10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (496)

13. mál, greiðsla ríkislána í Bretlandi

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Fyrir síðasta þing gaf ríkisstj. út brbl. um heimild til þess að taka 5 millj. kr. lán fyrir ríkissjóð til þess að greiða ríkislán. L. þessi voru staðfest af Alþ., með þeirri breyt. þó, að lánsheimildin var hækkuð upp í 10 millj. kr. — Þetta var gert með það fyrir augum, að greitt yrði upp í Englandi það ríkislán, sem gjaldfallið var, og jafnvel fleiri. Var um það rætt, og m. a. gert ráð fyrir því í nál. fjhn. Nd., að æskilegt væri að fá að greiða upp öll þau ríkislán okkar í Bretlandi, sem fáanlegt væri að greiða.

Það hefur ekki, svo ég viti, komið neitt fram um það af hálfu ríkisstj. opinberlega, hvað gert hafi verið í þessum málum og hvort leitað hafi verið samninga við þá aðila, sem eiga skuldabréfin, um að fá að greiða þau, eða leitað samkomulags við sjálfa brezku ríkisstj. um að taka að sér þessi lán, sem við fengjum að greiða með innstæðum okkar í bönkum. — Það liggur í augum uppi, hvert hagræði er að því fyrir Íslendinga að geta greitt vaxtaháar skuldir með innstæðum, sem eru ýmist vaxtalausar eða á mjög lágum vöxtum erlendis. Við lítum því svo á, sem flytjum þessa till. til þál. — og það er gert með vilja og vitund Framsfl., — að það beri að gera allt, sem unnt er, til þess að ná samkomulagi við brezk stjórnarvöld um þetta atriði, og að taka beri innanríkislán til greiðslu skuldanna, ef þess þarf með.

Það má líka benda á það, að með því að taka innanríkislán í þessu augnamiði er verulega dregið úr peningaveltunni í landinu og þannig á óbeinan hátt spornað við aukinni dýrtíð.

Þessi ríkislán, sem við eigum ógreidd í Englandi, munu nema um 22–23 millj. ísl. kr., þegar búið er að greiða lánið, sem brbl. voru upphaflega gefin út vegna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Grg. till. lýsir því rækilega, hvað fyrir okkur flm. vakir í þessu efni, enda er þetta svo einfalt og auðskilið mál, , að langar umr. eru óþarfar.