19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (1295)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Brynjólfur Bjarnason:

Þessi till., sem hér er til umr. frá Framsfl., mun vera einhver hlálegasta vantrauststill., sem nokkurn tíma hefur verið borin fram á Alþingi fyrr og síðar. Ráðh. Framsfl. voru að sleppa stjórnartaumunum. Þeir sem taka við af þeim, eru samstarfsmenn þeirra í ríkisstj., sem þeir hafa unnið með árum saman. Í meginatriðum hafa nýju ráðh. enga aðra stefnu en hina gömlu sameiginlegu stefnu þjóðstjórnarinnar svokölluðu. Í öllu, sem máli skiptir, fylgir nýja stjórnin nákvæmlega sömu stefnunni og forustumenn Framsfl. hafa fylgt undanfarin 5 ár. Samt ber Framsfl. fram till. um vantraust. Er ekki von, að menn spyrji: Hvers konar fíflalæti eru þetta eiginlega? Hvað eiga þessar tiktúrur að þýða? Hvað hefur gerzt?

Það, sem gerzt hefur, er þetta: Það hefur fengizt þingmeirihluti fyrir ofurlítilli breytingu á kjördæmaskipuninni. Það hefur fengizt þingmeirihluti fyrir ofurlítilli lagfæringu á því hróplega ranglæti, að Framsfl. skuli þurfa helmingi færri kjósendur til að fá þingmann kosinn en aðrir flokkar í landinu. 766 kjósendur Framsfl. jafngilda 1644 kjósendum Sósíalistaflokksins. Kjósendur Framsfl. hafa tvöfaldan kosningarrétt á við kjósendur annarra flokka. Á þessu fæst ofurlítil leiðrétting með frv. því um breyt. á stjórnarskránni, sem nú liggur fyrir Alþingi, en þó hvergi nærri fullnægjandi. Þó að frv. þetta nái fram að ganga, hefur Framsókn mikil sérréttindi eftir sem áður. En við þessu ranglæti má ekki hrófla, þá ætla forustumenn Framsfl. af göflunum að ganga. Þeir eru að vísu sammála Íhaldsflokknum um allt, sem máli skiptir, í þjóðmálunum. Þeir eru reiðubúnir að þjóna stórútgerðarvaldinu, sem stjórnar Íhaldsflokknum, af trúmennsku í öllu, smáu og stóru. En ranglætið í kosningafyrirkomulaginu verður að haldast, hvað sem það kostar. Bitlingunum verða þeir að halda. Mútukerfið í íslenzku þjóðlífi verður að vera fast í þeirra höndum, því að það er líftaug flokksins. Þeim finnst það hróplegt ranglæti gagnvart Framsfl., að ranglætið í kosningafyrirkomulaginu skuli ekki fá að haldast. Þeim finnst Íhaldsflokkurinn hafa gert sér rangt til og sýnt sér vanþakklæti. Þeir þykjast hafa verðskuldað annað úr þeirri átt. Þeir hugsa sem svo, að verður sé verkamaðurinn launanna. Í 5 ár hafa þeir þjónað stórútgerðarmönnum Íhaldsflokksins af hollustu og dyggð, eins og góðum hjúum sæmir. Og þetta eru þakkirnar.

Og nú hlaupa þeir burt úr ríkisstj. og bera fram vantraust á félaga sína og vini frá í gær. Þeir segja, að nú séu fram undan voðalegir tímar fyrir íslenzku þjóðina, upplausn, hrun, æðisgengin dýrtið, bolsjevismi, skeggöld, skálmöld, hallæri og hörmungar. Og þetta skeður allt af því, að framsóknarmennirnir fara úr stjórninni. Og úr stjórninni fara þeir, af því að það hefur orðið að samkomulagi að draga ofurlítið úr versta ranglætinu í stjórnskipunarl. landsins. blikið eru þeir búnir að tala um ábyrgð og ábyrga flokka öll þessi ár siðan 1937. Svo að þetta er þá ábyrgðin. Upplausn, dýrtíð, bolsjevismi og aðrar stórplágur, allt er þetta fullgott handa þjóðinni, úr því að þm. Framsfl. fá ekki að njóta ranglætisins áfram. Öllu þessu hefðu þeir getað afstýrt, með því að vera kyrrir í ríkisstj., og ekkert ber á milli þeirra og íhaldsráðherranna, nema þetta eina ágreiningsatriði, hvort Framsókn á að hafa miklu fleiri þm. en henni ber eða ekki. Og Framsókn ákvað að fórna þjóðinni vegna nokkurra þm. sinna, sem verða að víkja fyrir réttlátara kosningafyrirkomulagi. Og þó getur hún ekki bjargað þessum þm. sínum. Samt skal þessa grimmilega hefnt á þjóðinni.

