28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (335)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Jón Pálmason:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur orsakað það, svo sem kunnugt er, að sundra ríkisstj., áður en það er lagt fram á Alþ.

Um slíkt mál er því ástæða til að ræða hér á þingi og segja afdráttarlaust kost og löst á því. Það virðist auðsætt, að stærsti flokkur þingsins, Framsfl., ætlar að gera þetta frv. að höfuðmáli í þeirri kosningabaráttu, sem hann hefur nú stofnað til. Hann leggur svo mikla áherzlu á, að það gangi fram óbreytt, að hann telur ekki fært að hafa menn sína í ríkisstj., fyrst það ekki fæst. Þetta bendir til þess, að þeim flokki, sem slíkt tekur til bragðs, finnist allur hagur lands og þjóðar velta á framgangi þessa máls og það á tímum, sem eru þannig, að aðrir menn telja það mestu varða af öllu fyrir þetta land að slanda fast saman gegn þeim erlenda yfirgangi, sem þjóðinni stafar mest hætta af.

Þrír hæstv. ráðherrar hafa haldið hér sínar ræður, hver fyrir sinn flokk, og það leynir sér ekki, í hverju aðalágreiningur þeirra liggur.

Atvmrh. og félmrh. telja báðir ýmislegt við frv. að athuga og eru vantrúaðir á, að lögfesting þess verði nokkurt allsherjar bjargráð fyrir okkar þjóð. Flm. frv., hæstv. viðskmrh., telur aftur á móti þetta frv., ef að 1. yrði, þann „kínalífselixír“, sem allar okkar fjármálameinsemdir eigi að lækna og muni lækna. Það er hjá honum sama sigurvissan eins og þegar hann byrjaði sinn ráðherraferil hér á þingi fyrir 7 árum og lýsti því með miklum sannfæringarkrafti, að hann ætlaði að lækna öll okkar vandræði, útrýma atvinnuleysi, örðugleikum framleiðslunnar o. s. frv. með því að auka kaupgetuna og loka hana svo inni með innflutningshöftum og gjaldeyriseftirliti. Þá var kaupið hækkað, skattarnir hækkaðir, verklegar framkvæmdir auknar o. fl. o. fl. — Núna liggur svo mikið á að koma hinu mikla og áhrifasterka meðali í 1., að ekki má bíða reglulegs þings. Aukaþing er kallað saman og allt annað verður að víkja fyrir hinni stóru hugsjón og nauðsynlegu ráðstöfun. Ég skal nú ekki rekja sögu þessara mála síðan stjórnin tók við völdum. Hún er háttv. þm. kunn og einnig það, að ég hef öðrum fremur verið óánægður með aðgerðir og aðgerðaleysi hæstv. stjórnar til að koma í veg fyrir það öldurót, sem orðið hefur nú þegar í okkar fjármála- og atvinnulífi. Þá sögu skal ég ekki rekja að sinni, en snúa máli mínu beint að frv. sjálfu, og er þá fyrst: lögfesting kaupgjalds.

