05.11.1941
Efri deild: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (463)

18. mál, útsvör

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Þetta litla frv. þarf lítilla skýringa við fram yfir þær, sem eru í grg. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er komið fram, er út af bréfi skattstjórans í Reykjavík, dags. 21. maí þ. á., þar sem hann fer fram á, að hann verði leystur undan því að vera formaður niðurjöfnunarnefndar, og færir til þess ástæður í bréfi sínu. Enn fremur hefur skattstjóri ritað borgarstjóranum í Reykjavík bréf, sem er um sama efni, og leggur borgarstjóri og bæjarráð til, að framvegis verði niðurjöfnunarnefnd kosin hlutfallskosningu af bæjarstjórn. Ráðuneytið taldi ekki rétt að þröngva skattstjóra til að gegna þessu starfi ásamt skattstjórastarfinu, enda eru rökin, sem hann færir fyrir máli sínu, eðlileg. Þess vegna er þetta frv. hér komið fram eftir beiðni félmrn., og vona ég, að hv. Alþ. taki til greina ástæður þær, er skattstjóri kemur fram með. Félmrn. fannst ekki rétt að gera breyt. á þessu nema í Reykjavík, af því Reykjavík er langumfangsmest á þessu sviði, og taldi ekki þörf á breyt. annars staðar: Ég vænti þess, að hv. d. taki vel undir þetta frv. og hraði því, svo afgreiðslu þess verði lokið á þessu aukaþingi, er nú situr, því það er nauðsynlegt að fá úr þessu skorið áður en niðurjöfnun hefst aftur á næsta ári, og enn fremur mundi, ef þessi breyt. fengist í gegn, þurfa að kjósa niðurjöfnunarnefnd á síðari fundi bæjarstj. í nóv. þ. á.