09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, hervernd Íslands

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti t Þeir atburðir, sem nú hafa gerzt, áttu ekki að koma neinum á óvart, en þó að allur málatilbúningur sé þannig, að hann hefur verið gerður með tilliti til þess, að þeir kæmu einmitt sem mest á óvart. Það hefur um langt skeið verið mikið um þessa atburði rætt, bæði í íslenzkum blöðum og í heimsblöðunum.

Í 1. maí ávarpi kommúnista 1940 er frá því skýrt, að Bandaríkin hafi í hyggju að sölsa undir sig yfirráðin á Grænlandi og Íslandi. Frá þessu var skýrt í þessu ávarpi fyrir meira en ári síðan. Þetta var nokkru áður en brezkur her steig hér á land.

Áður en þingfundir hófust í febr. í vetur, voru þm. þjóðstjórnarfl. á, lokuðum fundi til þess að ræða utanríkismál. Enginn fékk að vita, nema þeir, sem á fundinum voru, hvað þar var rætt, en hins vegar dró það enginn í efa, að umræðuefnið var einhver boðskapur frá Bandaríkjunum.

Þessu var haldið leyndu fyrir þingi og þjóð. Það bendir þess vegna margt til þess að í raun og veru hafi verið samið um þetta mál í aðalatriðum fyrir mörgum mánuðum siðan. Ríkisstj. getur áreiðanlega ekki fært fram neinar afsakanir fyrir því, að málið var ekki lagt fyrir Alþingi. Hvað sem leið formsatriðunum í viðskiptunum milli stjórnar Bandaríkjanna og ríkisstjórnar Íslands, þá vissu allir, að þessir atburðir vofðu yfir, og var því nógur tími til þess að ræða þetta mál við Alþingi, áður en þm. fóru heim.

Það var frá því skýrt í blöðum þjóðstjórnarinnar hér í bænum, að á fundi þjóðstjórnarþm., sem haldinn var nokkru áður en ákvarðanir voru teknar um að fresta kosningunum, þar hafi komið fram svo mikil rök fyrir nauðsyn þess, að kosningunum yrði frestað, að allur ágreiningur hefði fallið niður, þegar menn hefðu kynnt sér þessi rök.

Hver voru nú þessi dularfullu rök? — Hæstv. forsrh. minnti okkur á það í ræðu sinni, að það mundi hafa verið erfitt að hafa kosningar nú á þessum sama tíma, sem ríkisstjórnin stóð í samningum við stjórn Bandaríkjanna. Það skyldi þó aldrei hafa verið, að þessi dularfullu rök hafi einmitt verið þeir atburðir, sem nú hafa gerzt? Menn spyrja: Var nauðsynlegt að tryggja það, að ekki yrðu stjórnarskipti, af því að búið var að gera leynisamninga við stjórn Bandaríkjanna, leynisamninga, sem ekkí hefðu verið bindandi fyrir nýja stjórn, hefðu kosningar farið fram og stjórnarskipti orðið?

Þegar við svokallaðir alþingismenn erum nú kvaddir hér til fundar, er það í raun og veru aðeins formsatriði. Þetta er okkur öllum ljóst. Það hefur aldrei verið ætlazt til þess, að við tengjum neitt úrskurðarvald, í þessu máli. Þess vegna var þessi háttur hafður á öllum málatilbúningi.

Við stöndum nú augliti til auglitis við orðinn hlut. Þar fáum við engu um þokað. Við getum aðeins mótmælt, og það munum við þm. Sósíalistafl. gera, og þau mótmæli hljóta jafnframt að verða skoðuð sem vantraust á ríkisstjórnina.

Samningur sá, sem ísl. ríkisstjórnin hefur gert við stjórn Bandaríkjanna, er gerður í fullu heimildarleysi og umboðslaust frá þjóðinni. Engin ríkisstjórn getur gert ráðstafanir, sem ákvarða örlög íbúa landsins nú og í framtíðinni, án þess að spyrja þing og þjóð.

Þetta skref, sem nú hefur verið stigið, er áreiðanlega örlagaríkasta skrefið, sem stigið hefur verið í utanríkismálum Íslands, síðan landið fékk innlenda stjórn. En sú stjórn sem nú fer með völd á Íslandi, er ekki lögleg stjórn og hefur ekki heimild til þess að gera neitt í nafni þjóðarinnar. Og því miður er þessi hv. samkunda jafnólögleg og jafnumboðslaus frá þjóðinni og ríkisstjórnin. Ég álít nauðsynlegt að leggja áherzlu á þessa hlið málsins, enda þó að við séum vanmáttugir og verðum að sætta okkur við staðreyndirnar.

