19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (1291)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Á þingfundi í sameinuðu Alþingi 15. maí 1941 var samþ. svohljóðandi þingsályktun um frestun almennra alþingiskosninga:

„Vegna þess að Ísland hefur verið hernumið af öðrum aðila styrjaldarinnar og lýst á hernaðasvæði af hinum og vegna þess ástands, sem af þeim sökum hefur þegar skapazt í landinu, og fullkominnar óvissu um það, sem í vændum kann að vera, telur Alþingi, að almennar kosningar geti ekki að svo komnu farið fram með eðlilegum hætti eða í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar og anda lýðræðisins.

Alþingi ákveður því, að almennum kosningum til Alþingis skuli frestað fyrst um sinn, þar til ástæður breytast þannig, að fært þyki að láta kosningar fara fram, þó ekki lengur en 4 ár, og framlengist núverandi kjörtímabil í samræmi við það.“

Tillaga þessi var samþ. nær samhljóða, aðeins 4 þm. greiddu atkvæði gegn henni, en tveir sátu hjá við atkvgr.

Slíkur var hugur þingmanna fyrir einu ári. Nú virðist hann vera allmjög breyttur.

Yfirleitt var þessari þingsályktun vel tekið af þjóðinni. Tilraun tiltölulega fárra manna til að vekja óánægju og hróp þeirra um gerræði og stjórnarskrárbrot af hálfu Alþingis báru lítinn árangur.

Þingsályktunin var þjóðinni sönnun þess, að ríkisstj., sem átti frumkvæði að ályktuninni, og allflestir alþm. voru einhuga um að standa saman gegn yfirstandandi hættum og þess albúnir að mæta sameinaðir þeim erfiðleikum, er skapast vegna hins mikla heimsófriðar.

Ályktunin var þjóðinni einnig sönnun þess, að sömu aðilar, ríkisstj. og alþm., töldu það þjóðarnauðsyn að forðast allar deilur og ófrið milli einstaklinga og flokka, sem almennar alþingiskosningar jafnan vekja.

Í ályktuninni segir meðal annars, að almennum kosningum til Alþingis skuli frestað fyrst um sinn, þar til ástæður breytist þannig, að fært þyki að láta kosningar fara fram.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja fyrrv. ríkisstj. og hv. alþm., sem mest og bezt hafa að því stutt, að nú er gengið til kosninga: Hvaða breytingar hafa þar á orðið, að nú þyki færara að ganga til kosninga en á síðastliðnu vori?

Allar þær forsendur, er um getur í fyrri hluta þingsályktunarinnar og kosningafrestunin er byggð á, eru hér enn fyrir hendi. Aðeins er u það í enn ríkari mæli en áður. Allt það ástand er, er skapazt hefur í landinu nú vegna ófriðarins, enn þá alvarlegra en á s.l. vori, hættan og vissan um það, sem fram undan er, enn þá meiri.

S.l. vor þótti sjálfsagt að standa saman á stund hættunnar. Nú þykir jafnsjálfsagt að ganga til kosninga þrátt fyrir meiri ag vaxandi hættur. Hver getur sagt, hvað fram undan er? Við vonum allt hið bezta, en jafnframt verðum við að gera okkur það ljóst, að hið alvarlegasta getur skeð. Siglingar geta stöðvazt, atvinnuvegir vorir geta hrunið í rústir, líf og frelsi þjóðarinnar getur verið í veði.

Hæstv. forseti sameinaðs Alþingis, þm. V.-Sk., Gísli Sveinsson, flutti á Alþingi svohljóðandi tillögu til þingsályktunar:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að ástæður þær, sem greindar eru í þingsályktun frá 15. maí 1941 um frestun almennra alþingiskosninga, hafi í engu breytzt til batnaðar, og stendur ályktunin því enn í fullu gildi.“

Tillögu þessari, sem ég tel, að hafi átt fullan rétt á sér, var fálega tekið. Var henni að lokinni fyrri umr. vísað til nefndar og var eigi afgreidd þaðan, enda vitað mál, að kosningahugur hafði þá gripið um sig og ályktunin frá 15. maí 1941 virtist hafa gleymzt mörgum þingmönnum.

