22.04.1941
Neðri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

20. mál, alþýðutryggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er eitt í þessari till., sem ég vildi gera að umtalsefni, spursmálið um lífeyrissjóðinn og hvernig með hann yrði farið.

Ég býst við, að flestir hv. þm. muni, að eitt af því, sem mikið var rætt, þegar tryggingarl. voru sett, og að sumu leyti notað sem agn, var það, að með því að mynda lífeyrissjóð og safna í ýmsa sjóði, sem ætlað var síðar meir að borga út framlög, þá væri skapað allmikið auðmagn, sem hægt væri líka að lána út og á ýmsan annan hátt að nota. Það má segja, að eins og þá stóðu sakir mætti á vissan hátt nota slík rök. Nú eru þessi rök gersamlega gagnslaus. Skilyrðin, sem þá voru fyrir hendi, eru svo breytt, að í staðinn fyrir þann skort, sem þá var á lánsfé, er nú geysilegt framboð á lánsfé og gífurleg verðbólga á sér stað. Við sjáum á mánuði hverjum fara minnkandi það verðmæti, sem þannig hefur verið safnað, og sjáum fram á, að gildi þessara sjóða heldur áfram að minnka. Það hlýtur þess vegna að vera spursmál, sem fyrr eða síðar verður að taka til alvarlegrar athugunar, hvernig bezt sé hægt að nota þá sjóði, sem þegar hafa safnazt, til þess að bæta afkomu almennings í landinu sem stendur. Á vissan hátt miðar þessi till. okkar að því að auka þessi framlög úr lífeyrissjóðnum til þess að bæta afkomu gamalmenna. Að vísu má segja, að annað ákvæði sé þarna, sem ónýtir þetta aftur að nokkru leyti, með því að ríkissjóður eigi að leggja fram svo og svo mikið til sjóðsins. Það verður að taka til athugunar, hvort halda á áfram að láta ríkissjóð bæta þetta upp. Aðalatriðið er þó hitt, að nú sem stendur sé lagt fram meira fé til þess að bæta afkomu gamalmenna í landinu, jafnvel þó það yrði á kostnað sjóðmyndana. Það væri bókstaflega eðlilegt. Það væri að gera almenningi gagn með peningum, sem ella mundu liggja í sjóðnum og verða engum að gagni. Þetta er aðalatriðið, sem þyrfti að athuga. Það er þetta tvennt: annars vegar að gera meira að því en þarna er lagt til að bæta afkomu gamla fólksins, og hins vegar ber í raun og veru að draga úr því eins og nú standa sakir að mynda geysilega sjóði í peningum. Það væri betra að koma þeim í raunveruleg verðmæti fyrir fólkið. Það er alltaf hægt síðar meir að bæta upp það, sem kynni til að vanta.

Það er vitanlegt, að mjög mikill óþarfi er, að þessi nefskattur verði hækkaður. Nefskattar eru óréttlátir skattar, og svo ber að athuga hina miklu aukningu teknanna nú. Þess vegna legg ég til, að þessi nefskattur komi ekki til greina.