Ísl. þjóðin hefur ekki afsalað sér neinum réttindum og ekki heldur lýst sig reiðubúna til þess að fela Bandaríkjunum vernd Íslands. Slík yfirlýsing er með öllu persónulega á ábyrgð þeirra ráðherra, sem nú fara með völd í landinu. Orðsending hæstv. forsrh. til forseta Bandaríkjanna felur í sér ósk um hervernd Bandaríkjanna. En þegar Bretar komu hingað, þá var þeirri hertöku mótmælt. Hér er um að ræða mótsögn í afstöðu ísl. ríkisstjórnarinnar. Ef það er í samræmi við hagsmuni Íslands nú, að landið sé tekið undir erlenda hervernd, hvers vegna vár það þá í mótsögn við hagsmuni Íslands þá? Á því hefur engin skýring verið gefin. En þrátt fyrir það, þó að þessi algera mótsögn hafi verið í formsatriðum á afstöðu ríkisstj. til hertöku Breta, og svo aftur til hertöku Bandaríkjanna nú, þá er allur málatilbúningur mjög svipaður þá og nú. Í bæði skiptin vissi ríkisstjórnin um hertökuna, jafnvel mörgum mánuðum fyrir. Í bæði skiptin er sennilegt, að samkomulag hafi farið fram um afhendingu Íslands, löngu áður en almenningi urðu staðreyndirnar kunnar. Í bæði skiptin var þing og þjóð leynt því, sem verið var að gera, og í bæði skiptin gefur hið erlenda hervald hátíðleg fyrirheit um að hverfa héðan að styrjöldinni lokinni, að skipta sér ekki af innanlandsmálum Íslands og sjá um, að landið fái hagkvæm viðskipti og örugga vernd. Munurinn er aðeins sá, að brezka stjórnin hefur gefið ísl. stjórninni frjálsari hendur til þess að þvo sig hreina heldur en stjórn Bandaríkjanna hefur talið sér fært, og til þess liggja gild rök hjá stjórn Bandaríkjanna. Og einmitt þess vegna voru mótmælin borin fram.

Það mun verða litið svo á, að með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. til forseta Bandaríkjanna, hafi Ísland glatað hlutleysi sínu. Það skiptir i raun og veru ekki miklu fyrir okkar rökræður, hvernig verður litið á það mál, eða þó að farið verði í harða skilgreiningu á orðinu hlutleysi, það er alls ekki þetta, sem skiptir máli, heldur hin praktíska hlið málsins, hvernig á það er lítið af öðrum þjóðum. Þýzka útvarpið lét ekki á sér standa að lýsa því yfir, að. Bandaríkin séu komin þangað, sem stríðið er, og þar verði skotið án allrar miskunnar.

Þrátt fyrir þetta, ef það væri rétt, að þessar ráðstafanir væru í samræmi við hagsmuni ísl. þjóðarinnar, eins og í yfirlýsingunni stendur, þá væri vitanlega ekkert við það að athuga, þó að við höfum gert ráðstafanir, sem litið verður þannig á, að við höfum glatað okkar hlutleysi, ef trygging væri fyrir því, að við héldum sjálfstæði okkar óskertu eftir styrjöldina, að allur herafla yrði fluttur burtu, að engin afskipti yrðu höfð af innanlandsmálum vorum og að við fengjum hagkvæm viðskipti og örugga hervernd. Og ef raunverulega vofði sú hætta yfir landinu, að það yrði að sæta sömu hryllilegu örlögunum og Danmörk og Noregur, þá ber vissulega á að að líta, og þá væri ekki hægt að neita því, að gild rök væru fyrir því, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, væru í samræmi við hagsmuni Íslands.

Ef ráðstafanir Bandaríkjanna yrðu til þess, að veitt yrði virk aðstoð í þeirri baráttu, sem háð er á austurvígstöðvunum, þá mundu Íslendingar ekki heldur telja eftir sér það, sem af því stafaði; en það er bezt að láta verkin tala. Enginn getur láð Íslendingum, þó að þeir myndi sér skoðanir skv. fenginni reynslu. Enginn getur láð þeim, þó þeir séu tortryggnir.