En till. og grg. fyrir henni lýsa vel sjónarmiði flm. og þeirra þm., er sýnt hafa og sýna vildu fulla alvöru og heilindi í sambandi við þál. frá 15. maí 1941 um frestun kosninga, sem eigi vilja hlaupa frá gerðum samþykktum þá verst gegnir.

Ég tel það miður, að svo er komið, sem komið er, að kosningar hafa verið teknar fram yfir kosningafrestun. Allar þjóðir færa nú þungar fórnir vegna ófriðarins. Getum við einir vænzt þess, að okkur verði sýnd miskunn? Það er hægt að hugsa sér það, en líkur til þess eru litlar.

Enginn veit, hvað okkar bíður á morgun. Því ber okkur skylda til að standa saman sem einn maður, bæði inn á við og gagnvart öðrum þjóðum.

Sundrung og ófriður er okkur stórhættulegur. Gæti slíkt auðveldlega orðið til þess, að aðrir okkur óviðkomandi, færu að láta sig okkar mál meira skipta en jafnvel nú, og finnst þó mörgum, sem til þekkja, nóg um það, sem orðið er.

Þeir þingmenn og þeir þingflokkar, sem mest og bezt hafa að því unnið, að nú er lagt út í kosningar, lýsa því beinlínis yfir, að þál. frá 15. maí 1941 hafi verið markleysa ein, jafnvel blekkingar.

Ég er þess fullviss, að það var hin mesta yfirsjón á síðastliðnu vori að fresta eigi kosningum til ófriðarloka. Það hefði skapað meiri festu í öllum athöfnum stjórnar og þings. Að eiga kosningar stöðugt yfir höfði sér skapar meiri og minni glundroða og hræsni.

Eftir að vitað var, að kosningar væru óumflýjanlegar, var um tvennt að ræða, að hafa einar kosningar samkv. núgildandi stjórnskipunarlögum eða breyta stjórnskipunarlögum landsins samkvæmt framkomnum breytingartillögum þar um og hafa tvennar kosningar.

Kosningar til Alþingis ættu út af fyrir sig ekki að þurfa að vekja verulegan ófrið með þjóðinni, væri þjóðin svo þroskuð og menntuð sem hún ætti að vera. En því miður stöndum við á því siðferðisstigi, fyrst og fremst þó ýmsir forráðamenn og áróðursmenn, sú er reynslan, að óhugsandi var að tala um fríðarkosningar. Það er út af fyrir sig fallegt orð, en við erum eigi menn til að breyta samkvæmt því í veruleikanum.

Hér hafa flokkar og einstaklingar tekið róginn og blekkingarnar um of í þjónustu sína til þess, að eigi hljóti að skapast ófriður um kosningar.

Úr því að kosningar þurftu að fara fram, er eigi mikill munur á, hvort þær eru einar eða tvennar, með stuttu millibili, eigi hvað sízt, þar sem hægt er að leysa með tvennum kosningum eigi aðeins kjördæmamálið, heldur einnig sjálfstæðismálið, sem samkomulag mun vera um, að þurft hefði að ljúka helzt á árinu 1943 eða í síðasta lagi 1944. Með því að kosningar færu fram á venjulegan hátt, væru þrennar kosningar skammt fram undan.

Hvaða þm. og hvaða þingflokkar eiga fyrst og fremst sök á því, að nú er gengið til kosninga?

Þegar eftir að fyrrv. þm. N.-Ísf., Vilmundur Jónsson, hafði sagt af sér þingmennsku á s.l. vori, varð nokkurt karp um það í blöðum höfuðstaðarins, hversu fara skyldi um kjördæmið, hvort þaðan skyldi mæta sjálfkjörinn þm., tilnefndur af Alþfl., hvort þar skyldi kosið eða kjördæmið vera þingmannslaust.

Svo sem kunnugt er, varð hið síðasta niðurstaðan.

Þessi ágreiningur var hvorki meiri né merkilegri en svo, að sjálfsagt var af ríkisstj. og fyrrv. hæstv. forsrh. (HermJ) að hafa málið að engu. Sízt af öllu mátti það verða til þess að kollvarpa ályktuninni frá 15. maí 1941, meðan þær forsendur, er hún er byggð á, voru fyrir hendi. En hvað skeður? Hæstv. fyrrv. forsrh. lýsir yfir því í útvarpserindi, áður en árið er á enda, á gamlaársdag, að almennar kosningar til Alþinsis fari fram vorið 1942.

