Ég tel, að í .l. um einkarétt ríkisstofnana sé svo fyrir mælt, að sú skylda væri henni um leið á herðar lögð að hafa nægilegt efni til þeirra framkvæmda, sem henni er ætlað á hverjum tíma.

Um talstöðvar í skipum eru, eins og kunnugt er, til lög frá síðasta þingi, sem fjalla um lántöku til talstöðva í fiskiskip o. fl. Er þar einmitt gert ráð fyrir, að landssíminn annist um þetta. Með þessari löggjöf eru í raun og veru ítrekuð símalögin. Ég hef fengið þær upplýsingar nú hjá póst- og símamálastj., að hún hafi í huga og hafi gert það í því efni, sem hún hefur séð sér fært, að herða mjög á framkvæmdum og framleiðslu þessara tækja, því eftirspurnin hefur verið mikil, og var það tilgreint á síðasta þingi, hversu mikið lægi fyrir af beiðnum frá þeim skipum, sem um var að ræða, og voru það fiskiskip 10 smál. eða meira, sem miðað var við. En ýmislegt olli því, að ekki var hægt að fullnægja þessum kröfum, m. a: það, að landssíminn hefur aðeins látið útbúa senditæki, og hefur það háð því, að fáanleg væru viðtæki í báta. En nú er 14. gr. orðuð þannig, að landssíminn ætlar sér að sjá um þetta, og telur sér það skylt, en vitnar þó til, að hann geti ekki framkvæmt beinlínis það; sem aðrir hafa einkarétt á samkv. öðrum lögum. Það er sem sagt undanskilið, sem fellur undir önnur l., eins og ríkisútvarpið, skipaskoðunarstjóri o. fl. En landssíminn leggur allt kapp á að geta framleitt á. þessu ári allt að 80 stöðvar 1 báta. Og er það framar öllum vonum, ef hægt er að gera það á einu ári. En það er að sumu leyti ekki nema hálfsögð sagan, þó að landssíminn keppi að þessu, ef ekki tekst að tryggja hæf viðtæki í bátana.

Þá skal ég líka drepa á það, sem líka var til umr. við síðustu meðferð málsins í d. Það er það, sem viðkemur 3. og 4. tölul. á þskj. 113 um breyt. á gr. Það er sem sé verið að stofna til þess með þeirri lagabreyt., sem hér er gert ráð fyrir, að hreppar landsins taki að sér að annast um að nokkru leyti rekstur landssímastöðva úti í sveitum landsins. Og hefur það, að því er vitað er, verið keppikefli hv. þm. upp á síðkastið, eins og ég hef rekið mig á, að leysa hreppana undan þessari kvöð. Um leið og 11. gr. verður breytt tel ég, að einnig beri að leiðrétta á sömu lund 12. gr., sem sé ekki aðeins fella burt mikinn hluta 11. gr., heldur líka síðari málsgr. 12. gr., sem heimilar að leggja sýslu- og sveitarstjórnum landsins ýmsar kvaðir á herðar. Eins og ég tók í málið við síðustu umr., tel ég, að þetta sé í rauninni m. a. afleiðing af því, hvernig komið er nú með starfrækslu landssímans, þar sem landssíminn, fyrir utan þær skyldur, sem honum tilheyra, hefur viljað ná undir sig þeim aukalínum, sem hér og þar hafa verið um landið. Hefur þetta áhrært mig og mína sýslu, og hafa samningar um þessa yfirfærslu gengið greiðlega. Hefur póst- og símamálastj. viljað taka þetta mál upp á heilbrigðum og réttlátum grundvelli. Og ég tel, að þeim málum sé betur fyrir komið í höndum landssímans en gæti verið hjá einstökum félögum og jafnvel sveitum og hreppum. Þetta er að sjálfsögðu nokkurt fjárhagsatriði, og hef ég hér yfirlit yfir, hvaða upphæð hreppsfélögin greiða nú. Hún hefur verið 40 þús. á ári síðustu árin án verðlagsuppbótar, og með uppbót má þá segja 60 þús. En þeir hv. þm., sem eins og ég eru á þessu máli, að rétt sé að gera þessa breyt., hafa ekki talið, að það stæði í vegi, að sjálfsagt yrði að breyta eða hækka vissan lið í fjárlögum, sem er kallaður „Til síma- og eftirlitsstöðva“, og mundi hækkunin nema um 70 þús. kr.

Það er þetta atriði, sem líka ber að taka til greina og fjvn. mun að sjálfsögðu gera eftir því, sem breyt..falla hér í þessari hv. d. Það er einnig eðlilegt, þó að hreppar falli út úr þessu á sínum tíma, að ekki sé heimilt á einn eða annan hátt að færa þessar kvaðir yfir á sýslufélög, því þau eru í raun og veru sama og hreppsfélög. Fyrir því tel ég, að breyt. á 11. og 12. gr. eigi að fylgjast að og það beri að taka betur til, hvaða lög skuli falla úr gildi, þegar þessi ná gildi. Og það er ætlazt til, þar sem hér er um bráðabirgðal. að ræða, að þegar þessi lög koma gegnum þingið, þá öðlist þau þegar gildi. En af því hlýtur að leiða, að allar þær breyt., sem hér er um að ræða, komast á eftir því, sem nokkur tök eru á í samræmi við gildistöku laganna. En hér er þó eitt að athuga, og það eru l., sem eiga að falla úr gildi og talin eru á þskj. 113, l. nr. 83 14. nóv. 1917, um breyt. á og viðauka við lög nr. 35 20. okt. 1913. Þau eiga að falla úr gildi, en ég mun leggja til, og er það að nokkru leyti eftir beiðni póst- og símamálastj., að þarna yrði sá varnagli, að þetta félli ekki burt fyrr en 1. jan. n. k. Póst- og símamálastj. hefur skýrt mér frá, að ógerlegt megi teljast að koma breyt. á fyrr en á áramótum. Enda tel ég það í fullu samræmi við þann tilgang, sem við ætluðum okkur að ná, að gildistakan yrði frá þeim tíma, sem fyrst yrði kleift.

Nú vildi ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. til viðbótar, þannig að aftan við skilgreininguna á 5. lið á þskj. 113 komi: frá 1. jan. 1942. Og er þá í rauninni öllu fullnægt, sem ég hef getað séð, að til þurfi að fylgja framkvæmd laganna. Ég tel, að ekki þurfi að hafa fleiri orð um þetta, þykist hafa. gefið þær upplýsingar, sem með þarf, og vísa til þeirra gagna, sem áður hafa legið frammi um þetta mál, og býst við, að hv. þdm. megi vel við una og muni því verða auðsótt að koma þessari brtt. áfram í hv. d.

Einnig tel ég, að ríkisstj. megi vel við una, þó að hennar frumkvæði sé ekki í þessari breyt., sem þó er að sumu leyti eins sjálfsögð og þær breyt., sem í frv. fólust, þegar það var lagt fyrir Alþingi.