Mikið er Framsókn búin að tala um lýðræði öll þessi ár. Allir sósíalistar skyldu útlægir gerðir úr þjóðfélaginu, vegna þess að þeir væru ekki nógu mikið með lýðræðinu. Formaður Framsfl. setti um það ákveðnar reglur, hvernig fara skyldi með slíka útlaga. Í fornöld voru þeir réttdræpir, hvar sem til þeirra náðist. Nú skyldi taka upp „mildari“ aðferðir, eins og formaðurinn orðaði það. Þeir skyldu ekki vegnir með vopnum, eins og tíðkaðist til forna, heldur skyldi sjá til þess, að þeir fengju hvergi atvinnu. Þannig skyldu þeir sveltir í hel. Þetta þótti „mildari“ og viðkunnanlegri aðferð en að taka þá beinlínis af lífi. Nú hefur orðið samkomulag um það að sveigja nokkur ákvæði stjórnarskrárinnar ofurlítið meiri í lýðræðisátt. Þá koma lýðræðishetjur Framsfl. og segja öðrum landsmönnum stríð á hendur. Nú skal barizt upp á líf og dauða. Heldur skulu hallæri og hörmungar ganga yfir þjóðina en það nái fram að ganga.

Einhverjum finnst kannske, að ég hafi dregið hér upp skrípamynd af afstöðu Framsfl. En það er síður en svo. Ef þið lesið Tímann og hafið hlustað hér í kvöld á þm. S.-Þ. og þm. Str., þá munuð þið sannfærast um, að málflutningur þeirra herra er sízt betri en ég hef lýst honum. Það eru áhöld um, hvort er meira áberandi: ofstopinn og hrópyrðin eða rökvillurnar og mótsagnirnar.

Nú er að snúa sér að vantrauststillögunni; sem fyrir liggur. Þegar tekin er afstaða til hennar, ber að athuga tvennt: Í fyrsta lagi, hver er stefna þeirrar stjórnar, sem vantraustið er borið á, og í öðru lagi, hver er tilgangurinn með því að bera vantrauststillöguna fram?

Það liggur fyrir yfirlýsing um það, að stefna ríkisstj. sé hin sama og áður. Stefna hinnar nýju ríkisstj. er í öllum meginatriðum hin sama og þjóðstjórnarinnar sálugu. Íhaldsfl., Framsfl. og Alþfl. báru sameiginlega ábyrgð á þessari stefnu þar til um síðustu áramót, og Framsfl. og Íhaldsfl. báru sameiginlega ábyrgð á henni þar til á laugardaginn var. Við skulum nú rifja upp nokkur helztu atriðin í stjórnarferli þjóðstjórnarinuar, til þess að átta okkur á því, í hverju þessi stefna er fólgin.

Áður en styrjöldin skall á, hafði þjóðin orðið að búa við langvarandi atvinnuleysi. Það var sýnilegt, að styrjöld var fram undan. Sósfl. bar fram hverja tillöguna á fætur annarri um, að hafizt yrði handa um atvinnuframkvæmdir í stórum stíl. Hann bar fram tillögur um, að ráðizt yrði í miklar skipasmíðar, m.a., að smíðaðir yrðu 20 vélbátar á ári, 100–150 tonna, að byggðar yrðu nýjar síldarverksmiðjur, að byggður yrði fjöldi íbúðarhúsa að tilhlutun hins opinbera g auk þess stutt að því, að einstakir menn byggðu sem mest. Að byggð yrði áburðarverksmiðja og samentsverksmiðja og aðrar verksmiðjur til að vinna úr íslenzkum hráefnum. Að reistar yrðu nýjar rafstöðvar og þær stækkaðar, sem fyrir voru. Að lagt yrði í ræktunarframkvæmdir í stórum stíl. Að miklu fé yrði varið til vegagerða, brúargerða, hafnargerða o.s.frv.