Sem aðrir fulltrúar í ríkisstj. hafði þessi ráðh. fyrstur manna forgöngu um kosningafrestunina og lét jafnvel í það skína, að hann mundi segja af sér, yrði hún eigi samþykkt. Þessi sami maður verður einnig fyrstur til þess að upphefja ályktunina og tilkynna, að hún skuli framvegis að engu hafandi.

Með þessari yfirlýsingu forsrh. um, að kosn9ngar skuli fara fram vorið 1942, alveg án tillits til þess, hversu ástatt er, er raunverulega teningunum kastað og möguleikarnir fyrir áframhaldandi kosningafrestun útilokaðir.

Forsrh. og flokkur hans hlaut frá þessum degi að gera kröfu um kosningar. Sem óbreyttur liðsmaður á Alþingi hefði Hermann Jónasson ef til vill getað tekið yfirlýsingu sína aftur, en sem forsætisráðherra Íslands gat hann eigi tekið aftur gefna yfirlýsingu um stórpólitískt mál.

Þessi yfirlýsing var síðan staðfest í byrjun þings af miðstjórn Framsfl., þar sem hún taldi óumflýjanlegt, að almennar alþingiskosningar færu fram á vori komanda.

Eftir að Stefán Jóh. Stefánsson, fulltrúi Alþfl. fór úr ríkisstj. í janúar s.l., vegna þess að hann taldi gengið á „princip“ Alþfl., þá lögbundið var kaup með brbl. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, fór Alþfl. að gera kröfur um kosningar. Mun flokkurinn hafa byggt þær kröfur að einhverju leyti á því, að þá kosningafrestunin var samþ., hefði verið gengið út frá þriggja flokka samstarfi í ríkisstj.

Þegar í janúar s.l. höfðu því þrír flokkar lýst yfir því, að almennar kosningar færu fram á þessu vori. Kommúnistar höfðu frá byrjun verið gegn kosningafrestun. Hæstv. forsrh. lýsti yfir því f.h. Framsfl. í boðskap sínum til þjóðarinnar á gamlaársdag, að kosningar færu fram, og eftir að jafnaðarmenn fóru úr ríkisstj. í janúar, kröfðust þeir kosninga nú í vor.

Nú hafa þessir flokkar fengið vilja sínum framgengt. Nú standa fyrir dyrum eigi aðeins einar kosningar, heldur tvennar.

Nú er grunur minn sá, að fyrrv. forsrh. hefði verið nokkru gætnari í fullyrðingum sínum um kosningar á þessu vori, hefði hann órað fyrir því, að breytingar á stjórnskipunarlögum Íslands væru í uppsiglingu.

En töluð orð. verða eigi aftur tekin, og sagt er, að seint sé að iðrast eftir dauðann.

Ástæður til þess, að Hermann Jónasson sagði af sér fyrir sig og ráðuneyti sitt og að fyrrv. utanrrh., Ólafur Thors, hefur nú myndað stjórn, eru þær, að um 15. marz s.l. báru Alþýðuflokksþm., er sæti eiga í neðri deild Alþ., fram frv. til laga um breytingar á stjórnskipunarlögum Íslands. Voru í frv. gerðar nokkrar breyt. á stjórnskipunarlögunum, og miðuðu þær flestar að því, að hver þingflokkur fái þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.

Þegar eftir 1. umr. í deildinni var kosin sérstök nefnd til að fara með málið, stjórnarskrárnefnd. Var hún skipuð 9 mönnum, 4 úr Framsfl., 3 úr Sjálfstfl., 1 úr Alþfl. og 1 úr Kommfl.

Nefndin klofnaði um málið. Sjálfstfl., Alþfl. og kommúnistar lögðu til, að frv. væri samþ. með nokkrum breyt., en framsóknarmenn lögðu til, að málið yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Samkvæmt tillögu meiri hluta stjórnarskrárnefndar voru gerðar breyt. á frv. Hafa þær þegar verið samþ. í neðri deild.

Eins og frv. nú er, eru helztu breytingar frá gildandi stjórnskipunarlögum þessar:

1. Teknar verði upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, í stað óhlutbundinna kosninga, er þar voru áður.