Að ákveða fulla verðlagsuppbót á kaupgjald og laun hef ég frá upphafi talið rangt, — auk þess sem þeim ráðstöfunum er hagað á þá leið, að ekkert tillit er tekið til fjölskylduþunga viðkomandi aðila og þeir fá allir hæsta verðlagsuppbót, sem hæst hafa launin áður. Um breyt. á þessu er ekkert í því frv., sem hér liggur fyrir, heldur á að lögfesta kaupgjaldið og verðlagsuppbótina eins og það er nú. Þetta gæti að vísu verið gott, ef unnt væri að framkvæma það með sæmilegu réttlæti og undandráttarlaust fram yfir stríð. En þetta er ekki svo einfalt mál sem ráðherrann virðist halda. Þetta hefur tvisvar verið gert, en í bæði skiptin á takmörkuðu sviði. 1937 var lögfest með gerðardómi ákveðin till. í vinnudeilu, og 1939 var lögfest samningsbundið kaupgjald eins og það var, með takmarkaðri verðlagsuppbót eftir föstum reglum. Í bæði skiptin heppnaðist þetta vel. Nú er farið fram á að lögfesta allt kaupgjald í landinu. Þetta getur tekizt alls staðar þar, sem samningsbundnir kauptaxtar eru fyrir hendi. Þó virðist, að verkföll gætu orðið örðug viðfangs, en í frv. eru engin ákvæði um að banna þau. Við skulum samt gera ráð fyrir, að til þeirra kæmi ekki, af því kaupgjald og atvinna er yfirleitt í góðu gengi fyrir verkamenn og fjárhagsaðstaða betri en venjulega. En málið er ekki þar með leyst, því þá er eftir vinnan hjá setuliðinu og öll sveitavinna. Þetta tvennt er það, sem mestum vandkvæðum hefur valdið og veldur í okkar verkamálum síðan herliðið kom hingað, og ég hef enga trú á, að lögfesting kaupgjalds komi að haldi um þessi atriði. Ef þetta á að halda gagnvart vinnunni hjá herliðinu, þá verður ríkisstj., hver sem hún er eða verður, að sýna meiri skörungsskap og einbeitni heldur en við höfum hingað til orðið varir við á því sviði. Og ég held, að hæstv. stjórn hefði átt að byrja á því að koma því í fast kerfi, hve mikið af íslenzku vinnuafli mætti taka til útlendra manna og með hvaða kostum, áður en hún fór fram á, að Alþ. lögfesti allt annað kaupgjald. — Um sveitavinnuna er það að segja, að engin dæmi eru áður til í okkar sögu, sem sambærileg eru við það ástand, sem nú ríkir í sveitum landsins. Alla þá tíð, sem Framsfl. er búinn að stjórna í þessu landi, sem nú er orðið í 14 ár, hefur vinnandi fólkið sópazt burtu úr sveitum landsins í stórum stíl. — Sá straumur hefur farið vaxandi eftir því, sem lengra hefur liðið, en þó tók fyrst steininn úr, þegar setuliðsvinnan kom til sögunnar og allt það kapphlaup, sem í kringum hana hefur skapazt. Nú er svo komið, að á þessu hausti eru meiri vandræði fyrir bændur víða um land að fá fólk en nokkru sinni áður. Kaupið hækkar með hverri árstíð, misjafnlega mikið að vísu, en alls staðar í stórum stíl. Þetta er fullkomlega eðlilegt eins og nú er háttað. Það fólk, sem eftir er í sveitum landsins, er nú orðið færra víðast hvar en áður hefur þekkzt, að undanteknum bændunum sjálfum og þeirra skylduliði, börnum og gamalmennum. En það vinnandi fólk, sem eftir er, hefur yfirleitt betri skilning á sveitalífinu og þjóðfélagslegri þýðingu þess heldur en almennt gerist. Að lögfesta kaupið hjá þessu fólki get ég ekki samþ. Það mundi valda óþarfa óánægju og yrði á mjög takmarkaðan hátt tekið til greina. Þegar um er að tefla líf eða dauða með áframhald framleiðslunnar og á því veltur, hvort unnt er að fá þennan mann eða þessa stúlku, þá verður ekki spurt um, hvað er lögbundið kaupgjald. Hitt er og mjög miklum efa bundið, hvaða kaup á að lögfesta. Kaup hefur verið og er misjafnt milli héraða og milli einstakra sveita og heimila í sama héraði. — Hvort á svo að lögfesta? Á það að vera hámarkskaup fyrir hverja árstíð eða lágmarkskaup, og hvernig á að gera nægilegan greinarmun á hinum margbreytilegu afköstum og getu til afkasta? Um þetta er ekkert í frv. Mér þykir nú ekkert undarlegt, þó hæstv. viðskmrh. flytji svona till. Hann hefur aldrei haft meiri þekkingu á sveitalífi heldur en ég á sjóarlífi austur á Djúpavogi. En mér þykir furðu gegna, ef þeir flokksmenn ráðh., sem þekkja sveitalíf eins og það er nú, trúa því eins vel og hann, að framkvæmdin á þessum 1. komi að haldi.