Það var nú eitthvað annað en að þessum till. Sósfl. væri sinnt. Í stað þess voru allar opinberar framkvæmdir skornar niður, svo sem frekast var unnt, og tekið fyrir kverkarnar á öllum meiri háttar atvinnuframkvæmdum með innflutnings- og gjaldeyrishöftunum.

Það er ekki á mínu valdi að áætla, hversu mikið þetta háttalag þjóðstj. hefur kostað þjóðina, en það er rannsóknarefni, sem væntanlega verður gert betri skil síðar. Tafirnar á framkvæmd hitaveitunnar og stækkun Sogsstöðvarinnar kostuðu sem kunnugt er allmargar milljónir króna, alltaf milli 10 og 20 milljónir. Það tjón verður tiltölulega auðvelt að reikna út, þegar öll kurl koma til grafar. Það hefur kostað Reykjavíkurbæ einan að minnsta kosti 7–8 millj. kr., að tillögum sósíalista um byggingu íbúðarhúsa var ekki sinnt. Í grein í Morgunblaðinu er áætlað, að tjónið af síldarverksmiðjuleysinu hafi numið 11 millj. kr. í júnímánuði einum sumarið 1940. Og svo mætti lengi telja.

En það, sem einkum hefur einkennt þessa stj., er barátta hennar til þess að rýra kjör verkamanna og ofsóknir hennar gegn verkalýðshreyfingunni. Hún er hreinræktaðasta stéttastjórn, sem nokkurn tíma hefur farið með völd á Íslandi. Allt starf hennar hefur miðað að því að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Í því skyni að gera hina ríku ríkari setti hún l. um skattfrelsi stórútgerðarinnar. Í skjóli þessa skattfrelsis græddu stríðsgróðamennirnir tugi milljóna króna, meðan þess naut við. Þegar það svo loks var afnumið, var tækifærið notað til að breyta skattal. stríðsgróðamönnunum, en þó einkum stórútgerðarmönnum í hag. Hin nýju skattal. eru þannig úr garði gerð, að tryggt er, að svo mikill hluti stríðsgróðans safnist í vörzlu einstakra manna, að eftir stríðið verður hér fámenn stétt auðkýfinga, sem hefur aðstöðu til að drottna einvöld yfir atvinnulífi þjóðarinnar, ef alþýðan grípur ekki í taumana og tekur af þeim völdin.

Til þess að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari lét ríkisstj. lækka gengi íslenzkrar krónu og hefur síðan haldið krónunni í því verði, sem var lögfest 1939, þrátt fyrir hinar gífurlegu innstæður í erlendum gjaldeyri, sem safnazt hafa fyrir.

Til þess að gera hina fátæku fátækari lét þjóðstj. Alþingi samþykkja hvern lagabálkinn á fætur öðrum til þess að taka samningsréttinn og verkfallsréttinn af verkalýðsfélögunum og lögfesta kaup verkamanna.

Þjóðstj. hóf feril sinn með kaupþvingunarl. í apríl 1939. Það var eins konar giftingarveizla þjóðstjórnarflokkanna, Íhaldsfl., Framsfl. og Alþfl. Mér er enn í fersku minni sá dagur. Það var 3. apríl 1939. Allur málatilbúnaður var eins og æfðir samsærismenn væru að verki. Það var boðað til fundar í báðum deildum Alþingis með nauða ómerkilegri dagskrá. En að loknum þessum fundum var fundur settur á ný í neðri deild og tekið fyrir frv. um gengislækkun og lögþvingað kaupgjald og þannig komið að óvörum, ekki aðeins þjóðinni, heldur og þeim þm., sem ekki voru með í samsærinu og vitað var, að halda mundu uppi málstað fólksins, en það reyndust að vera þm. Sósfl. einir. Samdægurs var málið keyrt í gegnum umr. í báðum deildum og gert að l. Lögregla var sett við dyrnar, til þess að sem fæstir gætu átt kost á að hlýða á umr. Menn, sem hafa slíkan málatilbúnað, hafa sýnilega vonda samvizku. Það var farið með frv. eins og mannsmorð, þar til Alþingi var skipað að samþ. það. Allar venjulegar þingræðis- og lýðræðisvenjur voru virtar að vettugi.

