19.05.1941
Neðri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

20. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi mega minna hv. þm. á það, að það er hin mesta nauðsyn á að hraða afgreiðslu þessa máls. Skattan. eru nú alls staðar að ganga frá ákvörðun skatts og lífeyrissjóðsgjalda, en þær geta ekki lokið þeim störfum fyrr en búið er að afgr. þetta frv. Og ég vildi mjög taka undir það, sem hv. frsm. allshn. sagði, að það að fara að gerbreyta svo grundvallaratriðum l. um Lífeyrissjóð Íslanda sem hv. þm. V.- Húnv. leggur til hlyti að taka svo langan tíma, að það er að minni hyggju útilokað á þessu þingi. Þar yrði að minni hyggju að ganga á undan rækileg endurskoðun á þeim kafla alþýðutryggingarl., sem um þetta fjallar. En það er miklu meira verk en svo, að því gæti orðið lokið á þessu þingi.

Að því er snertir þörfina fyrir hækkun lífeyrissjóðsgjaldanna, þá ætti ekki að þurfa mörg orð til að gera grein fyrir henni. Þegar áætlanirnar um lífeyrissjóðsgjaldið voru gerðar, var miðað við það verðgildi peninganna, sem þá var. En það leiðir af sjálfu sér, að ef lífeyrissjóðurinn á að geta skilað þeim lífeyri, sem gert er ráð fyrir, þegar hann tekur til starfa, þá verða tekjur sjóðsins að aukast hlutfallslega við það, sem verðgildi peninganna rýrnar. Þetta vildi ég segja um frv. sjálft.

Annars gefa hugleiðingar hv. þm. V.- Húnv. mér tilefni til að leiðrétta misskilning, sem bæði kom fram í ræðu hans og eins í ályktun þing- og héraðsmálafundarins, sem hann vísaði til. Ég hef lesið þessa ályktun og einnig rækilega grein um þetta eftir Ólaf Ólafsson oddvita, en eftir því, sem ég þekki bezt til, mun hann hafa verið tillögumaðurinn á þessum fundi og hafa haft mest áhrif á það, að þessi ályktun var samþ., en hún gengur í þá átt, að horfið sé frá þeim grundvelli, sem nú er byggt á, að framlög tryggingarstofnunarinnar miðist við framlög sveitarfélaganna sjálfra, en í stað þess verði framlög tryggingarstofnunarinnar miðuð við það, hversu mikil lífeyrissjóðsgjöld falli til í héraðinu. Ég fæ ekki betur séð en að þessi uppástunga byggist á misskilningi á alþýðutryggingarl. Þarna er blandað saman tveim köflum l., sem að vísu eru tengdir, en fjárhagur þessara tveggja deilda er að öllu leyti aðskilinn. Lífeyrissjóður Íslands starfar eins og hver annar tryggingarsjóður. Hann tekur á móti iðgjöldum, en þau safnast öll í sjóðinn fyrstu 10–12 árin, að frádregnum kostnaði. Þetta er safnað fé, sem þeir, sem borga í sjóðinn, eiga óskert, en af þessari upphæð, sem safnast, lánar Lífeyrissjóður Íslands ríkissjóði árlega nokkuð breytilega upphæð, eftir því hvað framlag til ellilauna er hátt, en til þess greiðir ríkissjóður árlega vissa fjárhæð. Þetta lán endurgreiðist með 200 þús. kr. greiðslum í 50 ár, en ellilaunagreiðslurnar falla niður, þegar Lífeyrissjóður Íslands tekur til starfa að fullu. Því er það misskilningur, ef þessu tvennu er blandað saman. Þegar l. voru sett, var mönnum það ljóst, að það mundi býsna lítill fengur fyrir núlifandi kynslóð, ef ekkert yrði gert til þess að brúa bilið þangað til Lífeyrissjóður Íslands yrði búinn að safna þessu fé. Og til þess að brúa þetta bil voru ákvæði um ellilaun og örorkubætur sett, en þar er svo ákveðið, að í stað sveitarstyrkja skuli sveitarstjórnir úthluta eftir þörfum og ástæðum fé í þessu skyni á móti vissu framlagi frá Tryggingarstofnun ríkisins. Það liggur því í augum uppi, að eins og l. eru upp byggð, er það fjarstæða að miða framlögin í hverju héraði við það, sem til fellur til Lífeyrissjóðs Íslands, vegna, þess að því fé er alls ekki eytt, heldur safnað fyrir vegna framtíðarinnar. Ákvæðin, sem nú eru um þetta í gildi, eru byggð á því, að það er álitið, að sveitarstjórnirnar séu kunnugastar um þörfina á hverjum stað. Ég verð að segja, að ég fæ ekki skilið, að það væri á nokkurn hátt nær sanni að miða framlögin við það, sem til fellur úr hverju héraði, heldur en við mat á þörfinni í þessu efni. Það þarf engan að furða, þótt það sé mismunandi, sem kemur á nef, því það er sama, hvaða opinberar tölur eru teknar, þá kemur þetta sama fram. Hv. þm. ætti að taka við skulum segja fátækraframfærsluna. Það er sízt minni munur á fátækraframfærslunni. Ég þekki fleiri en 28 hreppa, sem hafa ekkert fátækraframfæri, og ég þekki byggðarlög, sem hafa yfir 100 kr. á nef. Ég sé ekki, að hv. þm. þurfi að furða sig mikið á því, þótt svipað sé ástatt um úthlutun ellilauna. Hins vegar skal ég játa, að það getur verið athugunarefni, hvort ástæða sé til að halda óbreyttu því skipulagi, sem upp var tekið með alþýðutryggingarl. að því er snertir ellitryggingarnar. Það getur ýmislegt mælt með því, að í staðinn fyrir að hafa ellitryggingarnar í einni heild, þá sé athuguð sú hugmynd, sem Ólafur Ólafsson setur fram, að hafa ellistyrktarsjóðinn ekki einn fyrir allt landið eða t. d. 4, heldur einn fyrir hvert sveitar- eða sýslufélag. En sem sagt, þetta er svo mikið rannsóknarefni, að það væri óvit að láta sér detta í hug, að henni yrði lokið nú á þessu þingi.