2. Þingmönnum Reykjavíkur skal fjölgað um 2, út 6 í 8.

3. Siglufjörður verði sérstakt kjördæmi.

Samkv. frv. var einnig lagt til, að Neskaupstaður og Akranes fengju sérstakan þingmann, en samkomulag varð um hjá meiri hluta stjórnarskrárnefndar að fella þessa kaupstaði niður.

Samkvæmt gildand stjórnskipunarlögum eru 20 einmenningskjördæmi og 6 tvímenningskjördæmi hér á landi. 32 þm. eru kosnir í þessum 26 kjördæmum, óhlutbundnum kosningum. Auk þess eru kosnir í Reykjavík 6 þm., hlutbundnum kosningum. Kjördæmakosnir þm. eru því 38, en uppbótarþm. mega vera allt að 11, eru það nú, og er þeim ætlað að vera til jöfnunar milli þingflokka.

Við kosningarnar 1937 fengu þingflokkarnir atkvæða- og þingmannatölu í kjördæmum sem hér segir .

Kosnir Meðaltal

Atkvæði þm. á þm.

Sjálfstfl. ............ 24132 12 011

Framsfl ............ 14556 19 766

Alþfl. ............... 11084 5 2216

Kommfl. . . . . . . . . . . . . 4932 1 4932

Bændafl. . . . . . . . . . . . . 3578 1 3578

Af uppbótarþingsætunum hlaut Sjálfstfl. 5, Alþfl. 3, Kommfl. 2 og Bændafl. 1.

Varð því þingmannatala flokkanna og atkv.tala á hvern þm. svo sem hér greinir :

Framsóknarflokkur ................... 19 766

Sjálfstæðisflokkur ................... 17 1419

Alþýðuflokkur ...................... 8 1385

Kommúnistaflokkur ................. 3 1644

Bændaflokkur ....................... 2 1739

Af þessum tölum verður það ljóst, að því fer mjög fjarri, að nokkurt samræmi sé milli þingmannafjölda og atkvæðamagns flokkanna, svo sem þó er tilgangur stjórnskipunarlaga.

Bændafl. t.d. fær nær því 1/4 atkvæðamagn við Framsfl. Bændafl. fær 2 þm., Framsfl. 19. Það var vitað, að kröfur hlutu að koma fram fyrr en seinna um, að þetta áberandi misræmi milli kjósendafjölda og þingmannafjölda hinna pólitísku flokka yrði lagfært. Að kjósendur eins flokksins í landinu hafi tvöfaldan rétt til móts við aðra kjósendur um skipan Alþingis, slíkt geta aðrir flokkar eðlilega eigi þolað. Spurningin er aðeins sú, hvernig jöfnuði verði náð, þannig að allir geti sæmilega við unað.

Í stað þess að gera allt landið að einu kjördæmi eða taka upp nokkur stór kjördæmi og viðhafa alls staðar hlutfallskosningar, svo sem ýmsum hefur komið í hug, þá er hér haldið hinni gömlu kjördæmaskipun, og mun mörgum sárt um, að gerðar verið breytingar á henni. En einmitt það að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum er líklegt til jöfnunar milli flokka ásamt með uppbótarþingsætum.

Ég fullyrði, að allir sæmilega réttsýnir og sanngjarnir menn, sem eigi eru blindaðir af flokksofstæki, hvaða flokki sem þeir tilheyra, hljóti að geta unað við till. meiri hl. stjórnarskrárnefndar.

Af skiljanlegum ástæðum leggjast framsóknarmenn á móti þessum breytingum, eigi af því, að þeir sjái eigi, að þær séu sanngjarnar og réttmætar, heldur af því, að nái þær fram að ganga, er loku fyrir það skotið, að mikill minni hluti kjósenda geti fengið meirihlutaaðstöðu á Alþ. Þessa aðstöðu hefur Framsfl. nú og heldur í hana dauðahaldi.

Það er mannlegur breyzkleiki, njóti einstaklingur eða hópur manna einhverrar þeirrar aðstöðu í lífinu, er veitir þeim völd eða áhrif, þá gera menn allt til að tapa þeim eigi. Hitt er svo annað mál, hvort aðstaðan er þannig, að rétt sé, að menn haldi henni, og hvort eigi er gengið með því á rétt annarra. En einmitt með því að hafa kjördæma- og kosningafyrirkomulagið þannig, að stór minni hluti geti ráðið yfir sterkum meiri hluta, þá er gengið á rétt annarra, að hver þingflokkur njóti aðstöðu til valda og áhrifa eftir sínum styrkleika. Það er hið fyllsta réttlæti og jafnrétti.

