06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég vildi aðeins í tilefni af því, sem um hefur verið rætt, skýra frá því, þó ég kannske telji nú ekki, að allt of mikið megi leggja upp úr því, að mikið gagn geti orðið að þessum gjaldeyrisvarasjóði, sem í frv. er lagt til að stofnaður verði, þá hygg ég samt eindregið, að rétt sé að samþ. frv., — en það er ekki hvað sízt með tilliti til einhvers starfs, sem mér skilst, að fyrir hæstv. viðskmrh. vaki, að n. sú, sem ráðgert er í frv. að stofna, eigi að inna af hendi. Mér skilst, að tilgangurinn með þessari nefndarskipun sé sá, að hún ekki aðeins eigi að hafa með höndum ráðstafanir á þessum gjaldeyrisvarasjóði, heldur jafnframt, ef að kreppir, að leita ráða til þess að draga úr þeim erfiðleikum, sem gjaldeyrisskortur kann að valda. Og þegar tillit er tekið til þess, að þetta frv. er fram borið af milliþn., sem skipuð var á síðasta Alþ. til þess að leita samkomulags í þeim málum á milli flokkanna, en hins vegar; að sú n. hefur ekki lagt fram endanlegar till. í þeim, þá skilst mér, að þessi n., sem hér er rætt um að stofna, geti haldið áfram því starfi, og það gæti leitt til þess, að betra samkomulag næðist í lausn þeirra mála í framtíðinni heldur en tekizt hefur hingað til og annars kynni að geta talizt örðugra. Ég skil vel, og enda hefur borið á því í umr. um málið hér í hv. d., að ýmsir hv. þm. hafa misjafnt traust á milliþinganefndum og því starfi, sem þeim auðnist að leysa af hendi. Skal ég játa, að ýmislegt styður þá skoðun, að vafasamur árangur sé af starfi slíkra n. En þar með er ekki sagt, að allar milliþn. séu þannig, að fátt gott geti leitt af þeirra starfi. Og mér skilst, að Alþ. sé þeirrar skoðunar, þegar um mál er að ræða, sem ekki verður ráðið fram úr í hasti, þá vilji þingið skipa n. til þess að finna lausnina. Sú n., sem þingið hefur skipað til þess að finna lausn á gjaldeyrismálunum, hefur ekki komizt að samkomulagsniðurstöðu, og finnst mér rétt að halda áfram á þeirri braut til að fá svo gott samkomulag sem auðið er, ef þess er nokkur kostur í þeim málum. Þess vegna tel ég, að þó að ekkert sé annað í þessu frv., þá sé það þess vert að samþ. það, einmitt með það fyrir augum að gera ráðstafanir til þess, að vakað sé yfir gjaldeyrisástandinu um það, hvaða ráð eigi að finna til þess að vinna bug á gjaldeyrisörðugleikunum.