22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (1256)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Emil Jónsson:

Ég verð að lýsa yfir því, að ég er andvígur þessu máli.

Kl. 4 í gær var boðaður fundur í fjvn. fyrirvaralaust og þetta mál tekið fyrir og afgr. milli þingfunda eða í fundarhléi. Ég vildi láta fresta málinu, þar eð engar upplýsingar liggja fyrir um kostnað þann, er hér kann að vera. Fjárveitingin getur verið allt frá 1–4 millj. eða hver veit hvað. En málið var þó hespað af.

Við höfum rætt fram og aftur og lengi í n. um ýmsar aðkallandi og litlar fjárveitingar, sem ekki hafa numið nema 20–30 þús., og þó ekki afgreitt þær. En nú kemur þetta mál á síðasta degi, og er komið fram án allra upplýsinga og skýringa. Ég skal ekkert bera á móti nauðsyn þessarar till. En mér finnst, að safna þurfi og vinna úr skýrslum um afkomu bænda áður, svo að rökstuddar ástæður fáist fyrir 2–5 milljón króna fjárveitingu. Það eru engar ástæður fram bornar í n. eða af frsm. meiri hl, hennar nú í ræðu hans, ekki heldur færðar að því nokkrar líkur, hve mikið fé kunni hér vera um að ræða. Ég legg því til, að málinu verði frestað til næsta þings og reynt sé að gera sér skýra grein fyrr öllum ástæðum, hver nauðsyn sé hér á og hve há fjárveitingin muni verða.

Ef þetta nær fram að ganga, hljóta fleiri stéttir landsmanna að þurfa að fá uppbætur, og mun ég víkja að því síðar.

Tekjuafgangur ríkissjóðs frá síðast liðnu ári var fyrst og fremst af sjávarútveginum. Menn hljóta að krefjast þess, að því fé sé varið til gagnlegra framkvæmda, en ekki ausið út án þess að skýra nauðsyn þess.

Ef veittar væru. 2–5 mill jónir í því skyni, sem hér um ræðir, fer þar í einu fullur þriðjungur af tekjuafgangi síðasta árs. Þetta fé er, eins og ég sagði áðan, að mestu runnið frá sjávarútveginum, og ég veit, að margir smáútgerðarmenn telja sig svo skattaða, að þeir geti ekki endurnýjað framleiðslutæki sín. Þeir vonuðu, að einhverju af þessu fé yrði varið til þess að styrkja atvinnuveg þeirra, efla fiskveiðasjóð eða eitthvað því um líkt.

En ef verja á þessu fé eins og hér er gert ráð fyrir, tel ég þeim peningum illa varið að svo stöddu. Ég legg til, að till. verði tekin til frekar í athugunar, og ef rökstuddar skýringar koma fram fyrir nauðsyn þessa máls, þá skal ég mæla með till., þó því aðeins að upphæð fjárins sé ákvörðuð.

Ef þessi till. verður samþ. nú, mun ég bera fram viðbótartill. um uppbætur til handa útvegsmönnum, er hafa selt fisk sinn eftir brezku samningunum. Vísitalan hefur hækkað mjög síðan þeir voru gerðir og verð fisksins sett fast, svo að framleiðslukostnaðurinn hefur aukizt. En þáltill. mín er sú, að málinu sé vísað til stjórnarinnar.