Annað aðalatriði frv. er svo að lögfesta það verð, sem nú er á framleiðsluvörum landbúnaðarins á innlendum markaði. Bæði það og kaupgjaldið á að vera lögbundið til 1. sept. n. k. Það tímatakmark er bersýnilega sett til þess að hægt sé að telja bændum trú um, að þá eigi að losa um kjötverðið og hækka það, ef með þarf. En hvaða gagn verður þá að 1., ef stríðið heldur áfram? Verður þá ekki einnig breytt um kaupið og annað? og er þá ekki allt bröltið til einskis? Ég er nú svo skammsýnn, að mér skilst, að því aðeins verði eitthvert gagn að svona lögum, væru þau sett, ef þau giltu til stríðsloka. Sú er líka ætlunin áreiðanlega, ef hægt væri að fá fylgi fyrir því á Alþ. En hvernig er svo háttað því verði, sem bændur fá nú fyrir mjólk og kjöt? Yfirráðin á sölu þessara vara hafa verið tekin úr höndum bændanna sjálfra og félagsskapar þeirra og lögð undir stjórnskipaðar nefndir. Þær hafa alræðisvald um verðið. Á till. og kröfur bænda er lítt eða ekki hlustað. Hér er því ekki neitt líku saman að jafna og því verkakaupi, sem verkamennirnir sjálfir hafa samið um. Af bændum er fyrir löngu búið að taka samningsréttinn, gegn vilja þeirra margra að minnsta kosti. Og nú á að lögfesta það verð. sem nefndunum hefur þóknazt að setja á þessar vörur.

Flm. frv. lýsti því í ræðu sinni á dögunum, að verðið væri ákveðið af verðdómstól og byggt á raunverulegum framleiðslukostnaði. Þetta er ekki viðurkennt af bændum almennt, og ég neita því afdráttar laust, að það verð, sem líkur eru til, að bændur fái heim til sín eins og nú stendur, sé tilkostnaðarverð, miðað við það, að bændur sjálfir fái það kaup fyrir sína vinnu, sem samsvarar öðru verkakaupi í landinu. –Fyrir l. fl. dilkakjöt eru líkur til, að bændur fái kr. 2.90 pr. kg og fyrir annað kjöt hlutfallslega lægra. Fyrir nýmjólkina fá þeir að sögn 40 aura pr. lítra, eða ef til vill rúmlega það. Hæstv. viðskmrh. trúir því vafalaust, að þetta sé tilkostnaðarverð, og eftir því, sem ýmsir menn, sem enga þekkingu hafa á þessu sviði, tala og skrifa, þá halda þeir, að þetta sé miklu meira. En ég á ákaflega örðugt með að trúa því, að allir flokksmenn ráðh. hér í háttv. deild séu sannfærðir um, að þetta verð sé fullt framleiðsluverð. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hæstv. forseti þessarar deildar og háttv. 1. þm. Rang., svo einhverjir séu nefndir, haldi því fram, að bændur fái sama kaup og verkamenn með því að framleiða mjólk fyrir þetta verð. Og ég verð að efast um, að formaður Búnaðarfélags Íslands, þm. Mýr., og búnaðarmálastjórinn, 2. þm. Skagf., trúi því, að áðurnefnt verð fyrir kjöt og mjólk sé framleiðsluverð eins og nú horfir. Mig undrar því stórlega, ef þessir menn o. fl. eru fúsir til að lögfesta þetta verð. Þeim gefst tækifæri til að svara, og þá fáum við að heyra, hvort þeir eru eins sannfærðir eins og ráðherrann. Þó er nú samt. þess að geta, að framleiðslukostnaður bænda er hlutfallslega minni á þessu ári vegna þess, að tíðarfarið hefur verið einmuna gott. Ég veit ekki, hvort ráðherrann og Framsfl. vill láta neytendurna hafa mestan haginn af því, en hitt er víst, að hér á landi er ekki lengur í gildi sú regla, sem Stephan G. Stephansson lýsir með orðum sínum : „Ég er bóndi og allt mitt á undir sól og regni.“ Ég verð því að segja það, að eins og nú stendur, er það ekki fáanlegt af mér að samþ. lögfestingu á því afurðarverði, sem nú er, því ef ég samþykki það nú, gæti ég ekki staðið mig við að greiða atkv. á aðra leið að hausti, ef það kæmi til minna kasta þá. Þau ákvæði, sem frv. hefur að geyma um farmgjöld og húsaleigu, eru þannig vaxin, að ekki þurfti aukaþing eða ný l. þeirra vegna. Félmrh. hefur .gefið út brbl. um húsaleigu, og um farmgjöldin er það að segja, að ríkisstj. hefur á valdi sínu að ákveða þau eftir heimildum síðasta reglulegs þings.

