22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (1242)

149. mál, lífeyrissjóður embættismanna og lífeyrissjóður barnakennara

Skúli Guðmundsson:

Með þessari till. til þál., ef hún verður samþ., er ríkisstj. falið að láta undirbúa og semja frv. um lífeyrissjóð embættismanna og barnakennara. Ég ætla ekki að mæla á móti þessari till., en vil benda á, að samkv. l. um alþýðutryggingar, þá eiga menn að greiða gjöld til Lífeyrissjóðs Íslands. Frá þessu eru þó þær undantekningar, að barnakennarar og embættismenn ríkisins hafa sérstaka sjóði og enn fremur bankafólk í Reykjavík, og er allt þetta fólk undanþegið greiðslu í Lífeyrissjóð Íslands. Mér skilst því, að eftir þessu séu þeir nokkuð margir, sem greiði í sérstaka sjóði með undanþágu. Þessar undanþágur hljóta að leiða til þess, að fleiri koma á eftir. Ég veit t.d., að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur stofnað sjóð fyrir starfsfólk sitt, og nokkur félög sambandsins úti um land eru þátttakendur í þessum sjóði. Þeir eru þó ekki að öllu leyti undanþegnir greiðslu í Lífeyrissjóð Íslands. Ég er ekki að mæla móti þessari till. til þál., sem hér liggur fyrir, en teldi æskilegt, að deildir þessara lífeyrissjóða yrðu sem flestar og að jafnvel héruð úti um land stofnuðu sérstaka sjóði.