21.10.1941
Neðri deild: 3. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

4. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Ég vildi ekki láta þessa umr. líða svo hjá að minnast ekki aðeins á nokkur atriði í sambandi við þá bráðabirgðalöggjöf um húsnæði, sem sett hefur verið.

Mér sýnist hér vera tekið á þessum málum, húsnæðismálunum hér í Reykjavík, allt öðrum tökum heldur en tekið var á öðru máli, sem samþ. var á síðasta þingi, þegar samþ. voru 1., þar sem heimilað var að taka íbúðarhúsnæði í sveit, samkomuhús, skólahús og annað, leigunámi til afnota fyrir fólk úr kaupstöðum. Það var ekki talað um, að það væri ósanngjarnt, heldur væri það sjálfsagt, að hvar sem húsnæði væri afgangs í sveit, væri heimilt að taka það leigunámi. Við þessu var ekkert amazt. Þetta var og framkvæmt eins og l. gerðu ráð fyrir, en til stórbaga fyrir íbúa viðkomandi héraða á mörgum stöðum.

Nú eru Reykvíkingar í vandræðum með húsnæði fyrir sjálfa sig, og sýnist mér þá vera tekið allt öðrum tökum á málinu. Hvers vegna vill hæstv. ráðh. nú ekki fara sömu leiðina og farin var í sumar, t. d. að taka samkomuhús bæjarins leigunámi og óhæfilega stórar íbúðir einstakra manna, sem fjöldi manna hefur hér í bæ? Hvers vegna á að flytja Reykvíkinga burt úr bænum, t. d. austur á Þingvöll, og koma þeim fyrir þar í samkomuhúsi, en ekki að taka til íbúðar samkomuhús hér í bænum og húsnæði þar, sem menn hafa miklu meira húsnæði en þeim er nauðsynlegt að nota? Ég skil ekki þennan mismun á rétti manna um húsnæði í landinu. Mig furðar á því, hvers vegna Reykvíkingar hafa ekki beitt þessum sömu ákvæðum og í sumar til þess að leysa sín húsnæðisvandræði, heldur skuli þeir láta fólkið flýja úr bænum og upp í sveit, þannig að Reykvíkingum er út úr húsnæðisvandræðum komið fyrir uppi í sveit.

Ég vil nú spyrjast fyrir um það og biðja hæstv. ríkisstj, að svara því, hvort það sé ekki ætlun þess ráðh., sem með þessi mál fer, að reyna að ráða bót á húsnæðisvandræðunum hér í Reykjavík á svipaðan hátt og húsnæðið í sveitinni var tekið leigunámi í sumar, skv. því, sem ég hef rætt um. Og ef ekki er hugsað sér að gera það, vil ég spyrjast fyrir um það, af hvaða sökum það er talið ófært hér í bænum, sem talið var fært í sumar að því er sveitirnar snertir.

Í öðru lagi finnst mér þessi brbl., sem gefin hafa verið út, stinga nokkuð í stúf við heimildarl. í sumar um leigunámið, að því er snertir það, að hér í Reykjavík er mönnum gert óheimilt að leigja fólki utan af landi. Um leið og tekið er leigunámi húsnæði úti í sveit til afnota fyrir Reykvíkinga, þá er mönnum í Reykjavík gert óheimilt að leigja okkur sveitamönnunum, þegar við komum til bæjarins, nema með sérstöku leyfi húsaleigunefndar. Hvers konar réttindi eða réttindaójöfnuður er þetta? Fjöldi fólks utan úr sveit, sem hefur ætlað að vera hér við nám, hefur farið heim aftur. Því að þó að það hafi verið hægt að fá leyfi til þess að leigja því hér í bænum, hafa húseigendur verið hikandi við að leigja því fólki, sem þurft hefur að fá leyfi til að mega leigja. Ég tel það mjög stóran galla á þessari löggjöf, að þar sem tekið er fram, að óheimilt sé að leigja utanbæjarmönnum, en þó má gera það þegar alveg sérstaklega stendur á, þá skuli það ekki vera skilgreint í l., í hvaða tilfellum stendur nógu sérstaklega á til þess, að leigja megi utanhéraðsmönnum, — t. d. mætti, finnst mér, nefna þar skólafólk, — heldur þurfi í hverju einstöku tilfelli að fá leyfi húsaleigunefndar.

Ég vil segja í þessum efnum, að „ólíkt höfumst vér að,“ þar sem af góðum hug var í sumar í sveitinni tekið á móti börnum og öðrum héðan úr Reykjavík, en svo þegar sveitafólkið kemur til Reykjavíkur með haustinu, þá er óheimilt að leigja því, nema þá með alveg sérstöku stjórnarráðsleyfi.

Ég held, að það séu svo laus tök höfð á þessu máli, að ekki sé nein furða, þótt það öngþveiti sé í bænum, sem nú er um þetta mál.

Þá vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort það sé ekki rétt, að það sé verk húsaleigunefndar skv. 1. að gefa út úrskurði um það, innan ákveðins tíma, ef ágreiningur er um það, hvort maður eigi að flytja úr húsnæði, eða um það, hvort leiga sé hæfilega metin. Mér er kunnugt um eitt tilfelli, þar sem ágreiningur varð hér í haust um það, hvort maður ætti að flytja eða ekki. Það var ekki gefinn úrskurður í húsaleigunefnd fyrr en 3. október. Ég man ekki betur en að í 1. sé, að húsaleigun. sé gert að skyldu að gefa úrskurði í slíkum málum innan hálfs mánaðar. Ef enginn tími er tiltekinn um þetta, þá finnst mér ekki þýða að bera slíkt undir nefndina.

Þá vil ég spyrja um það, hvort húsaleigun. beri ekki skylda til að gefa sína úrskurði skv. því ástandi, sem er, þegar málið er lagt undir úrskurð hennar, eða hvort hún eigi að bíða þangað til nýtt viðhorf hefur skapazt. Mér er kunnugt um dæmi, þar sem maður krafðist þess, að leigjendur vikju úr húsnæði af því að hann þyrfti að taka það til eigin nota, þar sem hann hefði selt hús það, er hann notaði áður. Á fyrsta fundinum, þegar málið var tekið fyrir, vitnaðist það, að þetta var rangt, húsið var óselt. En húsaleigunefnd lét málið dragast á langinn í tvo mánuði, og þá hafði manninum tekizt að selja húsið og þurfti sannanlega á húsnæðinu í hinu fyrrgreinda húsi að halda; var svo dæmt eftir því. Ef þetta er hægt, er það vitanlega í höndum húsaleigunefndar að misbeita sínu valdi herfilega. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því, hvort hann álítur leyfilegt, að á þennan hátt sé unnið í nefndinni.

Það eru ýmis fleiri atriði, sem ég gjarnan vildi minnast á, en þetta vildi ég benda á og óska, að yrði tekið til athugunar, áður en frv. fer til n. Um einstök önnur atriði mun ég ræða mínar, þegar frv. kemur frá n.