Með því að jafna milli flokka, en þó jafnframt að halda kjördæmunum, þá tel ég, að sá árangur hafi náðst, er vænta má, að við getum lengi við búið. Að spyrna á móti sanngjörnum endurbótum í þessu sem öðru, það getur gengið með yfirgangi um skamman tíma, en því lengur sem það dregst að fá endurbótina, því róttækari verður hún, þá loks hún nær fram að ganga.

Framsóknarmenn telja ýmislegt því til foráttu, að rétt sé, að frv. gangi fram. En þeir koma eigi nærri kjarnanum. Hann er sá, að eftir stjórnskipunarlagabreytinguna hafa þeir eigi jafnsterka aðstöðu og áður til hótana og til að segja öðrum að velja eða hafna. Þetta er þeim öllum ljóst, því skal stritazt á móti í lengstu lög, þótt um gott málefni sé að ræða. Ég vil nú minnast nokkuð á hverja hinna þriggja höfuðbreytinga, er meiri hl. stjórnarskrárnefndar leggur til, að gerðar séu á stjórnskipunarlögum landsins.

1. Hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum. Tvímenningskjördæmin eru 6 hér á landi. Við alþingiskosningarnar 1937 var atkvæðamagn Framsfl. annars vegar og Sjálfstfl. og Bændafl. hins vegar, en þeir flokkar höfðu kosningabandala í nokkrum kjördæmum, sem hér segir:

Fram- Sjálf-

sóknar- stfl.

flokkur og Bfl.

Skagafjarðarsýsla ................ 1078 994

Eyjafjarðarsýsla .................. 1638 1394

Norður-Múlasýsla ................ . 714 588

Suður-Múlasýsla .................. 1071 681

Rangárvallasýsla ................. 945 901

Árnessýsla ....................... 1290 1052

Samtals 6736 5613

Samkvæmt gildandi stjórnskipunarlögum fékk Framsfl. 12 þingsæti, en Sjálfstfl. og Bændafl. ekkert. Hér er það lítill meiri hluti, sem kúgar sterkan minni hluta. Hann er með öllu réttlaus.

Ef við nú tökum öll sveitakjördæmin austan Hrútafjarðar og Hellisheiðar, 12 að tölu, þá er atkvæðamagn flokkanna og þingmannafjöldi sem hér segir.

Framsfl. 9709 atkv. og 16 þm.

Sjálfst.- og Bændafl. 8121 atkv. og 2 þm. Framsfl. hefur á þessu svæði 607 atkv. á hvern þm., en Sjálfst.- og Bændafl. 4060 atkv. á þm.

Í 21 sveitakjördæmi fengu framsóknarmenn 12915 atkv. og 19 þm., eða 679 atkv. á þm., í sömu kjördæmum fengu Sjálfst. og Bændafl. 13934 atkvæði og 6 þm., eða 2322 atkv. á þm.

Kjósendur Framsfl. hafa því í öllum sveitakjördæmum samanlagt ca. 31/2 sinnum meiri rétt en Sjálfst.- og Bændafl.kjósendur, áður en uppbótar sætin komu til.

Uppbótarþm. úr sveitakjördæmum frá Sjálfst.- og Bændafl. voru 5. Þá þeir eru teknir með, eru í sveitakjördæmunum 1266 atkv. á hvern þm. Sjálfst.- og Bændafl. Hafa því kjósendur Sjálfst. og Bændafl. helmingi minni rétt til þingmannakjörs en kjósendur Framsfl., sé aðeins miðað við sveitakjördæmin.

Ef hlutfallskosning hefði verið í tvímenningskjördæmunum, þá hefði Sjálfstfl. og Bændafl. fengið kosna í sveitakjördæmunum 12 þm. en Framsfl. 13. Þá hefðu komið 993 atkv. á hvern þm. Framsfl., en 1161 atkv. á hvern þm. Sjálft.og Bændafl.

Að gera þannig upp á milli manna, sem búa í dreifbýlinu og lifa við sömu kjör, nær engri átt. Enginn getur mælt því bót, ekki einu sinni framsóknarmenn.

Hlutfallskosning í tvímenningskjördæmunum er því fyrst og fremst til þess að jafna aðstöðu þeirra, sem í dreifbýlinu búa.

Framsóknarmenn telja það mjög fráleitt að taka upp hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmunum. Slíkt kosningafyrirkomulag komi aðeins til greina, þá kjósa á fleiri en 2.

Ef einhverjir skyldu vera til, sem taka eitthvert mark á skrafi þeirra framsóknarmanna um þetta atriði, þá vil ég upplýsa þá um, að árið 1936 börðust Framsóknarmenn fyrir því, að tekið væri upp nýtt fyrirkomulag um kosningar til búnaðarþings. Eldra fyrirkomulagið var talið úrelt og gegn anda lýðræðisins. Upp skyldi tekið nýtt fyrirkomulag, er væri í hinum eina og sanna lýðræðisanda. Hvaða fyrirkomulag halda menn, að það hafi verið? Hlutfallsfyrirkomulagið.

Þá var það ímynd réttlætis og lýðræðis, þótt nú eigi það að vera hið gagnstæða. Ég skal geta þess, að kjördæmin, er kjósa fulltrúa til búnaðarþings, eru 10, þar af 7 tvímenningskjördæmi. En í þeim öllum skal viðhafa hlutfallskosningar.

Þessi tvískinnungur, er fram kemur hjá Framsfl. í notkun hlutfallskosninga, ber því órækt vitni, hver er afstaða flokksins í þessum málum.

Hlutfallskosningar til búnaðarþings gátu orðið til þess að styrkja áhrif flokksins í búnaðarfélagsskapnum og á búnaðarþingi, — því var kosning þar sjálfsögð og í anda lýðræðisins.

Hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum til Alþingis eru líklegar til að draga úr styrkleika Framsfl. á Alþingi, því eru þær fráleitar og fjandsamlegar lýðræðinu í landinu.

Yfirleitt er það svo, að hin síðari ár er hlutfallskosningafyrirkomulagið að ryðja sér til rúms meir og meir í öllum lýðfrjálsum löndum. Svo er þróunin einnig hjá oss. Má í því sambandi benda á landskjörið gamla, uppbótarþingmennina nú, kosningar til búnaðarþings, sveitarstjórnarkosningar, kosningar á Alþingi, þar á meðal kosning skrifara, sem þó aðeins eru tveir, o.s.frv.

Ég hef borið fram á Alþingi þá tillögu, að hlutfallskosningar í samvinnufélögum yrðu upp teknar. Framsfl. beitti sér mjög ákveðið gegn þeirri breytingu. Hvers vegna?

Vegna þess, að slíkt gat orðið til að hindra aðstöðu flokksins til að reka sína hatrömmu flokkspólitík að nokkru fyrir fé, sem er tekið með valdi úr vasa andstæðingsins, því að svo sem kunnugt er, eru flokksblöð Framsfl. og áróðursrit fjárhagslega studd af fjárframlögum okkar kaupfélagsmanna, einnig okkar, sem andstæðir erum stefnu og vinnubrögðum Framsfl.

Afstaða flokksins til hlutfallskosninga miðast við það eitt, hvort þær eru flokkslegur ávinningur eða ekki. Styrki þær pólitíska aðstöðu flokksins, eru þær ágætar og sjálfsagðar og í anda lýðræðis, en geti þær orðið til þess að veikja pólitíska aðstöðu flokksins, eru þær óalandi og óferjandi og gagnstæðar öllum lýðræðisanda.

Þetta er nú afstaða þess flokks, sem mest hefur gumað og glamrað um lýðræði og talið sig verndari þess. En lýðræðið á aðeins rétt á sér hjá þessum mönnum, rekist það eigi á flokkshagsmuni þeirra. Geti lýðræðið og flokksræði Framsfl. eigi átt samleið, þá skal lýðræðið víkja.

2. Þingmönnum Reykjavíkur skal fjölgað um 2, úr 6 í 8.

Í Reykjavík eru nú 6 þm. Væri þingmannatalan í réttu hlutfalli við mannfjöldann í landinu, ætti Reykjavík að hafa minnst 16 þm. Það skal fram tekið, að ég tel eigi beinlínis ástæðu til að fjölga þm. í Reykjavík, enda þótt telja megi það réttmæta kröfu og sanngirnismál.

Á það má benda, að vegna hins mikla fjölda í borginni hlýtur alltaf nokkur hluti uppbótarþingmanna að vera frá Reykjavík. Enn fremur má á það benda, að allmiklar líkur benda til, eða svo hefur það verið og er, að nokkur hluti kjördæmakosinna þm. verði búsettir í Reykjavík. Má því að nokkru telja, að þeir jafnframt því að vera þingmenn fyrir kjördæmi sín séu þeir einnig þingmenn Reykjavíkur.

En að sjálfsögðu ætti þetta ekki að vera svo. Þingmenn hinna dreifðu kjördæma eiga að vera búsettir hver í sínu kjördæmi, og einmitt í því trausti, að svo verði innan skamms, get ég fylgt fjölgun þingmanna fyrir Reykjavík.

Yfir helmingur landsmanna býr nú í kaup9töðum landsins. Þrátt fyrir þá fjölgun, sem nefndarálit meiri hl. stjórnarskrárnefndar gerir ráð fyrir, 2 þm. í Reykjavík og 1 á Siglufirði, hefur þessi meiri hluti, sem býr í kaupstöðunum 14 þm., en sveitakjördæmin 27. Til uppbótar koma svo uppbótarþingsætin, sem skiptast á milli sveita og bæja. Sveitakjördæmin hafa því öruggan meiri hluta á Alþingi.

3. Siglufjörður skal gerður að sérstöku kjördæmi.

Svo sem kunnugt er, þá er Eyjafjarðarsýsla ásamt Siglufirði eitt af hinum 6 tvímenningskjördæmum.

Samkvæmt manntali frá 1940 voru 2883 menn búsettir á Siglufirði, en 5309 í Eyjafjarðarsýslu utan Siglufjarðar, eða samtals 8192.

Mannfjöldinn var þetta sama ár í öðrum tvímenningskjördæmum sem hér segir:

Skagafjarðarsýsla ........... 3906

Norður-Múlasýsla ………. 2608

Suður-Múlasýsla ............ 4300

Rangárvallasýsla ………. 3310

Árnessýsla .................... 5246

Samtals 19370

Að meðaltali eru því tæp 000 manns í þessum sýslum á hvern þm., en rúm 4000 í Eyjafjarðarsýslu.

Þrátt fyrir það, þótt Siglufjörður verði gerður að sérstöku kjördæmi, verður Eyjafjarðarsýsla fjölmennasta tvímenningskjördæmið eftir sem áður.

Enn fremur má á það benda, að Siglufjörður, sem er fjórði fjölmennasti kaupstaður landsins, hefur að ýmsu sérstöðu um atvinnumál, og útflutningsverzlun er þar mjög mikil.

Með hótunum ætlaði fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, að koma stjórnskipunarlagabreytingunum fyrir kattarnef. Hann hótaði að segja af sér fyrir sig og ráðuneyti sitt, yrðu breytingar gerðar. Hann hafði áður beitt hótunum í sambandi við gerðardóminn, en þá mistekizt. Nú skyldi freista gæfunnar að nýju, en um endurtekin vonbrigði var að ræða. Hv. alþm. virtust eigi geta komið því inn í sitt ferkantaða höfuð, sem forsrh. hafði til ætlazt, að öll framtíð og hamingja þessarar þjóðar byggðist á því, að hann skipaði áfram forsætið. En í þetta skipti gerði forsrh. alvöru úr hótuninni. Hvers vegna? Að því er hann sjálfur segir, vegna þess, „að hann treysti sér ekki“ að bera ábyrgð á þeim vinnubrögðum, sem til er stofnað. Hin óttalegu vinnubrögð, sem Hermann Jónasson treysti sér eigi að bera ábyrgð á, eru þau, að þeim, sem búa í dreifbýlinu, er veitt jöfn aðstaða til áhrifa á Alþingi, eða réttara sagt aðstaðan er jöfnuð frá því, sem áður var.

Þessi maður, Hermann Jónasson, sem ætið hefur talið sig vera að springa af samstarfsvilja, lýðræði og heill og hamingju þjóðarinnar, hann treystir sér eigi til að bera ábyrgð á slíku réttlætismáli.

