24.02.1941
Neðri deild: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

20. mál, alþýðutryggingar

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Á síðasta þingi voru sett l. um hækkun á slysabótum og uppbót á ellilaun og örorkubætur, en þau ákvæði giltu ekki nema árið 1940. En þar sem auðséð var, að dýrtíð fór hraðvaxandi, þótti sjálfsagt, að þessi l. giltu áfram. Þess vegna voru gefin út bráðabirgðal. þau, sem hér liggja fyrir, en það þurfti að gefa þau út svo snemma, til þess að n. gæfist tími til að framkvæma úthlutunina eftir ákvæðum þessara nýju l. En með því að l. nr. 73 1940 misstu gildi sitt um síðustu áramót, vil ég benda hv. allshn. á, sem mun fá þetta mál til meðferðar, að réttara mundi, að fyrirsögn frv. yrði á aðra leið en þar er, en eðlilegt var, að l. væru gefin út með þessari fyrirsögn eins og þá stóð á. En nú er kominn sá tími, að l. frá 1940 eru raunverulega búin að missa gildi sitt, og þessi l. eru komin í þeirra stað. Ég geri líka ráð fyrir, að rétt sé í sambandi við þetta mál að athuga, hvort ekki ætti að hækka fjárframlög til alþýðutrygginga í samræmi við það, sem dýrtíð hefur vaxið, til þess að þau geti strax náð þeim tilgangi, sem þeim er ætlað.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn.