22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (1262)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Þær upplýsingar, sem ég hef um afkomu bænda, eru þannig fengnar, að ég sem starfsmaður í ríkisskattanefnd má sjá öll framtöl. Það gefur mér aðgang til þess, að ég hef stöðugt síðan 1933 flett í gegnum framtöl hvers einasta bónda á landinu, og hef ég þá tekið upp úr þeim þær upplýsingar, sem ég hef minnzt á, og er það allt gert í frítíma mínum. Þessar skýrslur eru því mín eign, því að ég hef sem ríkisskattanefndarmaður leyfi til að sjá framtölin. En hv. 6. landsk. þm. er margvelkomið að fá að sjá þær, hvenær sem er.