20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

6. mál, happadrætti

Gísli Guðmundsson:

Ég get fallizt á það, sem hæstv. ráðh. sagði, að þessar umr. snertu ekki beinlínis frv. það, sem fyrir liggur. En mér finnst það ekki koma að sök, svona við 1. umr. málsins, þó að nokkuð sé farið út fyrir sjálft frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að nú væri of seint að finna að því, þótt háskólinn hefði sýnt of litla ráðdeild um húsagerð. Háskólabyggingin væri búin að vera í smíðum um mörg ár, og þm. hefðu ekki hreyft andmælum, meðan tími var til. En ég vil benda á það, að mjög erfitt hefur verið fyrir þm. að fylgjast með þessum málum til þessa, þar sem aðrir hafa ekki varað við. Þó að hús sjáist í mótum, er ekki gott að segja fyrirfram, hvernig það muni verða, til hvers eigi að nota það og hvernig öllu verði til hagað, þegar húsið er fullgert. Vona ég, að hæstv. ráðh. sjái, að ekki er réttmætt að ásaka þm., þó að athugasemdir þeirra þyki koma nokkuð seint. Þeir verða að gera ráð fyrir, að hinir, sem nær standa málunum, vari við, áður en í óefni er komið. Ég hafði t. d. ekki hugmynd um, hvað hér var á ferð, fyrr en í fyrra, er hæstv. ríkisstj. lagði fram beiðni um að mega framlengja happdrættið, samkvæmt beiðni háskólans.

Hæstv. ráðh. hafði orð um það, að þetta, sem gert er nú, og eins það, sem gert var í fyrra, væri nauðsynlegt til þess að háskólinn gæti staðið við skuldbindingar sínar. Ég skildi það svo, að það væri nauðsynlegt til þess, að háskólinn gæti greitt kostnað, er hann hefur stofnað til vegna húsagerðar. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort hér sé ekki um það eitt að ræða að greiða kostnað, sem þegar hefur verið stofnað til, því að mér er ekki grunlaust um, að fé þetta eigi jafnframt að fara til þess að greiða hluti, sem ekki er farið að vinna að ennþá, en slíkt geta ekki talizt skuldbindingar.

Hér hefur verið minnzt nokkuð á þjóðleikhúsið. Mér þótti það ljóður á ræðu hv. 7. landsk., sem ég var annars að miklu leyti sammála, að hann taldi þjóðleikhúsið eiga að ganga fyrir háskólanum. Ég tel það ekki geta komið til mála, og satt að segja efast ég um, að þjóðinni sé mikil þörf á slíkri byggingu, en það mál ætla ég ekki að ræða að þessu sinni. Annars átti háskólinn mjög skeleggan formælanda, þar sem var hv. 4. þm. Reykv. Hann virtist helzt finna það að háskólanum, að hann hefði ekki verið gerður stærri, og jafnvel það, að ekki skyldi hafa verið reistur annar háskóli, svo að skuldir okkar hefðu orðið sem mestar, þegar fyrir stríð. Það getur verið, að segja megi, eins og nú er komið, að gott hefði verið að hafa verið búinn að koma sem mestum verðmætum í fast form innanlands. En ég býst ekki við því, að hv. 4. þm. Reykv. eða aðrir hafi getað sagt fyrir, hvað gerast mundi, eða hvaða áhrif það mundi hafa á okkar afkomu. Annars tel ég, að verja hefði mátt fé því, sem farið hefur til háskólans, í eitthvað annað, þjóðinni þarflegra. Ég veit ekki betur en hv. 4. þm. Reykv. hafi oft skrifað um það, að miklu fé hafi verið eytt í dýr íbúðarhús, og er ég honum þar sammála. Og það er trú mín, að opinberu fé hefði verið betur varið á annan hátt en þann að reisa þessa byggingu. Um það, að húsið sé svo fagurt, að það muni bera hróður Íslands út um viða veröld, vil ég ekkert segja, — hef víst ekki eins gott vit á því og ýmsir aðrir . En ef til vill er það svipað með þetta hús og nýju fötin keisarans. Margir hafa fullyrt, að það sé óvenjufagurt, og hinir vilja ógjarnan segja annað, a. m. k. fyrst um sinn.