19.05.1941
Neðri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

20. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Hv. þm. V.Húnv. hefur beint þeirri fyrirspurn til allshn., hvort fyrir henni hafi legið erindi frá þing- og héraðsmálafundi V.- Ísafjarðarsýslu viðvíkjandi breyt. á 80. gr. l., og hvort n. hafi tekið til athugunar þær till., sem þar eru gerðar til breyt. Ég hygg, að þessar till. frá umræddum þing- og héraðsmálafundi hafi ekki legið fyrir n., og ég minnist þess ekki, að þær væru sérstaklega ræddar þar. Hins vegar hef ég fyrir nokkru síðan, að vísu ekki fyrr en nál. kom út, séð till., sem ganga í svipaða átt og hv. þm. skýrði frá, að hefðu verið í umræddri fundargerð.

Það, sem hv. þm. ræddi hér um, og ályktun sú, sem hann gerði að umtalsefni, er um hluta ellilauna til einstakra héraða í landinu. Hann vakti athygli á því, að þessi úthlutun væri mjög í ósamræmi við tölu gamalmenna í héruðunum. Till., sem hann nefndi, fer fram á, að þessu verði breytt á þann hátt, að hvert hérað fái greidd ellilaun í hlutfalli við það, hversu mikil iðgjöld eru greidd úr héraðinu. Nú er það svo, að þetta fyrirkomulag um greiðslu ellilaunanna er bráðabirgðafyrirkomulag. Það er gert ráð fyrir, að á þessu verði annað fyrirkomulag, þegar Lífeyrissjóður Íslands er tekinn til starfa. Og þetta bráðabirgðafyrirkomulag er í því fólgið, að hreppar og bæjarfélög úthluta sjálf ellilaunum og fá greitt úr Lífeyrissjóði Íslands hlutfallslega við það, sem þau sjálf hafa greitt. Eins og hv. þm. tók fram, stafa þessar misjöfnu greiðslur af því, að einstakir bæir og hreppar hafa úthlutað svo mjög misjöfnum upphæðum. Ég skal ekkert fara út í það, hvaða stefna er æskilegust fyrir bæjar- og sveitarfélögin í þessu efni, en það er augljóst, að það hefur vakað fyrir þeim, sem l. sömdu, að stuðla að því, að hin einstöku héruð legðu fram fé í þessu skyni fremur en fé til fátækraframfærslu. Um það atriði, hvort réttara væri að greiða héruðunum fé til ellilauna í hlutfalli við iðgjöldin, þá er það vandasamara mál en svo, að auðvelt sé að taka til þess afstöðu í skyndi, en nokkra galla sé ég þó strax á þessu. Það er vitað mál, að iðgjöldin eru afar misjöfn úr einstökum héruðum, sérstaklega sá hluti, sem greiddur er sem tekjuskattur, og það er vafasamt, hvort það væri réttlátt, að fé, sem varið er til ellilauna, yrði í hlutfalli við þessar iðgjaldagreiðslur. Það fyrirkomulag, sem nú er, jafnar að vissu leyti dálítið milli þeirra héraða, þar sem menn hafa miklar tekjur, og hinna, þar sem tekjurnar eru rýrar, og það virðist ekki óeðlilegt, að svo sé gert.

Það er talið, að ekki muni vera mikill tími eftir af þinginu og þess vegna vafasamt, hvort allshn. muni hafa verulegan tíma til að taka málið upp. Ég get því ekki um það sagt, hvort hún mundi telja sér það fært. Hitt getur vitanlega komið til mála, hvort ekki mætti með þáltill. eða í öðru formi stuðla að því, að þessi ákvæði væru tekin til athugunar, og skal ég sízt vera á móti því, að svo væri gert.

Um d-lið 1. gr. frv., heimild til þess að innheimta iðgjöldin með viðauka, vil ég segja það, að við 2. umr. vakti ég í framsögu minni sérstaka athygli á þessu atriði frv. og því, að það væri hæpið út af fyrir sig að því leyti, að það gæti ekki talizt beinlínis nauðsynlegt vegna verðbreytinga að samþ. það, en hins vegar er það nú svo, að yfirleitt munu menn nú ganga út frá því, að verðlagið færist ekki fullkomlega í sama horf eftir stríðið og það var áður, og með tilliti til þess getur það átt rétt á sér að gera slíka breyt. sem þessa. Þetta varð heldur ekki að ágreiningsatriði í allshn. á sínum tíma. Hins vegar var það dálítið misjafnt, hvað menn álitu brýna nauðsyn á að setja þennan lið inn í frv.