16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi leggja ríka áherzlu á það, að þetta mál yrði rannsakað til hlítar. Áður en þetta gerðist, munu fangarnir hafa skrifað bréf til stj. vinnuhælisins og farið þess á leit, að helgidagafrítíminn yrði lengdur. Er þetta í alla staði kurteislegt bréf, svo að ekki virðist líklegt, að það sé ástæðan. En þess hefur verið getið til, að Hallgrímur hafi verið rægður af einhverjum smáþjóf þarna, sem tilheyrir soranum og er að fiska eftir náðun. Ef þetta er rétt (og ég fullyrði ekkert um, að þessi ágizkun sé rétt), ef fangavörðurinn lætur fanga, sem eru að reyna að koma sér í mjúkinn, skrökva að sér og framkvæmir svo grófar og tilefnislausar refsingar á þeim grundvelli, sjá allir, að hér er um lélega uppeldisstofnun að ræða, og fangavörðurinn óhæfur til stöðu sinnar. Enda er það upplýst, t. d. um hreinlætið a vinnuhælinu, að það er þjóðarhneyksli, og hef ég rætt það mál áður í sambandi við fjárl. Það er hægt að leggja fram sannanir fyrir því, að á Litla-Hrauni skríður allt út í lús.

Reynist þessi ágizkun, sem ég gat um áðan, rétt, er þar fengin sönnun þess, að fangavörðurinn á Litla-Hrauni á ekki heima í þeirri stöðu, sem hann gegnir nú.