Þá eru ákvæði frv. um dýrtíðarsjóð, 8 milljónir, og úthlutun úr honum. Um þessi ákvæði er gott eitt að segja, og mundi ég gjarnan vilja samþ. þau, ef þau stæðu ein sér. En eins og sakir standa er ekki þörf nýrra 1. um þetta fyrr en á næsta reglulegu þingi. — Samkv. dýrtíðarl. frá í vor, sem lítið hafa verið framkvæmd, á ríkisstj. þó að hafa í sjóði um næstu áramót um 6 milljónir króna til slíkra ráðstafana, og býst ég við, að þær verði til. Þetta eru 5 milljónir af tekjum þessa árs, sem heimilt var að verja í þessu skyni, og 10% álag í tekju- og eignarskatt, sem mun nema um 1 milljón. Það verður nú að vísu ekki séð á þessu frv., hvort 8 milljónirnar eiga að vera viðbót eða ekki, því engin ákvæði finnast um, að dýrtíðarl. frá í vor eigi að fella úr gildi, þó þetta frv. væri samþ. Ég geri nú samt ráð fyrir, að til þess hafi verið ætlazt. Að svo miklu leyti, sem umræddar 6 milljónir duga eigi til að fullnægja því, sem sagt er um verksvið dýrtíðarsjóðs, þá hygg ég, að samkomulag geti tekizt á næsta þingi um viðbót, hvort sem hún yrði 2 milljónir eða meira. Þyki það hins vegar nauðsyn að ákveða þetta nú, mundi eigi á því standa. Til þess þurfti engin stjórnarskipti. Um verðuppbætur á útflutningsvörur landbúnaðarins er það að segja, að ég tel þær nauðsynlegar, en líklegt mætti telja, að til þeirra fengist eitthvert fé eins og s. l. ár frá hálfu þeirra manna. sem valdið hafa markaðstapi fyrir þær. Allir þeir hæstv. ráðherrar, sem talað hafa, lýstu þeirri hættu, sem þjóðinni stafaði af vaxandi dýrtíð. Sérstaklega útmálaði hæstv. viðskmrh. þessa hættu mjög rækilega. Það var á ræðu hans að heyra, sem hann hafi í þessu fundið nýjan vísdóm, en svo er ekki. Þessi hætta hefur verið útmáluð af mörgum áður og liggur ljóst fyrir augum allra þeirra manna, sem hugsa um málið og hafa þekkt svipaðar myndir áður.

Allt, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta atriði, er því í samræmi við. skoðanir mínar og margra annarra. Hættan er augljós og hefur fyrir löngu verið. En ráðh. sér það hins vegar ekki að því er virðist, að þetta frv., þótt lögfest yrði, kemur ekki í veg fyrir þessa hættu. — Þetta stafar af því, í fyrsta lagi, að hættan er þegar fyrir hendi með þeim breyt., sem þegar eru orðnar. Við erum komnir nú þegar langt yfir mörkin. Það eru engar líkur til, að hægt verði að stríðinu loknu að reka íslenzka framleiðslu með þeim tilkostnaði, sem nú er.

Nú gerir frv. ekki ráð fyrir að kippa neinn til baka, sem orðið er, sem varla er við að búast. Af því leiðir, að það getur ekki komið í veg fyrir þá hættu, sem er fyrir hendi. Til þess hefði þurft að heimta stjórnarskipti út af slíku máli í fyrra eða hitteðfyrra, en engar tillögur komu um það. Ef frv. ætti að koma að haldi varðandi aukna hættu á komandi tíma, þá er á því stigmunur, en enginn eðlismunur frá því ástandi, sem þegar er fyrir hendi. Hve sá stigmunur kynni að verða mikill, er ekki gott um að segja. Væntanlega er höfuðskriðan þegar fallin, en vel geta viðbótarlækir á eftir komið. Varðandi varnir gegn þeim stendur ágreiningurinn, en ekki annað, og um gagnsemi þessa frv. í því efni koma til greina þau mótmæli, sem ég hef hér hreyft.

Í þeim umræðum, sem fram hafa farið um þetta mál frá hálfu ráðherranna og annarra manna, hefur mikið verið rætt um það, hver áhrif þetta og hitt hafi á vísitöluna. Í þeim umræðum hafa komið í ljós hin furðulegustu fyrirbrigði og einkennilegustu skoðanir, og okkur, sem álengdar stöndum, er sagt,. að allt sé þetta byggt á rannsókn lærðra hagfræðinga.

