16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

59. mál, bændaskóli

*Eiríkur Einarason:

Eins og tekið hefur verið fram nú af hv. 1. flm. frv., þá vorum við ásáttir um það flm. þessa máls nú, að liðirnir a-d í 3. gr. yrðu felldir inn í frv. til eins konar áherzlu um starfssvið hins væntanlega bændaskóla í þeim starfsgreinum, sem til menningar bændastéttinni yfirleitt skipta miklu máll. Þó að frv. það, sem af minni hálfu var borið hér fram í fyrra um bændaskóla á Suðurlandi, hefði engin slík sérákvæði að geyma, gat ég fallizt á það og flutt það athugasemdalaust með öðrum flm. frv., að réttmætt væri að setja einhverja slíka áherzlu inn í frv. til eins konar örvunar um verkefni í þeim starfsgreinum, sem miklu máli skipta fyrir þá, sem væntanlega sækja þennan skóla. En það er náttúrlega alveg álitamál, og það vil ég undirstrika hér, á hvað á einkum að leggja áherzlu í starfrækslu slíks skóla. Ég fyrir mitt leyti álit, að það, sem ætti helzt að koma til greina, ef eitthvað ætti að benda á sem sérverkefni þessa fyrirhugaða bændaskóla, sé það, sem er viðkomandi því, sem er sérstakt við búnaðarstörf þess landsfjórðungs, þar sem skólanum er fyrirhugað að vera, að því leyti sem þar er ekki að r æða um samstöðu við aðra landsfjórðunga í þeim efnum. Og þegar litið er til Suðurlands og þessa fyrirhugaða skóla, þá er það eitt atriði, sem að vísu er ekki drepið á í þessum a-d-liðum í 3. gr. frv., en ég tel, að ætti á sérstakan hátt að vera áhugamál allra sveitabænda í þessum landsfjórðungi, og það lýtur að meðferð mjólkurinnar. Það lýtur alls ekki að mjólkurmarkaði né mjólkurvinnslunni í Mjólkurbúi Flóamanna. En ég álít, að það hefði verið hentugt, að fyrir lægi beint eða óbeint hvatning til þessa fyrirhugaða bændaskóla um að kenna heimilunum sem allra bezt meðferð á mjólkinni heima fyrir og að vinnslustað, frá því hún kemur úr kýrspenanum og þangað til hún er komin á vinnslustað. Það vita allir, að hér er vandfarið með þessa vöru, og það þarf að veita mönnum fræðslu um þá meðferð, svo að sem bezt megi verða. Og hverjum augum, sem menn annars líta á þessi mál, hvort sem þeir eru framleiðendur eða neytendur, þá getur enginn ágreiningur átt sér stað um þetta atriði.

Að leggja áherzlu á fræðslu um búpeningsrækt í þessum skóla, er ekki nema eðlilegt, þar sem bú peningsrækt er aðalundirstaðan undir framleiðslunni í þessum landsfjórðungi, enda er tekið fram um þá grein búnaðarins í a-d-liðum 3. gr. frv. Og ég tel, að réttmæt áherzla sé á það lögð í frv. Sama gildir um rannsókn á gæðum fóðurjurta, einmitt vegna hinna miklu sunnlenzku áveitna; það er að vísu ekki einkamál Sunnlendinga, en það er mjög mikið hagsmunaatriði fyrir þá, samanborið við íbúa annarra landsfjórðunga.

Ég vildi taka þessi málsatriði fram í trausti þess, að það hitti að einhverju leyti eyru hv. landbn., ef hún ætti eftir að fara með þetta mál. Og ég legg mikla áherzlu á það, að þeir, sem eiga að fjalla um slíka lagasetningu, séu sem allra fundvísastir á það, sem má kalla sérþörf manna í Sunnlendingafjórðungi við búnaðarnám fram yfir menn annarra landsfjórðunga, auk þess sem skólinn náttúrlega á að veita almenna búnaðarfræðslu.