10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Það þarf nú sjálfsagt ekki langa framsögu um þetta mál. Svo einkennilega stendur á, að Alþingi er í rauninni búið að samþ. það, þótt það eigi að forminu eftir að ganga hér gegnum tvær umræður. Við afgreiðslu fjárl. var þeim tekjum, sem hér um ræðir, ráðstafað að 4/5 til að greiða kostnað við lagningu akvega og malbikun þjóðvega, en 1/5 á að fara til brúargerða, og skal fyrst brúa Jökulsá á Fjöllum. — Þegar frv. þetta var lagt fyrir hv. Nd., gekk það fyrst og fremst út á það að heimila að leggja 5 aura viðbótartoll á hvern innfluttan lítra af benzíni á árinu 1943, sbr. þó nánari ákvæði, en ekki var ákveðið, hvernig með þær tekjur skyldi fara. En Nd. bætti inn ákvæðunum um það.

Fjhn. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Það kann að vera, að skoðanir hafi að einhverju leyti verið skiptar í n. um brúasjóðinn, en eins og málið liggur fyrir og vegna þess að áliðið er þings, lögðum við ekki til að gera neinar breytingar.