24.03.1941
Efri deild: 22. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

15. mál, hegningarlög

Frsm. (Magnús Gíslason) :

Frv. það, sem hér er til umræðu, er lagt fyrir Alþingi samkv. 23. gr. stjskr. og er samhljóða bráðabirgðal. frá 29. janúar 1941. það felur í sér breyt. á 88. og 95. gr. hegningarlaganna frá 12. febr. 1940, en þær eru í þeim kafla laganna, sem fjalla um landráð. Þegar hæstv. forsrh. lagði frv. fyrir d., gat hann þess, í hverju breyt. voru fólgnar, og get ég því farið fljótt yfir sögu. í frv. er kveðið nánar á um það, hvaða atburðir eða athafnir manna skuli teljast refsiverðir umfram það, sem ákveðið er í hegningarl. Auk þess eru refsiákvæðin samkv. 95. gr. nokkuð þyngd frá því, sem þau eru í 1. Það kunna nú kannske einhverjir að spyrja, hvort refsiákvæði hinna nýju hegningarl., að því er snertir landráð, hafi ekki verið nógu ströng. Þessu er þá til að svara, að á venjulegum tímum mundi svo hafa verið, en þegar svo er ástatt sem nú, að fjölmennur útlendur herafli er í landinu, sem landsmenn þurfa að hafa daglega mikil viðskipti við, þá liggur það í augum uppi, að hættan á því, að hið erlenda vald hafi afskipti af málum okkar, eykst allmjög frá því, sem hún er á venjulegum tímum. Það er því sakir þeirra hluta, að breyt. þessi á hegningarl. er réttmæt, því að það er aldrei of varlega farið. Breyt. þessi á refsilöggjöfinni er því nauðsynleg aðvörun til borgaranna, aðvörun um það að gæta allrar varúðar í afskiptum sínum af hinum erlenda her. Hins vegar reiknum við að sjálfsögðu með því, að lögum þessum verði breytt í sitt fyrra form þegar þessi hætta er liðin hjá. Það ræður af líkum, að við getum engin áhrif haft á gang styrjaldarinnar eða ráðið neinu um það, hvenær henni verður lokið, en það eitt getum við: að forðast af fremsta megni allt það, sem á einn eða annan hátt getur orðið til þess að auka íhlutun hins erlenda valds um mál vor. Stj. bar skylda til þess að vara borgarana við þessu, og það hefur hún gert með því að setja bráðabirgðal., sem hér er verið að leita samþykktar á. Tímarnir heimtuðu, að þau væru ströng, og það eru þau.

Að endingu vil ég svo óska þess fyrir hönd allshn., að frv. verði samþ.