10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (543)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það er nú ekki mikið, sem ég þarf að segja út af þessari síðustu ræðu hv. flm.

Það hefur nú farið fyrir honum eins og fyrri daginn, að það dregur heldur úr honum eftir því, sem á líður umr. Og það er sagt honum meira til lofs heldur en margt annað; sem ég hef um hann sagt.

Ég veit ekki, hvers kyns þagmælska og drenglyndi hefur gripið þennan hv. þm. Ég veit ekki, hvað hann á mikið af þagmælsku, en drenglyndið er ekki meira en svo, að hann ætti ekki að eyða því að óþörfu. Ég skil ekki, hvaðan honum kemur þetta óskaplega bann. Hann er eins og krakki. (SvbH: Þá á að svíkja það.) Hver getur bannað honum að segja, hvað það er, sem olli því, að hann vildi endilega hafa brezka samninginn, þó hann fyndi eitthvað að honum? Hver er mamman, sem bannar honum það? Hvað er hann að brigzla mér um ódrenglyndi í þessu efni? Ég vil bara segja það, að þó það sé rétt, að komið hafi fram, að Bretar væru þreyttir á gagnrýni, þá getur ekki nokkur maður ætlazt til þess, að alþm. séu sviptir þeim rétti að segja frá því, hvaða annmarkar þeim finnist vera á þeim samningi, sem þeir samt álitu svo góðan, að þeir vildu ekki missa hann. Ríkisstj. skýrði frá því, að hún hefði ekkert vald til að fyrirbyggja gagnrýni á honum. Og þetta hjal, sem þessi hv. þm. er að margendurtaka hér, að hann sé of drenglyndur og þagmælskur til þess að skýra frá þeim annmörkum, sem honum fannst á samningnum vera, er satt að segja barnalegt. Hann þegir af því að hann veit, að rök hans eru svo léleg, að betra er að segja sem svo : Ég sá ýmislegt athugavert við þennan samning, en ég má ekki skýra frá því, hvað það var. Ég álít, að þessi hv. þm. eigi að koma með það, hvað það var, og tel, að hann hafi fulla heimild til þess. En hann hefur það eins og skáldið sagði:

„Viljirðu svívirða saklausan mann,

þá segðu engar ákveðnar skammir um hann, en láttu það svona í veðrinu vaka,

að þú vitir, að hann hafi unnið til saka.“

Það er þetta, sem hv. þm. kallar drenglyndi og þagmælsku. Mér getur ekki hugsazt að bera á þennan hv. þm., að það sé hann, sem hefur komið þessu í Morgunblaðið. En er nú hægt að fullyrða, að hann hefi ekki gert það? Gæti ekki þessi hv. þm., eins og hann er mikill hrekkjalómur, hafa hugsað sem svo : Nú skal ég senda einhvern inn á „Mogga“ og láta hann segja þessa frétt, þá verður Ólafi kennt um það. En svona er það með hlutina, að þeir hlutir, sem eiga að fara með leynd, komast upp, en aðrir hlutir, sem ekkert leyndarmál eru, fást ekki upplýstir. Ég hef t. d. verið að rembast eins og rjúpa við staur til þess að fá einhverja skýringu á því, að mjólkin skuli kosta milli 80 og 90 aura hér í Rvík, en bændurnir hér uppi í Mosfellssveit fá ekki nema 30–40 aura fyrir hana. Þetta fæst ekki upplýst, og þó er ég búinn að gera margar tilraunir til þess. Ég hef beðið 2 menn að reyna að rannsaka þetta hjá þeirri n., sem hefur með þetta að gera og hv. fyrri þm. Rang. er form. í, en allt hefur komið fyrir ekki.

Hv. þm. var með svigurmæli í minn garð út af því, að ég væri af dönsku bergi brotinn. Það þykir nú aldrei drengilegt að bregða mönnum um foreldri þeirra. En í þessu tilfelli get ég sagt þessum hv. þm., að mér er það sannur heiður, þegar minnzt er á mína foreldra, því að ég er svo gæfusamur að eiga hina ágætustu foreldra, sem eru mér langtum fremri og ég get ævinlega verið hreykinn af.

Það er annars einkennilegt með þennan hv. þm., hvað hann er strákslega ómerkilegur. Það hef ég heyrt sagt af manni, sem allir meta mikils, að ef hann mætti velja á milli þess að segja satt eða logið, þá kjósi hann heldur það logna.