Í þessu frv. fólust líka öll grundvallaratriðin í stefnu þjóðstj. Samkv. frv. skyldi krónan lækka um 18%. Öll verkföll voru bönnuð, og frjálsir samningar milli atvinnurekenda og verkamanna um kaup og kjör voru bannaðir. Kaupgjald mátti ekki hækka, fyrr en verðlag hækkaði um 5%. Síðan mátti kaupið hækka um aðeins helming þeirrar verðlagshækkunar, sem var frá 5–10% og um 2/3 þeirrar verðlagshækkunar, sem þar var fram yfir. Þetta gilti þó aðeins um ófaglært verkafólk og fjölskyldumenn á föstum launum, sem höfðu minna en 300 kr. mánaðarlaun. Um haustið var þessu svo breytt þannig, að kaupið mátti hækka um 3/4 dýrtíðarinnar hjá þeim, sem mesta hækkun fengu, og um 1/2 dýrtíðarinnar hjá þeim, sem minnsta hækkun fengu. Við þetta bættist svo, að vísitalan var stórlega fölsuð, svo að hún náði engri átt, eins og nú hefur verið viðurkennt af öllum. Þegar loks tekið var að leggja búreikninga til grundvallar fyrir vísitölunni haustið 1940, kom í ljós, að verðlag hafði hækkað um 42%, en á sama tíma hafði kaupgjald aðeins hækkað um 27% samkvæmt þessum endemislögum.

Svo gífurlega hafði tekizt að lækka káup verkmanna með þessari sameiginlegu tiltekt þjóðstjórnarflokkanna, Íhaldsfl., Framsfl. og Alþfl. Á sama tíma flæddi stríðsgróðinn inn í landið í tugmilljóna tali. Þá þegar höfðu innstæður bankanna aukizt um 52 milljónir kr. Mest af því var stríðsgróði togaraeigenda.

Um áramótin 1940–41 gengu kaupþvingunal. úr gildi. Nú var gerð tilraun til þess að mynda einhvers konar þjóðstjórn í verkalýðshreyfingunni. Hví skyldu þeir Ólafur Thors, Hermann og Stefán Jóhann ekki geta stofnað til eins konar ríkisrekstrar í verkalýðshreyfingunni eins og Hitler? Fulltrúar Íhaldsfl. og Alþfl. tóku höndum saman til þess að reka erindi þjóðstj. í verkalýðssamtökunum. En hér var við ramman reip að draga. Verkamenn höfðu fortölur þessara stéttarandstæðinga sinna að engu. Þá var gengið til ofbeldis. Forustumenn verkalýðsins í launabaráttunni voru teknir höndum af stjórn erlenda setuliðsins í samvinnu við íslenzk stjórnarvöld. Sjö Dagsbrúnarmenn, er fremstir stóðu í starfinu fyrir félag sitt, voru fangelsaðir. Íslenzkir dómstólar dæmdu tvo þeirra í fjögurra mánaða fangelsi og tvo í 15 mánaða fangelsi. Með svikum og ofbeldi tókst að vinna sigur yfir Dagsbrún í það skipti. En nú tóku verkalýðssamtökin að eflat,. og erindrekar þjóðstjórnarinnar og atvinnurekenda misstu tökin á þeim, áhrif þeirra fóru ört þverrandi og fylkingar þeirra tóku að riðlast. Framsókn þótti bandamönnum sínum hafa illa tekizt og sýnt mundi vera, að þeim mundi ekki takast að halda niðri kaupi verkamanna og koma í veg fyrir það, að verkamenn réttu hlut sinn vegna kauplækkunarinnar 1939–1940. Þeir kröfðust þess því, að ný kaupþvingunarl. yrðu sett, er gengju í gildi um áramót 1942. Fulltrúum Íhaldsfl. og Alþfl. þótti ekki fullreynt, hvað þeir máttu sín í verkalýðshreyfingunni. Það varð að ráði, að þeir gerðu í sameiningu enn eina tilraun til að halda kaupgjaldinu niðri. Lýstu þeir yfir því, að þeir mundu gera sitt ýtrasta í þessu efni. En það kom brátt í ljós, að þetta tókst ekki. Verkamenn voru ófáanlegir til þess að leggja sjálfir á sig fjötrana. Íhaldsmenn viðurkenndu nú vanmátt sinn, og ríkisstj. ákvað að gefa út ný kaupþvingunarl. Bæjarstjórnarkosningarnar stóðu fyrir dyrum, enda var nú svo komið, að gera varð ráð fyrir alþingiskosningum í vor. Alþfl. átti nú um tvennt að velja: Dauðadóm kjósenda sinna við kosningarnar eða fara úr ríkisstj. Hann valdi síðari kostinn.