En ef það er nú svo sem þeir telja framsóknarmenn, að allt fari hér á annan endann, ef þeir fara úr ríkisstjórninni, hvers vegna fóru þeir þá? Enginn neyddi þá til að fara.

Hvar er nú hinn takmarkalausi þegnskapur þeirra framsóknarmanna? Ef til vill er eitthvað svipað með hann og lýðræðið. Hann verður að víkja fyrir flokkshagsmununum. Flokkshagsmunirnir nr. 1, þjóðarhagsmunirnir nr. 2, og það skal vera uppistaðan í siðakerfi flokksmannanna.

Allar breyt., sem gerðar eru á stjórnskipunarlögunum,. eru að mestu samhljóða gömlum till. frá Framsfl. Árið 1933 báru þeir fram á þingi till. um hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmunum.

Það hefur einnig verið upplýst við umræður þessa máls, að framsóknarmenn voru sama ár reiðubúnir að fjölga þingmönnum Reykjavíkur upp í 7. Með þeirri fjölgun gerðu þeir sér von um 7. þingmanninn. Flokkssjónarmiðin voru hér að verki sem endranær.

Það er einnig upplýst, að sami flokkur hefur boðið kommúnistum upp á að gera Siglufjörð að sérstöku kjördæmi, ef þeir (kommar) gerðu Framsfl. greiða í sambandi við kosningarnar annars staðar. — Enn þá flokkssjónarmið.

Í sambandi við breytinguna á stjórnskipunarlögunum hefur Framsfl. tekið hér nýtt nafn og kallar sig nú „aðaldreifbýlisflokkinn“. Hann neitar því þó eigi, svo sem nafnið bendir til, að til séu fleiri flokkar í dreifbýlinu, enda mundi það erfitt, þar sem hann er þar í miklum minni hluta.

En tilgangurinn með nafnbreytingunni er auðsær. Hún á að telja fólkinu trú um, að hann og hann einn allra þingflokka beri hag dreifbýlisins fyrir brjósti. Þeir, sem hafa kosið og kjósa framvegis með öðrum flokkum, eru taldir fjandmenn dreifbýlisins.

Þeir 1394 kjósendur, er kusu með Sjálfst.- og Bændafl. í Eyjafjarðarsýslu við síðustu kosningar, eru fjandmenn dreifbýlisins, einnig sá 901 kjósandi, er kaus með sömu flokkum í Rangárvallasýslu við sömu kosningar. Einnig þeir 402 kjósendur, er kusu Þorstein Briem í Dalasýslu, þeir 428, er kusu Jón Pálmason í Austur-Húnavatnssýslu, og þeir 730, er kusu Pétur Ottesen í Borgarfjarðarsýslu, og svo mætti lengi telja.

Það mun sízt verða þessum nýskírða „aðaldreifbýlisflokki“ til framdráttar, að hann stimplar nú alla þá, er kosið hafa með öðrum flokkum, og þá fyrst og fremst þm. þeirra, sem svíkara og fjandmenn dreifbýlisins. Hitt þætti mér trúlegra, að slíkar nafngiftir væru betur til þess fallnar að hrinda mönnum frá sér en laða þá til sin. En vera má, að slíkt orðbragð sé gælunöfn og kjassyrði á máli „aðaldreifbýlisflokksins“. og má þá geta sér til, hversu orðbragðið muni vera á flokksfundum.

Nú heitir þessi nýi flokkur á kjósendur, þar á meðal pólitíska andstæðinga, að veita sér fulltingi, hann þurfi að fá 5 þingmenn til viðbótar til að fá stöðvunarvald á næsta þingi.

Þar sem enginn pólitískur andstæðingur mun sækjast eftir félagsskap, framsóknarmanna og engar líkur fyrir fylgi þaðan, þá mundi það ráðlegra fyrir flokkinn að hvetja sína flokksmenn til að svíkja eigi.

Eigi alllöngu áður en flokkurinn skipti um nafn, var hann svikinn við kosningar af nokkur hundruð kjósendum síns eigin flokks.

Flokkurinn ætti ekki að ætla sér meira en að gæta þess, að svikin endurtaki sig ekki. Það mun verða honum ærið nóg verkefni.