Nú skal ég upplýsa það, að í alþýðutryggingarl. er mælt svo fyrir, að áður en Lífeyrissjóður Íslands fer að borga út, þá skuli með l. ákveða upphæð lífeyrisins í hinum ýmsu byggðarlögum. Þetta ákvæði var sett vegna þess, að ekki náðist samkomulag um, hversu ákveða skyldi lífeyrinn, þegar l. voru sett. Var þá á það bent, að á engu væri að byggja um þetta atriði, þar sem ekki var þá vitað, hvernig tekjurnar kæmu inn. Þetta var alveg rétt, en þetta ætti að vera búið að sýna sig innan 10 ára. Þá verður þetta tekið til athugunar. Og það hefur vakað fyrir mér, að þegar til þessarar heildar endurskoðunar kæmi, þá yrði á ný tekið til athugunar, hvort réttara væri að hafa ellitrygginguna eina eða hafa hana meira aðgreinda. Sjúkratryggingin er ein fyrir allt landið, en hún er starfrækt fyrir hvert bæjarfélag. Og það er að minni hyggju ekki útilokað, að líkt mætti upp taka um ellitrygginguna. En það verður að sjálfsögðu að rannsakast og taka ákvörðun þar um, áður en útborganir hefjast.

Ég vona, að mér hafi tekizt að gera hv. dm. það ljóst, að hér er, eins og ég tók áðan fram, um 2 algerlega aðgreind málefni að ræða, og það væri hið mesta óráð, ef þessar hugleiðingar um breytt fyrirkomulag ættu að valda því, að tafir yrðu á afgreiðslu þess frv., sem hér liggur fyrir. Því að hvað sem má segja um það atriði, sem við hv. þm. V.-Húnv. höfum rætt um, þá raskar það að engu leyti nauðsyn þess, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu, því að það, sem hér er fram tekið í því frv., er aðeins bein afleiðing þeirrar verðbólgu, sem nú á sér stað hjá okkur.