Auðvitað varð að gefa þessari nýju herferð gegn verkalýðnum eitthvert fallegt nafn. Og þar sem hin hóflausa aukning dýrtíðarinnar er mönnum nú eitthvert mesta áhyggjuefnið, varð það að ráði að kalla þetta krossferð gegn dýrtíðinni. Nú átti að hefja mikla sókn gegn „verðbólgunni“, helzt tangarsókn eftir þýzkri fyrirmynd, undir forustu þjóðstj., eða réttara sagt rytjanna af henni. Ekki var nú forustan léleg.

Við skulum nú athuga þá árangra, sem náðst hafa í baráttunni gegn dýrtíðinni undir þessari glæsilegu forustu.

Þjóðstjórninni hefur tekizt að næstum tvöfalda vöruverð á nauðsynjavörum síðan í stríðsbyrjun. Aðferðirnar til þess að ná þessu marki voru í aðalatriðum eins og nú skal greina :

Í stað þess að safna vörubirgðum til þess að undirbúa sig undir stríðið var allt gert til þess að hindra innflutning til landsins með ströngum innflutningshömlum. Þetta þótti þá inntak allrar stjórnmálavizku.

Þessari stefnu var haldið áfram eftir að stríðið brauzt út. Í marga mánuði eftir að stríðið hófst, var hægt að flytja vörur frá Bretlandi án takmarkana, ef það hefði verið leyft af íslenzkum stjórnarvöldum.

En ríkisstj. gerði það, sem í hennar valdi stóð, til þess að hefta þennan innflutning á ódýrum vörum frá Bretlandi.

Árangurinn af þessari pólitík varð gífurleg verðhækkun á innlendum framleiðsluvörum. Morgunblaðið hefur viðurkennt, að með þessari pólitík hafi þjóðinni verið bakað tjón, er nemur tugum milljóna króna.

Næsta áhlaup ríkisstj. var að lækka íslenzku krónuna, fyrst um 18 af hundraði og síðan um 11 af hundraði með því að láta hana fylgja sterlingspundinu. Þetta varð enn til að hækka verð á innfluttum vörum að sama skapi.

Því næst lætur ríkisstj. Alþingi samþykkja nýja tollskrá. Samkvæmt henni eru tollarnir hækkaðir mjög og skulu nú einnig innheimtir af farmgjöldum og vátryggingarfé, en áður voru tollarnir innheimtir af vörum, áður en farmgjöld og vátryggingar lögðust á hana. Þetta hafði það í för með sér, að tollarnir hækkuðu úr ca. 10 millj. kr. árið 1938 upp í röskar 23 millj. kr. árið 1941. Þessi tollainnheimta ríkisstj. af stríðsvöruverði, stríðsfarmgjöldum og stríðsvátryggingum jafngilda því, að hún verji tugum milljóna á ári til þess að hækka vöruverðið. Þegar álagning leggst á tollinn og við það bætist svo sú verðhækkun á innlendum vörum, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af þessari tilbúnu verðhækkun á erlendum vörum, þá er áreiðanlega óhætt að fullyrða, að tollarnir hafi hækkað vöruverð á Íslandi um allt að 40 milljónir kr. árið 1941.

Síðan tekur stríðsgróðinn að flæða yfir landið. Stríðsgróðamennirnir taka að kaupa upp eignir landsmanna. Braskið blómgast meira en dæmi eru til fyrr eða síðar. Fasteignir margfaldast í verði. Þetta hefur þau áhrif, að allt fjármálalíf fer út skorðum og allar lífsnauðsynjar hækka gífurlega í verði. Þjóðstjórnin ýtir beinlínis undir þetta brask með pólitík sinni og heldur verndarhendi yfir því með skattalöggjöf sinni.

