29.10.1941
Neðri deild: 8. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

4. mál, húsaleiga

Gísli Sveinsson:

Ég skal ekki tefja lengi umr. og framkvæmd þessa máls, úr því sem komið er. Tvö sjónarmið, nokkuð andstæð, hafa komið fram, því að 1. eru sett til að miðla málum milli tveggja aðila, sem hafa að nokkru leyti andstæðra hagsmuna að gæta. Hér er m. ö. o. verið að setja þvingunarl., sem báðir aðilar eiga að beygja sig fyrir, — og raunar hafa þau þegar gilt nokkra hríð, voru sett á þinginu 1940 og breytt á s. l. þingi og síðan seint í sumar með þeim brbl., sem nú liggja fyrir Alþ. til staðfestingar. Þvingunarl. eru báðum aðilum viðkvæm, þótt húsnæðismál séu yfirleitt viðkvæmari leigutaka en leigusala, og það orkar mjög tvímælis, hvort brbl. hafi orðið til bóta í húsnæðisvandræðunum eða verði það hér eftir. Það virðist tilgangur þeirra að herða svo á húsaleigul., að þau komi að meiri notum en áður. Í framkvæmdinni verður oft annað uppi á teningnum, áhrifin beinlínis neikvæð. Auðvitað eiga þeir, sem að 1. stóðu, enga vísvitandi sök á því. Þeim hefur fundizt, að þetta yrði að gera og það mundi bæta úr skák. Framkvæmdin á 2. gr. er bezta dæmið. Það hefur komið fram fyrirspurn um, hvort bannið við því að leigja utanhéraðsmönnum næði til erlendra hermanna, og kvað hæstv. félmrh. svo vera, gallinn aðeins sá, að þeir væru ekki undir íslenzkum lögum, — þar á móti væru þeir, sem leigja þeim, undir íslenzkum lögum. Svar ráðh. var því óþarflega tvírætt. Hann gat sagt það fullum stöfum, að þetta ákvæði 2. gr. er þarna máttlaust, þessu verður ekki kippt í lag. Sé svo ástatt í þjóðfélaginu, að hér sé hópur manna utan laga og réttar, þýðir ekki annað en játa það hispurslaust, — ekkert betra að þola það án þess að kannast við það. Ekki er hægt að ætlast til, að húseigendur, sem hafa e. t. v. hagnað af að halda einmitt í þessa erlendu leigjendur, fari að brjótast í því á eigin spýtur að koma þeim úr húsunum. Ég vil hvorki neita því eða játa, að húseigendum þyki betur borga sig að leigja enskum foringjum en öðrum, en hitt er mannlegt, þegar þeim líkar vel við leigjendurna, að þeim sé ekki kappsmál að losna við þá.

Á tvennan hátt geta er lendir menn verið hér undir lögum, sem ferðamenn og þá undir innlendum lögum eða sem hertökuþjóð og þá undir herlögum. Í þriðja lagi munu teljast þeir hermenn, sem hafa tekið sér húsnæði á leigu í Reykjavík án tilhlutunar herstjórnarinnar og án þess að vera ferðamenn. Þeir sitja þar í engum lögum, hvorki hers né heimaþjóðar, og geta ekki á neinn veg sett sig móti vilja landsmanna nema í krafti ofbeldisins.

Í annan stað eru þess mörg dæmi, að þeir, sem mestan eiga réttinn og þörfina, fá ekki inni og eru hraktir úr sínum eigin húsum. Það hefur t. d. komið fyrir hér í Reykjavík, að fólk, sem fer í sumarbústað og ljær íbúð sína einhverjum öðrum á meðan, hefur ekki fengið að komast inn í íbúðir sínar, er það hefur komið aftur að haustinu. Þá er í millitíðinni komin húsaleigunefnd, sem úrskurðar, að það fólk skuli sitja áfram í íbúðunum, sem fyrir er. Slík framkoma er alveg frámunaleg.

En þetta tel ég ekki ágalla á 1., heldur á framkvæmd þeirra. Mér er líka kunnugt um eitt dæmi úr kauptúni utan Reykjavíkur, þar sem fólk flutti úr íbúð sinni og léði hana öðrum í 2 mánuði. Konan fór til foreldra sinna uppi í sveit með börnin, en maðurinn fór til sjós.

Þegar hjónin koma aftur, liggur fyrir úrskurður húsaleigunefndar á staðnum um, að tvær gamlar konur, sem fengu íbúðina leigða, skuli sitja, en konan verður að flýja til foreldra sinna aftur með börnin. — Þetta mál var borið undir mig, en ég stóð alveg ráðalaus og taldi réttast, að þau sneru sér til húsaleigunefndar að nýju eða til lögreglustjóra, en það kom þá í ljós, að hann var formaður húsaleigunefndar og því lítillar hjálpar að vænta úr þeirri átt.

Út úr þessum ógöngum sé ég aðeins eina leið. Framkvæmdum verður að haga hér á sama hátt og alls staðar annars staðar á sér stað, þar sem dæmandi nefndir starfa, að úrskurðum þeirra megi skjóta lengra áleiðis. Hér vantar yfirdóm, sem tekið geti við kærum yfir úrskurðum undirnefndanna. Því að þó að menn haldi, að ríkisstj. geti ráðið fram úr þessu, þá er því ekki þann veg farið, því að samkv. gildandi venjum getur hún það ekki, þar sem úrskurðar valdið er falið öðrum. Og það er ekki heldur hægt að fara til dómstólanna, nema upplýst sé, að um beint lagabrot sé að ræða. Ég vil því beina því til allshn., sem mun fá þetta mál til meðferðar, — í þeirri von, að hún verði starfhæf, er þar að kemur, þótt nú sé að vísu aðeins einn maður uppistandandi úr henni hér í deildinni, — að hún taki til athugunar, hvort ekki væri nauðsynlegt að koma hér á yfirdómi eða skipa yfirhúsaleigunefnd. Mætti skipta því máli í tvennt eftir umfangi þess, t. d. í Reykjavík og utan Reykjavíkur. — Nú er það vitanlegt, að langflestir úrskurðir eru felldir hér í Reykjavík, og þótt í nefndinni séu ágætir menn, þar af tveir lögfræðingar, þá skilst mér, að ekki verði hjá því komizt að skipa yfirhúsaleigunefnd, er taki við málum þeirra, er ekki vilja hlíta úrskurði nefndarinnar.

Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Rang. vil ég geta þess, að við slíkar nefndir eða dóma fellur úrskurður eftir öllum málavöxtum, að svo miklu leyti sem þeir koma fram fyrir nefndina. En það er ekki hægt að ætlazt til þess, að nefndarmenn séu á hnotskóg eftir meira eða minna ábyggilegum upplýsingum. Aðilar verða sjálfir að færa fram fyrir nefndina öll sín gögn, og væri yfirhúsaleigunefnd, yrði á sama hátt að færa fram fyrir hana allt, sem fram hefði komið í málinu, og það, er síðar kynni að hafa komið fram. — Virðist sjálfsagt að skipa slíka yfirnefnd, og það því fremur sem þess má vænta, að lög þessi verði að gilda um nokkurt árabil, því hér virðist, að um viðvarandi ástand verði að ræða, eins og nú horfir.