13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

21. mál, húsaleiga

Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Fyrst vil ég taka til athugunar síðustu málsgr. 1. gr. og 2. málsgr. 1. gr. l. frá 1940. Mig minnir, að þetta kæmi inn í Nd. í fyrra, og það urðu töluverðar umræður um það. Man ég, að hæstv. félmrh. mælti á móti þessari brtt. En það, sem gerði, að þetta var sett í frv., var það, að það er alveg sýnilegt, að gera verður greinarmun á, hvort um einstök herbergi eða íbúð er að ræða. Er það af þeirri ástæðu, að það eru svo hundruðum — eða þúsundum — skiptir herbergja, sem eru leigð út frá íbúðum og kannske þá ekki nema mánaðartíma í einu og á mismunandi tíma árs, og því gersamlega ókleift verk að líta eftir þeim öllum. Vegna vaxandi dýrtíðar og þeirra takmar kana, sem settar eru í 1., er vitað, að húseigendur munu í mörgum tilfellum vilja þrengja að sér og leigja út einstök herbergi og hafa þannig af húsum sínum nokkrar tekjur. Þetta var til umr. í deildinni í fyrra, og greinin, sem tekin var upp í frv., er alveg shlj. því, sem er í l. Og satt að segja datt n. ekki í hug, að orðið gæti ágreiningur um þetta atriði út af fyrir sig. En það virðist koma upp nýr ágreiningur, hvað átt sé við með orðinu „einhleypur“. Ég hef ekki verið í neinum vafa, hvernig það ætti að skilja þó að nú ætti að vera ástæða til nokkurs efa, þegar hæstv. ráðh., sem er lögfræðingur. vill skýra þetta öðruvísi. Það þýðir, að sá, sem býr í herberginu, hefur ekki aðgang að eldhúsi. Það er sem sé gerður sá stóri munur á íbúðum og einstökum herbergjum. (Félmrh: Hvað er þá „einhleypur“ þarna?) Það má segja, að það sé kannske ekki rétt að hafa þetta í frv. En það skiptir engu máli, hvort einn eða fleiri menn eru í herberginu, hvort það er karl eða kona, tvær konur eða tveir karlmenn. (BÁ: Eða hjón með barn!) Það eru þeir, sem eru í herbergi, sem ekki veitir íbúunum aðgang að eldstó. Og munurinn er sá, að það er hægt að segja slíkum leigjendum upp með 14 daga fyrirvara, en ef aðgangur er að eldhúsi, þá með 3 mánaða fyrirvara. Þetta er það, sem vakti fyrir mér. Það má segja, að það brjóti í bága við það, sem almennt er meint með orðinu „einhleypur maður“, en ég á við einhleyps manns not af herberginu. Það þýðir þetta teknískt, að hann búi þarna, en borði ekki eða hafi aðgang að eldhúsi.

Hv. þm. Mýr. býr á Reykjum. Setjum, að hann leigi um þingtímann hjá mér eitt ákaflega gott herbergi, en ég leigi honum nokkuð dýrt. Kveðst hann þá skjóta málinu undir úrskurð húsaleigunefndar. Ég segi „nei, þú ert einhleypur, hefur einhleyps manns not af herberginu, það er enginn aðgangur að eldhúsi.“ Svo eitt laugardagskvöld kemur kona hv. þm. ofan frá Reykjum og ætlar að búa hjá honum næstu viku eða svo. Getur hann þá farið til húsaleigunefndar með húsnæðismál sitt? (BÁ: Ef ég er ekki einhleypur.) Hann er í þessum skilningi einhleypur eftir sem áður. Ef ætti að gera greinarmun, þá er eðlilegt að tiltaka eins og í frv. Fasteignaeigendafélagsins skilgreiningu milli íbúða þeirra, sem hafa aðgang að eldhúsi, og hinna.

Mér þótti ekki sanngjarnt hjá hv. 4. landsk. að ætlast til, að húseigendur fái ekki hækkun sem svarar viðhaldskostnaði. (ÍslH: Það var ekki það, sem ég talaði um, heldur seinni málsl.) Um matið? (ÍslH: Já.) Sú málsgr. er shlj. lögunum eins og þau voru. Það er fjöldi íbúða í Reykjavík, sem eru ekki leigðar án hita, heldur með hita. Það er ein miðstöð fyrir margar íbúðir. Ef ágreiningur er um hækkun á húsaleigu vegna þess að kolin hækka í verði, þá er réttur til þess að leggja undir mat húsaleigunefndar, sem á jafnt að gæta hagsmuna húseigenda og leigjenda. Það er ekki heldur um að tala að hækka húsnæðið sjálft, heldur aðeins greiða dýrara eldsneyti. Það má gera ráð fyrir, að fasteignaskatturinn hækki, og þá er leyfilegt að taka fyrir því. Nú á líka að setja nýjan skatt á, tryggingarskatt. Er vel líklegt, að húsaleigun. fallist á nokkra hækkun þess vegna.

Hv. 4. landsk. spurði, hvað n. skoðaði almennan viðhaldskostnað. Hún getur enga reglu gefið um það; það verður hagstofan að gera, af sinni reynslu og þekkingu. Hún hefur sínar töflur yfir marga liði og tekur meðaltal af hækkuninni; og þá kemur vísitalan, eins og dýrtíð í landinu er fundin með því að gefa upp ákveðnar vörutegundir og reikna út frá mismun á verði þeirra nú og áður. En það er sú almenna vísitala um viðhald húsa, sem á að reikna út, en ekki fyrir einstök hús.

Hæstv. félmrh. minntist á, að réttast væri að láta þessa vísitölu ná til þeirra, sem hafa lagt húsaleigusamning fyrir húsaleigun. til úrskurðar. Þetta atriði hefur verið til sérstakrar athugunar hjá húsaleigun., en hún komst að þeirri niðurstöðu, að það skipti litlu máli, af þeirri ástæðu, að bæði húseigandi og leigutaki eiga kröfu til þess hvenær sem er að hafa skriflega samninga eða leggja þá samninga fyrir húsaleigun. til samþykktar. Það kann að vísu að vera svo, að menn hiki við þetta stundum. En n. komst að þeirri niðurstöðu, að sá réttur, sem leigutaki hefur til þess að fá úrskurð á sitt húsnæði, sé ekki betur tryggður, þó að þetta ákvæði væri sett, því að þeir hafa þennan rétt samkv. l.

Það mun sýna sig í haust, að ef ekki á að taka fastari tökum á þessu máli en hér virðist standa til að gera, þá munu stjórnarvöldin, bæði bæjarstj. og ríkisstj., komast að því, að hér verða þau vandræði á ferðinni, sem verða illviðráðanleg.