Þá má ekki gleyma þætti hinna stjórnskipuðu nefnda. Fyrir tilstilli þeirra hækkaði kjöt og mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir í verði miklu meira en svarar hinni almennu verðhækkun. Þessar vörur hækkuðu um á annað hundrað % á sama tíma sem vísitalan var aðeins 70 af hundraði. En það kynlega skeði, að bændur urðu lítið eða ekkert varir við þessa hækkun lengi vel. Og enn er munurinn á útsöluverðinu og verðinu, sem bændur fá fyrir vöruna svo mikill, að undrum sætir. Á sama tíma, sem mjólkin er seld á 97 aura lítrinn í Reykjavík, fá bændur um 50 aura fyrir hana, þ.e.a.s. þeir bændur, sem fá hæst verð fyrir þessa vöru.

Svona fór þjóðstjórnin að því að tvöfalda verðlagið á Íslandi.

Svo var farið að tala um kosningar. Þá fór Thorsarastjórnin með Hermann Jónasson í broddi fylkingar líka að tala um baráttu á móti dýrtíðinni.

Mikill lagabálkur var samþykktur síðastl. vor. Sá lagabálkur átti að vera allra meina bót og ríða dýrtíðinni að fullu. En l. komu aldrei til framkvæmda. Engum eyri var varið til að vinna gegn dýrtíðinni. Aðeins ein heimild l. var notuð. Tekjuskatturinn var innheimtur með 10% álagi, og rann það fé beint í ríkissjóðinn. Það ætti að vera öllum auðskilið mál, að ef slík ráðstöfun hefur á annað borð nokkur minnstu áhrif á dýrtíðina, þá er það heldur til að auka hana en til að draga úr henni. Enda varð sú raunin á, að vísitalan hækkaði miklu örar eftir að l. gengu í gildi en nokkru sinni fyrr. Á nokkrum mánuðum hækkaði hún um 30 stig.

Svo segja nokkur verkalýðsfélög upp samningum og fara fram á nokkra grunnkaupshækkun frá ársbyrjun 1942, í þeim tilgangi að rétta ofurlítið hlut verkamanna, vegna þess tjóns, sem þeir höfðu orðið fyrir af völdum kaupþvingunarl. frá 1939 og fölsunarinnar á verðlagsvísitölunni.

Og nú var heldur en ekki komið við hjarta í ríkisstj. stríðsgróðamannanna.

Baráttuna gegn kröfum verkalýðsins þurftu stríðsgróðamennirnir auðvitað að klæða í dulargervi. Stéttabaráttu milljónamæringanna gegn verkalýðnum var nafn gefið. Hún var kölluð barátta gegn dýrtýðinni.

Ríkisstj. setti l. um þvingaðan gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Samkv. þeim I. mátti grunnkaup ekki ákveðast hærra en á árinu 1941.

Ekki þótti nú lítils við þurfa. Eftir eins árs hlé var þráðurinn tekinn upp aftur og ákveðið að halda áfram á þeirri braut, sem horfið var að með kaupþvingunarl. 1939. hað er sýnilega áformað að gera kaupþvingunarl. að föstum drætti

í stjórnar fari Íslendinga. Það er stefnt að því að leggja frjáls verkalýðssamtök á Íslandi í rústir fyrir fullt og allt. Frumstæðustu mannréttindamálin, sem stjórnarskráin á að tryggja landsmönnum, eru látin sigla sinn sjó. Samkvæmt þessum l. er rétturinn til frjálsra samninga tekinn af félögum og einstaklingum, og verkamönnum gert að skyldu að vinna fyrir það kaup, sem þeim er skammtað. Þetta er mjög nálægt því að vera þrælahald. Það er ekki lengur hægt að gera löglega samninga. Alla samninga um greiðslur fyrir unnin verk er hægt að ógilda. hrammi fyrir dómstólunum eru þeir ónýt pappírsgögn.

Allt réttaröryggi í atvinnumálum er fokið út í veður og vind:

Rétturinn til að gera löghelgaða samninga er eitt aðaleinkenni réttarþjóðfélags. Með l. sem þessum var ríkisstj. milljónamæringanna að gera tilraun til að afmá íslenzku þjóðina úr tölu þeirra þjóðfélaga, þar sem einfaldasta réttaröryggi ríkir. Auk þess eru þessi l. alveg einstök í sinni röð, þar sem gerðardómurinn hefur fyrir fram bundnar hendur um það, hvaða úrskurði honum ber að fella.

