20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

4. mál, húsaleiga

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Eins og hv. þm. er kunnugt, þá fór þetta mál um húsaleiguna til Ed. með ákvæðum í viðbót við brbl., er voru samþ. hér í hv. d., og var 4. gr. ný í frv. Þessi 4. gr. var um stofnun yfirstigs í húsaleigumati. Það var, eins og allshn. þekkir, skoðun meiri hluta þm. hér í d., að nauðsyn væri á yfirdómstól yfir húsaleigun. þeim, sem eru í landinu, því l. væru svo úr garði gerð, að ekki mætti við hlíta, enda dæmi til, að gengið hafi í handaskolum hjá ýmsum n. um þessi mál. Þessi breyt. hafði svo verið sett í frv. hér í d. Þannig var málið vaxið, að ekki var ætlazt til, að neitt yfirmat væri á húsaleigunni sjálfri, því utan Reykja

víkur var þess engin þörf. Aðalatriðið var, að þær ákvarðanir, sem n. tóku í húsaleigumálunum, gátu orkað tvímælis og voru oft beinlínis ranglátar. Nú er, eins og l. verða skilin, ekki neinn dómstóll, sem gat hrundið ákvörðunum n., hversu óréttmætar sem þær voru.

Nú hefur Ed., þvert ofan í okkur, bætt inn í upphaf gr. ákvæðum, sem gera tilgang okkar í málinu alveg einskisverðan. Það er óhæft að láta húsaleigun. alveg einráðar í þessum efnum og setja mönnum reglur um, hvernig þeir eigi að lifa í landinu, þegar svo þar við bætist, að í mörgum n. úti um land hafa nm. enga lögfræðiþekkingu. Hvernig á slíkt að geta staðizt til lengdar? Fyrir þessar sakir var þessi breyt. gerð, og ef það á að standa, sem Ed. hefur sett inn í frv., þá væri betra að fella gr. alveg niður. Nú hefur Ed. lokað fyrir sig og hyggst með því að stöðva aðgerðir Nd., en mér finnst ekki eiga að taka tillit til þess, því þetta þarf fram að ganga, og þess vegna höfum við komið hér með brtt., sem á að fella þau ákvæði, er Ed. hefur samþ.

Ég hugsa, að hæstv. félmrh. segi, að þá séu l. fallin, en það er mjög einfalt að gefa út brbl. aftur um þessi mál. En hvað um það, þá er það okkar eindregna ósk, að þessi hv. d. samþ. brtt., því ef það verður ekki gert, þá er verr farið en heima setið.