Eitt af þessu tagi er það, að gífurverð á hálfvöxnum kartöflum eða minni, sem mjög lítið mun hafa verið selt af, var látið hækka alla verðlagsvísitöluna um nauðsynjar almennings um nærri 6 stig. En vísitalan lækkaði ekki, þótt kartöflurnar féllu um þegar þær voru orðnar fullvaxnar og almenningur fór að neyta þeirra.

Í ræðu hæstv. viðskmrh. kom í ljós annað fyrirbrigði svipaðrar tegundar. — Hann telur áhættuna af hækkun erlendra vara hverfandi litla til að hækka vísitöluna, af því að um þær muni svo tiltölulega lítið. Hann tók sem dæmi, að ef innkaupsverð erlendra vara hækkaði um 50%, þá mundi það nema 5–6% aðeins til hækkunar á framfærslukostnaði. Nú er það vitað, að öll hækkun á innkaupsverði erlendra vara hefur í för með sér samsvarandi hækkun á tollum og álagningu. Mér þykir því heldur ósennilegur þessi útreikningur, jafnvel þó einhverjir hagfræðingar hafi gert hann. Og svona er um fleira.

Að öðru leyti er það eftirtektarvert í ræðu ráðh., þegar hann var að rökstyðja þetta frv. og rekja sundur þá liði, sem dýrtíðarhættan stafaði af, að höfuðhættan lægi í verði innlendra framleiðsluvara. Af erlendu vörunni taldi hann hættuna hverfandi litla. Grunnkaup áleit hann, að eigi mundi hækka, enda er skoðun -flestra sú, að það eigi ekki að koma til mála, þótt engin l. séu sett.

Þá er eftir innlenda varan, og við hana miðast allur leikurinn. Þetta er mjög í samræmi við það, sem ýmsir aðrir tala og skrifa, og má um

það segja, að þar komi fram meiri viðurkenning á gildi íslenzks landbúnaðar fyrir þjóðarheildina heldur en stundum er látið í veðri vaka.

Hæstv. félmrh. gekk svo langt í ræðu sinni um þetta mál að halda fram þeirri furðulegu kenningu, að kaupgjald og laun hefðu engin eða sama sem engin áhrif á dýrtíðina.

Ef menn hugsa á þá leið, þá er ekki að furða, þó menn séu ósparir á að gera kröfur um launa- og kaupgjaldshækkanir. En frá mínu sjónarmiði er í launum og kaupgjaldi að finna aðalorsökina fyrir allri verðhækkun. Þetta er líka eðlilegt, því öll framleiðsla, allir flutningar og öll viðskipti byggjast á vinnu öllu öðru fremur. –„Vinnan er móðir auðæfanna“, segir fornt spakmæli, sem rétt er. Eftir því, sem hún er seld hærra verði, eftir því verður hærra verð á öllum lífsnauðsynjum. Ef greitt er hærra fyrir vinnu með föstum launum eða almennu kaupgjaldi heldur en grundvöllur efnahagslífs framleiðslu þolir, þá bilar hún eða rýrnar. Fólkið leitar frá henni til annars. Þetta er sá sannleikur, sem ætti að vera öllum heilskyggnum mönnum augljós, en það virðist svo, að meginhluti þeirra manna, sem fást við opinber störf hér á landi, skilji þetta ekki eða vilji ekki viðurkenna það.