Hertaka Íslands er blátt áfram gerð til þess að bæta hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna á norðanverðu Atlantshafi. Hún er undirbúningur undir styrjöld, sem Bandaríkin gera ráð fyrir að lenda í við Evrópuríki, hvert sem það veldi verður. Þetta er ekki annað en það, sem Bandaríkjastjórn hefur sjálf lýst yfir. Brjótist þessi styrjöld út, þá verður Ísland eitthvert geigvænlegasta hættusvæðið. Við verðum að horfast í augu við þá hættu, að land vort verði gert að blóðugum vígvelli. Hvað segja menn svo um „samræmið við hagsmuni Íslands?“

Það er gott að hafa skjalfest loforð. En hvernig sem á þau loforð er litið, þá er það vist, að ekkert er eins hættulegt smáþjóð eins og það að eiga allt sitt undir náð eins herveldis: Það eru endalokin á allri sjálfstæðri utanríkispólitík.

Áður en styrjöldin brauzt út, lagði Sósíalistafl. það til, að reynt yrði að fá Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin til að ábyrgjast sameiginlega öryggi Íslands og lofa því sameiginlega, að hlutleysi þess, friðhelgi og sjálfstæði yrði ekki skert. Þetta hefði verið sjálfstæð utanríkispólitík. Það orkar nú ekki tvímælis, að ef þetta hefði tekizt, þá væri afstaða Íslands öll önnur og betri nú. Hvert það skref, sem tekið hefði verið gagnvart Íslandi, hlaut þá a.m.k. að verða milliríkjamál milli þessara landa. En ríkisstjórnin mátti ekki heyra nefnt, að þessi leið yrði farin. Taldi það fjarstæðu. Yfirleitt taldi hún fjarstæðu að stíga nokkurt sjálfstætt skref í utanríkismálum. Það ætti nú að vera orðið öllum ljóst, hversu skammsýn „utanríkispólitík“ ríkisstjórnarinnar var.

Þó þetta sé nú um seinan, þá er þó enn ekki of seint að sjá sig um hönd og bjarga því, sem bjargað verður.

Sósíalistaflokkurinn álítur það skyldu ríkisstjórnarinnar að gera nú þegar tilraun til þess að fá sameiginlega yfirlýsingu frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Sovétríkjunum um, að sjálfstæði Íslands verði að fullu tryggt og enginn herafli hafður hér, að stríðinu loknu.

Fyrsta skrefið verður að vera að taka tafarlaust upp stjórnmálasamband við Sovétríkin og rannsaka möguleikana til verzlunarviðskipta við þau.

Ég vil nú skora á ríkisstjórn og forseta að hlutast til um, að Alþingi taki þetta mál sérstaklega til meðferðar, svo tækifæri gefist til þess að ræða og afgreiða þingsályktunartillögu um þetta efni, áður en þingmenn hverfa aftur heim. Ég óska eindregið eftir, að skýr svör verði gefin við þessari málaleitun.

Ég vil leggja áherzlu á, að við Íslendingar kappkostum að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að sambúðin við ameríska setuliðið geti orðið sem vandræðaminnst. Þetta er fyrst og fremst undir því komið, hversu vel hinn erlendi her stendur við skuldbindingar sínar um að skipta sér ekki hið minnsta af innanlandsmálum vorum.

En við Íslendingar megum ekki heldur láta neitt á skorta af okkar hálfu, til þess að sambúðin geti orðið sem bærilegust. Það, sem mest á ríður, er, að við höldum djarflega á rétti vorum, forðumst allan undirlægjuhátt og látum engum Íslendingum haldast uppi að ganga í þjónustu erlends valds. Mest er undir því komið, að í þessu efni endurtaki sig ekki neitt af því, sem áfátt hefur verið í sambúðinni við Breta. En við verðum líka að gæta þess vel að forðast allt, sem valdið geti árekstrum við hið erlenda setulið. Það má ekki takast að ala á neinum fjandskap eða úlfúð milli hermannanna og íslenzku þjóðarinnar. Það er andstæðingum íslenzkrar alþýðu einum til gagns, að særður þjóðarmetnaður gefi sér útrás í andúð gegn hermönnunum, sem við eigum engar sakir við. Það er sama, hvort alþýðumaðurinn í hermannakufli á heima í Bandaríkjunum, Bretlandi eða í öðrum löndum, hagsmunir hans eru alls staðar hinir sömu. Við viljum lifa í friði við allar þjóðir, og stefna okkar sósíalista er bræðralag alþýðunnar í öllum löndum. Baráttan fyrir frelsi íslenzku smáþjóðarinnar er óhugsandi nema í bandalagi við frelsisbaráttu fólksins í öðrum löndum. Þetta verðum við að muna í allri sambúð vorri við erlent setulið. Þeir munu reynast beztu Íslendingarnir, sem hafa hina sósíalistísku alþjóðahyggju að leiðarvísi í allri sinni framkomu.