19.05.1941
Neðri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

20. mál, alþýðutryggingar

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. N.-Þ., sem er frsm. allshn., hefur nú svarað minni fyrirspurn. Hann upplýsti, að allshn. hefði ekki tekið til athugunar þessa ályktun frá þing- og héraðsmálafundi Vestur-Ísafjarðarsýslu. Það kom fram hjá hv. þm., að hann lítur svo á, sem rétt er, að hér sé þannig málum ráðið, að það skorti nægilegar upplýsingar til þess að finna eðlilegustu lausn málsins, og að hún sé hæpin vegna þess, að nú er mjög liðið á þingtímann. Það voru aðeins nokkur atriði í ræðu hv. þm. Seyðf., sem ég vil gera aths. við. Hann hélt því fram, að það væri hreinasta fjarstæða að hugsa sér að miða þessi framlög lífeyrissjóðs til sveitarfélaga`við þau iðgjöld, sem til falla á hverjum stað til lífeyrissjóðsins. Ég skal ekki segja um það, hvor leiðin er heppilegri, en ég mótmæli því algerlega, að það sé meiri fjarstæða að hugsa sér það heldur en að haga úthlutuninni á sama hátt og verið hefur. Hv. þm. Seyðf. sagði, að það yrði að fara eftir mati hreppsnefndar, hversu mikil þörf væri á því, að þessi framlög kæmu til greina. Þetta er ekki rétt nema að nokkru leyti. Hvað sem líður áliti hreppsn. um það, hversu mikla þörf gamalmenni í hverjum hrepp hafa fyrir þennan styrk, þá vitum við það, að þetta fyrirkomulag er þannig, að sum bæjarfélög fá ekki í sinn hluta af þessu framlagi ríkissjóðs nema tæpar 9 kr. á hvert gamalmenni. Önnur bæjarfélög fá aftur á móti sem svarar 90 kr. á hvert gamalmenni. Það sjá allir, að við svona fyrirkomulag er ekki hægt að una. En ég er ekki þar með að segja, að ég eða nokkur annar sé að benda á leiðir, sem skynsamlegra sé að fara, heldur að málið sé athugað, þar sem tilefni gefst til þess, að fundin verði leið, sem heppilegri sé en sú, sem nú er farin í þessu efni.

Vel mætti hugsa sér, að það yrði gert með því

að fela ríkisstj. að láta athuga þessi mál fyrir næsta þing.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ekki mætti rugla því saman, að lífeyrissjóður hefði annað hlutverk heldur en þetta bráðabirgðaskipulag, sem er á úthlutun ellilauna og örorkubóta, og það getur verið rétt. Í 79. gr. alþýðutryggingarl. er svo ákveðið, að á meðan Lífeyrissjóður Íslands tekur ekki til starfa, þá skuli tryggingarstofnunin leggja fram fé til örorkubóta og ellilauna, sem nemur 52,50 kr. fyrir hvert gamalmenni yfir 67 ára. Þetta er það, sem lífeyrissjóðurinn leggur fram, 52,50 kr. á hvert gamalmenni, og hann fær til þess 200 þús. kr. úr ríkissjóði, og leggur svo afganginn fram sem lán, eins og hv. þm. Seyðf. sagði. Nú sjá allir hv. þm., hversu fráleitt það er, þar sem tryggingarstofnunin leggur fram 50 kr. á hvert gamalmenni, að sum héruð fá 90 kr. tillag á hvert gamalmenni, en önnur ekki nema 9 kr. Þessu þarf að breyta. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta atriði málsins. En í sambandi við þá hækkun á iðgjöldum til lífeyrissjóðs, sem 1. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir, vil ég segja það, að ég tel ekki þörf á því að hækka framlagið til lífeyrissjóðs. Iðgjöldin hafa verið 7 kr. fyrir hvern gjaldskyldan mann í kaupstöðum, en 6 kr. í kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða þar yfir, og 5 kr. fyrir hvern gjaldskyldan annars staðar á landinu. Ég sé ekki ástæðu til þess að hækka þetta gjald nú sem nemur vísitölunni, vegna þess að það verður ekki séð, að það eigi að leggja auknar byrðar á lífeyrissjóðinn samkv. þessum l. Það er tekið fram í c-lið 1. gr., að lífeyrissjóður skuli greiða 30% af upphæð ellilauna og örorkubóta. Í 4. gr. er ákveðið, að ríkissjóður endurgreiði lífeyrissjóði þann hluta af framlagi sjóðsins, sein er umfram ¾ hluta af tillagi lífeyrissjóðs samkv. 79. gr. l. Lífeyrissjóður fær endurgreitt frá ríkissjóði það aukaframlag, sem honum er skylt að greiða vegna dýrtíðarinnar. Hér er því ekki brýn þörf fyrir þessa hækkun á persónugjaldinu. Ég vil því leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við 1. gr. frv. um það, að d-liður þeirrar greinar falli niður.