09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, hervernd Íslands

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti ! Ég er eina þeirra manna, sem hafa hiklaust talið, að þjóðinni væri bezt borgið með því að þræða hinn þrönga veg algers hlutleysis. Samkvæmt því var ég andvígur þeirri skoðun, að Ísland bæði um vernd frá nokkru herveldi.

Ég skal ekki neita því, að í gærmorgun, þegar mér var tilkynnt, að amerískur her væri kominn í bæinn, lét það mér illa í eyrum, að við skyldum kvaddir hér saman til að mæta á Alþingi. Það leit óneitanlega svo út, sem við ættum að koma og klappa og segja já og amen við því, sem hafði verið gert. Það gat litið svo út í fyrstu, sem Bandaríkin hefðu beðið þess, að Alþingi yrði sent heim, áður en til skarar væri látið skríða til að fá fram þá málaleitun af Íslands hálfu, sem fram er komin. En því meir, sem ég hef hugsað þetta mál, hef ég orðið sannfærðari um það, að hæstv. ríkisstj. hafi valið þá leið, sem ein var rétt.

Þegar ég kom hingað, var ég alls ekki ráðinn í því, hvernig ég mundi greiða atkv. í þessu máli, en eftir þær upplýsingar, sem fram hafa komið frá hæstv. ríkisstj., og eftir að hafa hugsað málið gaumgæfilega, er ég ekki í neinum vafa. Samt get, ég ekki annað en harmað það, að atvikin hafa neytt okkur til þess að hverfa frá því hlutleysi, sem við áður fylgdum. En hins vegar virðist mér ríkisstj. hafa fengið í þessum samningum svo veigamikil atriði, að eftir að hafa kynnt mér þau, eins og allir hv. þm. hafa sjálfsagt gert, finnst mér það mega vekja undrun, hve langt bæði Bretar og Bandaríkjamenn virðast hafa gengið í því að gefa yfirlýsingar, sem eiga að geta tryggt rétt okkar í framtíðinni til sjálfstæðis og verulegra fjárhagslegra umbóta frá því, sem nú er. Ef maður aftur á móti hugsar sér, hvernig hefði farið, ef þessu — hefði verið neitað, þá hefðu áreiðanlega ekki fengizt fram þær yfirlýsingar Breta og Bandaríkjamanna, sem nú eru fengnar. En eins og komið er, get ég ekki séð, að neitt annað en yfirlýsingar þessara þjóða geti fært okkur í þá átt að tryggja fullveldi okkar í framtíðinni. Og ég hygg, að þrátt fyrir það, þó mörg loforð stórveldanna bregðist, þá sé ekki ástæða til annars en ætta, að þessar þjóðir, sem berjast fyrir samningarétti meðal þjóðanna, muni halda þau loforð, sem þær gefa minnsta ríki veraldarinnar á þessum tímum.

Ég býst ekki við, að það hafi neina þýðingu að fara mörgum orðum hér um. Ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. liti svipuðum augum á þetta og ég, og að þeir skilji, að ríkisstj. hefur tekið þá stefnu í þessu máli, sem hefur ekki aðeins verið rétt, heldur sé ein líkleg til að geta leitt þjóðina sæmilega farsællega að borði friðarsamninga, hvenær sem þangað kemur. Afstaða ríkisstj. virðist vera í samræmi við raunhæfa stjórnmálastefnu, m.a. og fyrst og fremst miðað við þá legu, sem land okkar hefur. En við megum ekki gleyma því, að þótt nú virðist sæmilega horfa um framtíðina, bæði hvað fullveldi og fjárhagsafkomu snertir, þá hlýtur fullveldi þjóðarinnar að. eiga sinn aðalgriðastað innan vébanda þjóðarinnar sjálfrar, og að því verður fyrst og fremst að vinna, meðan hríðin blæs.

Þetta er aðeins mín greinargerð fyrir því, að ég mun, að athuguðu máli, greiða atkv. með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir hinu háa Alþ.