22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (1261)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Emil Jónsson:

Ég skal ekki lengja mjög umr., og alveg sérstaklega vegna þess, að mér fannst ekki koma neitt fram hjá hv. frsm. né þeim tveimur öðrum formælendum þessa máls, sem gæti haggað skoðun minni, sem kom fram í fyrr í ræðu minni. Ég hélt því fram, að málið væri alveg óundirbúið. Engar upplýsingar hafa enn komið fram um það, hvort þetta á að kosta ríkissjóðinn eina eða t.d. fimm millj. kr., eða hve mikil þörf er á að veita þennan styrk. Það má segja, að e.t.v. sé hún fyrir hendi. En hve mikil hún er og hvort ástæða er til að verðbæta þessar afurðir að fullu eða að einhverju verulegu leyti, um það liggur ekkert fyrir.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. landsk., sagðist ekki finna verulegan mun á því, hvort þáltill. væri vísað til ríkisstj. til athugunar og undirbúnings fyrir næsta þing eða þáltill. væri samþ. Á því er ekki heldur mikill munur, sérstaklega þar sem fyrir virðast liggja yfirlýsingar frá hæstv. landbrh. um það, að hann sé þáltill. í aðalatriðum samþykkur og muni inna þessa greiðslu af höndum, ef hann fær heimildina. En ef mín till. verður samþ. um að vísa málinu til ríkisstj. og hún legði niður stöður sínar fyrir næsta þing og síðan ákvæði þingið, hve miklu ætti í þetta að eyða, þá næst sami árangur með því eins og með að samþ. þáltill. Ég mun því halda mér við mína till. um að vísa máli þessu til ríkisstj.

Hv. 1. þm. N.-M. hefur minnzt á það hér í sameinuðu Alþ., þar sem er sá eini vettvangur í þinginu, sem við eigum kost á að tala saman, að hann hafi athugað skattaframtöl og út frá því afkomu bænda, allt frá árinu 1933 og til dagsins í dag. Hann telur sig hafa upplýsingar um það, hve mörg vinnuhjú bændur hafi haft á þessum árum, hve mikið þeir hafi greitt í kaup og hve mikill kostnaður hafi verið við búrekstur þeirra frá ári til árs. Ég skora á hann að láta þessar upplýsingar koma einhvers staðar fram, þar sem þær geta verið aðgengilegar fyrir alla að kynna sér. Ég veit ekki, hvort þessar athuganir hv. þm. hafa verið tómstundavinna. En ef hann hefur gert þetta í starfstíma sínum sem starfsmaður ríkisins, eigum við heimtingu á að fá að sjá þessar skýrslur. Og þá þyrfti að athuga, hv ort þær eru nothæfar. Ég vildi þá fá vottorð hagstofunnar um það, hvort þær væru rétt og óhlutdrægt samdar. Og að slíku vottorði fengnu mætti hafa þeirra feikileg not. Og ég vil fá að vita, hvernig meðalvísitalan er reiknuð út í þessu sambandi. Þetta gæti haft hagfræðilegt gildi, sem hv. þm. hér hefur gert athuganir á, og vildi ég skora á hann að koma þeim athugunum fram á aðgengilegan hátt.