Ég verð nú að segja það, að þegar við erum komnir út í þær öfgar á ýmsum sviðum, sem nú þegar eru ríkjandi í okkar landi og ríkisstj. og aðrir valdamenn hafa staðið máttlitlir gegn, þá veltur ekki hagur lands og þjóðar á því fyrst og fremst, hvort dýrtíðarvísitalan hækkar um nokkur stig eða ekki, — hvort bændurnir fá nokkrum aurum hærra eða ekki fyrir mjólkina eða kjötið. Núna er þrátt fyrir allt peningaflóð svo ástatt, að okkar framtíð, okkar þjóðernislega menning er í stórri hættu. Hún er í hættu vegna erlendra áhrifa og erlendra yfirráða, og hún er í hættu af því, að unga og vinnandi fólkinu er smalað svo úr sveitum landsins, að til auðnar horfir. Landbúnaður og sveitalíf hefur á liðnum öldum verið sterkasta stoðin til að vernda og viðhalda íslenzkri menningu, íslenzkri tungu og íslenzku þjóðerni. Nú á þessum árum eru lagðar fyrir okkar uppvaxandi fólk allar þær snörur, sem ómótuð og gleðigjörn æska er á öllum tímum viðkvæmust fyrir. Og þeir, sem ljósastan skilning hafa á gildi íslenzkra sveita og sveitalífs, þeir standa vonlitlir og daprir í huga, þegar þeir horfa á eftir dýrasta gullinu, sem framtíðin byggist á, æskufólkinu, út í buskann.

Það er raunalegt til þess, að vita, þegar svona stendur, að þá skulum við hafa menn í valdasætum, sem hlaupa frá starfi sínu og skyldum, þegar sízt skyldi, af því að þeir fá ekki tafarlaust lögfest meingallað frv., þar sem aðalatriðið er að korna í veg fyrir verðhækkun á afurðum sveitanna í samræmi við tilkostnað. Og þessir menn þykjast vera bændafulltrúar.

Nú er svo komið málum, að á því eru sjálfsagt miklir örðugleikar að breyta l. þeim og samningum, sem ákveða 100% hækkun launa eftir vísitölunni, og ef það á að haldast, þá er auðvitað nauðsynlegt að hamla gegn því, að vísitalan hækki, þó ekki sé það fyrir öllu. Um

hina frjálsu samtakaleið, sem talað hefur verið um, er það að segja, að það er ekkert á móti því, þó tilraun væri gerð með hana fram til þings í vetur, og annað hef ég ekki samþykkt. — Á henni og þessu frv. er að ég hygg ekki svo mikill munur, að stjórnin hefði ekki þess vegna átt að geta tollað saman fram á reglulegt þing. Um trú mína á þessum frjálsu samtökum ætla ég að öðru leyti ekki að ræða hér. En hitt verð ég að segja, að ef það er rétt, sem hæstv. félmrh. fullyrðir, að mjög lítil hætta sé á hækkuðu grunnkaupi, og ef það væri rétt, sem hæstv. viðskmrh. heldur fram, að hverfandi lítil hætta stafi af hækkuðu innkaupsverði á erlendum vörum, þá er þriðja aðalatriðið, innlendu vörurnar, eftir, og með þær eru ekki svo mikil vandræði, að þau þurfi að ógna Alþ. og ríkisstj. og öllum landslýð. Ég hef um það mál lengi haft fasta skoðun, og hún er óbreytt. hað verður að tryggja bændum fullt framleiðsluverð, og það er ekki hyggilegt að hækka þessar vörur alltaf í útsölu. Mismuninn á ríkissjóður að greiða afdráttarlaust. Ekkert framlag mundi á sama hátt vera til hagsmuna fyrir þjóðina alla.

Þeim, er vilja kalla það styrk til bænda, segi ég það, að slíkt framlag væri til muna síður styrkur til bænda heldur en verðlagsuppbótin er styrkur til launamanna allra. Annars er það nú eftirtektarvert, að þeir sömu menn, sem hristu höfuðin með mikilli fyrirlitningu fyrir tveim árum yfir tveggja milljóna till. frá mér til slíkra verðuppbóta, þeir telja nú 8 millj. smámuni eina.

Annars tel ég nú það góð skilyrði til fjáröflunar fyrir ríkissjóð, að það þurfi ekki að vera neinum vandkvæðum bundið að sætta á þann hátt þá deilu, sem er og verður um framleiðslu og vinnu á þessu sviði. En það þarf að rannsaka, hvort framleiðsluverðið er á hverju ári miðað við meðalskilyrði. Það verða þeir menn að gera, sem hafa vit á landbúnaði og hægt er að treysta. En það þarf að rannsaka annað. Það þarf að rannsaka, hvernig stendur á því, að svo mikið af útsöluverði þessara vara fer í kostnað við söluna, og hvort ekki er kominn tími til að koma framkvæmd mjólkur- og kjötlaganna í hagfelldara horf eða afnema þau. Það gæti verið góð dýrtíðarráðstöfun.