Ólafur Thors hæstv. forsrh. og vinir hans, Tímamenn, halda því fram, að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir allar grunnkaupshækkanir til þess að hamla upp á móti aukinni dýrtíð.

Það er ríkisstjórn Tímamanna, Alþýðublaðsmanna og Ólafs Thors, sem hefur átt drýgstan þáttinn í að skapa dýrtíðina. Ég hef sýnt fram á, hverjar eru aðalorsakir hennar. Ekki eru það grunnkaupshækkanir. Grunnkaup hefur yfirleitt ekki hækkað frá stríðsbyrjun til áramóta 1942. En á þessu tímabili hefur dýrtíðin skapazt. Um langt skeið hækkaði kaupið aðeins um lítinn hluta dýrtíðarinnar, þannig að vinnulaun fóru í raun og veru stöðugt lækkandi og það ört lækkandi. Sannarlega hafa þeir þremenningarnir, Hermann, Ólafur og Stefán Jóhann, notað aðrar aðferðir til að skrúfa upp dýrtíðina en að stuðla að kauphækkun verkantanna.

Nú skulum við athuga, hvaða áhrif afskipti gerðardómsins af kaupgjaldsmálum hafa haft á vöruverðið.

Hæstv. ráðh. Ólafur Thors hélt því fram, að þegar grunnkaup hækkaði, þá mundi framleiðsla viðkomandi iðngreina hækka að sama skapi eða meir. Hann tók járnsmiðina sem dæmi. Við skulum halda okkur við það dæmi.

Gróði járnsmiðjanna mun hafa verið um 3 milljónir króna á síðastl. ári.

Kauphækkunin, sem járnsmiðirnir fóru fram á í ýtrustu kröfum sínum, var hins vegar ekki nema um 200 þús. kr. alls.

Þar sem nú ríkisstj. hefur það á valdi sínu að ákveða vöruverð, þá er það hverjum manni auðsætt, að gróði járnsmiðjanna var sæmilegur, enda þótt sama vöruverð hefði haldizt, þrátt fyrir kauphækkun járnsmiðanna.

Nú er það alveg víst, að ekkert verkfall hefði orðið í járniðnaðinum, hefði ríkisstj. ekki sett þessi l., eða a.m.k. hefði það ekki staðið nema í nokkra daga.

En fyrir aðgerðir ríkisstj. stóð verkfallið í mánuð og kostaði smiðjurnar a.m.k. 10 þús. kr. á dag.

Þannig hafa járnsmiðjurnar tapað, fyrir tilverknað ríkisstj., miklu meira fé en allar kaupkröfur járnsmiðanna námu, þótt þær hefðu verið uppfylltar til hins ýtrasta.

Því næst fellir gerðardómurinn úrskurð. Samkvæmt honum hækkar kaup járnsmiðanna mjög verulega. Gerðardómurinn var þannig látinn hefja göngu sína með því að brjóta l. ríkisstj. til þess að kaupa járniðnaðarmenn út úr samtökunum, af því að verkfall þeirra var farið að koma óþyrmilega við pyngju Kveldúlfs.

Samkvæmt röksemdafærslu ríkisstj. hefðu járnsmiðjurnar því þurft að hækka verðið á framleiðslu sinni miklu meira en þær hefðu orðið að gera, ef þær hefðu strax gengið að hámarkskaupkröfum járnsmiðanna og ekkert verkfall orðið.

Alveg sama sagan gerðist í öðrum iðngreinum. Á verkföllunum, sem ríkisstj. beinlínis stofnaði til og ríkisstj. á ein sök á, töpuðust hundruð þúsunda, og eftir verkföllin hækkaði grunnkaup alls staðar með baksamningum við einstaka atvinnurekendur.

Það eina, sem ríkisstj. hefur því tekizt með öllu sínu brölti, er að stuðla að enn frekari verðhækkun í öllum þeim iðngreinum, sem hlut áttu að máli.

