10.11.1941
Neðri deild: 19. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (431)

16. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Mál þetta er í raun og veru lítið annað en formsatriði. Þegar l. þau, sem hér er farið fram á, að verði úr gildi felld, voru samþ., var það álit þingsins, að með þeim yrði unnt að deyfa þá áhættu, sem stafar af innieignum í Bretlandi, þannig að útflytjendur kæmu ekki til með að bera ábyrgð á þessum innieignum nema að litlu leyti.

Eins og hv. þm. er kunnugt um, hafa innieignir Landsbankans í Bretlandi aukizt úr 2 millj. upp í 5,9 millj. Þessi aukning stafar ekki nema að litlu leyti af auknum verðmætum útflytjenda, heldur af notkun íslenzkra peninga hjá setuliðinu brezka. Á þessum sama tíma hafa innieignir útflytjenda komizt upp í 400 þús. sterlingspund, og sést af því, hvað þetta er ákaflega lítill hluti af öllum innieignunum. Nú er þessum málum þannig komið, að engin líkindi eru til, að þessar innieignir á biðreikningum útflytjenda aukist, heldur benda allar líkur til þess, að þær fari þverrandi, enda hafa þær minnkað mikið í hlutfalli við innieignir bankanna. En n. sú, sem sett var til þess að ráða yfirfærslu bankanna úr sterlingspundum í íslenzkar krónur, hefur ekkert að gera, þegar þessum verkefnum sleppir. Þess vegna er þýðingarlaust að halda henni við. Ég geri ekki ráð fyrir, þegar öllum sterlingspundum verður breytt í dollara, að nokkrum geti dottið í hug, að þörf sé á starfsemi þessarar n. Þá er aðeins eftir, hvað á að gera við þær innistæður, sem menn eiga nú í Bretlandi. Almennt er álitið öruggast fyrir landsmenn, ef hægt væri að breyta innieignum þessum í verðmæta hluti eða kaupa fyrir þær nauðsynjar, sem verði fluttar inn í landið.

Aftur á móti kemur til greina Þegar um er að ræða að breyta þessum sterlingspundum úr vaxtalausum innieignum í Englandi, hvort ekki ætti að greiða með þeim skuldir, sem eru í sterlingspundum, eða þá að kaupa nauðsynleg hráefni til framleiðslu í landinu, annaðhvort til notkunar strax eða til að eiga birgðir af slíkum nauðsynjavörum.

Það er kunnugt, að menn hafa gert tilraunir til þess að selja sína peninga einhverjum af þeim mönnum, sem skulda, þannig að íslenzkir menn, sem skuldað hafa í Englandi, hafa keypt innieignir og borgað skuldir sínar úti og breytt þeim þannig í innlent lán. Við það hefur það áunnizt, að erlend lán, sem á hafa hvílt þungir vextir, hafa verið greidd með vaxtalausum innieignum. Í öðru lagi hafa íslenzkir aðilar fengið þessa peninga keypta með góðum kjörum, og einstaka stofnanir, eins og t. d. byggingarfélög, hafa þess vegna getað lánað með hagkvæmum kjörum. Ég hef þess vegna lagt til, að þeir, sem eiga þessa peninga, fái ráðrúm til að ráðstafa þeim á þann hátt, sem þeim þykir hagkvæmast. Ég geri ráð fyrir því, að menn hafi misjafnlega trú á því, að hægt sé að fá nytsamar vörur í Englandi. En mér er kunnugt um, að þar eru til hráefni, sem hægt væri að fá til framleiðslu á nauðsynjavörum hér á landi, ef fyrirvari væri nægur með útvegun þeirra. Mætti fá ódýrari vörur þaðan heldur en frá öðrum stöðum, þar sem opnar leiðir eru til viðskipta. T. d. yrði hægt að fá smíðaðar vélar til útvegsins, sem yrðu svo fluttar til landsins. Ég geri ekki ráð fyrir því, að mikill ágreiningur verði um þetta mál, en ég vildi mælast til þess, að það fengi skjótari afgreiðslu hér eftir heldur en hingað til, enda er það mjög áríðandi, ef hv. þm. finnst, að málið eigi að ná framgangi á þessu aukaþingi. Ég geri ráð fyrir því, að eftir eðli málsins eigi það helzt að fara til fjhn., en þar sem hún mun nú mjög hlaðin störfum, getur það engu síður fengið afgreiðslu í allshn. eða sjútvn. Ég tel því rétt að létta störfum af fjhn. og láta sjútvn. fjalla um málið.