Niðurstaðan er alveg ótvíræð, og hún er þessi: Þjóðstjórnin og rytjur hennar, sem nú hafa hrökklazt úr valdasessi, hafa skapað dýrtíðina, að svo miklu leyti, sem það er á valdi okkar Íslendinga að hafa áhrif á hana.

Ég hef nú í fáum dráttum lýst stefnu þjóðstjórnarinnar. Þar með hef ég svarað fyrri spurningunni, sem ég varpaði fram í upphafi ræðu minnar um það, hver sé stefna stj., sem vantraustið er borið fram á. Stefna þeirrar stj., sem nú tekur við, er í öllum meginatriðum hin sama og fráfarandi stj.

Þar með er afstaða fulltrúa alþýðunnar til ríkisstj. mörkuð. Við fulltrúar Sósfl. erum einu fulltrúar alþýðunnar á Alþingi. Og við erum í jafnákveðinni stjórnarandstöðu nú og við vorum áður en stjórnarskipti urðu, og lýsi ég yfir því, að ummæli Hermanns Jónassonar og Tímans um, að sósíalistar styðji þessa ríkisstj., eru ósannindi og uppspuni frá rótum.

Þá er að svara síðari spurningunni, sem ég varpaði fram: Hver er tilgangurinn með vantrauststillögunni? Því er fljótsvarað, og það er ekki heldur neitt deilumál. Tilgangurinn með vantrauststillögu Framsfl. er að koma í veg fyrir, að bætt verði úr versta ranglæti kosningal. og þá jafnframt, að þessi stj. skuli rýma fyrir annarri öflugri og ákveðnari afturhaldsstjórn en þessi er. Flm. till. fara þess á leit við Alþingi, að það greiði götuna fyrir nýrri samsteypustj. Kveldúlfsmanna og afturhaldsins í Framsókn. Tillagan er fram borin í afturhaldssömum tilgangi.

Það liggur í hlutarins eðli, hvaða afstöðu þm. Sósfl. taka til slíkrar till. 1938 báru íhaldsmenn fram vantrauststillögu gegn stjórn Framsóknar og Alþfl. Tillagan var krafa íhaldsmanna um, að stj. skyldi rýma fyrir enn afturhaldssamari stj., sem þeir sjálfir tækju þátt í. Sósfl. var í ákveðinni stjórnarandstöðu, en hann greiddi samt ekki atkv. með þessari vantrauststill. íhaldsmanna, sem hafði afturhaldssamt markmið. Þm. hans sátu hjá við atkvgr. Sömu afstöðu taka þm. Sósfl. nú til vantrauststillögu framsóknarmanna, sem einnig hefur afturhaldssamt markmið.

Sú stjórn, sem nú tekur við, verður veik stj., miklu veikari en fráfarandi stj., og er það mikill kostur frá sjónarmiði alþýðunnar, eins og nú er háttað um skipun Alþingis. Af henni er einskis góðs að vænta, en hún hefur ekki afl til þess að koma fram neinum meiri háttar skemmdarmálum gegn fólkinu, eins og sú stjórn, sem nú hrökklast frá völdum við litinn orðstír. Hún er eins konar millibilsstjórn. En það, sem mest er um vert, er það, hvað við tekur að afstöðnum tvennum kosningum. Því geta kjósendur ráðið. Ef kjósendur veita fulltrúum gömlu þjóðstjórnarflokkanna, fulltrúum Íhaldsfl., Framsfl. og Alþfl., brautargengi í kosningunum, þá stöndum vér aftur í sömu sporum að kosningunum loknum. Aftur verður mynduð samsteypustjórn þriggja flokka, samsteypustj. afturhaldsins, sem enn á ný mun smána íslenzku þjóðina með því að kenna sig við hana og kalla sig þjóðstjórn. En það er líka á valdi kjósendanna að koma í veg fyrir þetta. Það er á þeirra valdi að greiða götu þess og flýta fyrir því, að sú stund megi sem fyrst upp renna, að mynduð verði sannnefnd þjóðstjórn, stjórn fólksins, skipuð fulltrúum alþýðunnar á Íslandi til sjávar og sveita, sem starfar í náinni samvinnu við samtök verkamanna og bænda og lætur það eitt vera lög í landinu, sem horfir til heilla og hagsældar fyrir hið starfandi fólk, sem byggir þetta land.