21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (1317)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti ! Á þeim fáu mínútum, er ég hef til umráða, get ég ekki elt ólar við þær missagnir, er fram hafa komið, síðan ég flutti frumræðu mína í fyrrakvöld.

Fleipur kommúnista og ónot Héðins Valdimarssonar leiði ég alveg fram hjá sér, svo og ádeilu Alþfl. á Sjálfstfl., sem að mestu hefur hnigið að gömlum, þrautræddum, margupplýstum og öllum þaulkunnum ágreiningi út af gerðardómsl., sem Framsfl. er nú líka að byrja að vega aftan að. Ég get líka fyrir það verið fáorðari um ræður hv. framsóknarmanna, að bæði hæstv. atvmrh. og hæstv. fjmrh. hafa nú gert þeim glögg skil. En auk þess vil ég deila sem vægast á þá nú vegna þess, að þeir munu ekki taka aftur til máls í þessum umr. Samt ætla ég aðeins að víkja nokkrum orðum að fyrrv. viðskmrh., hv. 1. þm. S.-M. Hann rakti sögu dýrtíðarmálanna í gær og veik að þeim áðan, talaði mikið um till. sina og svík Sjálfstfl. og Alþfl. Hæstv. fjmrh. hefur nú rakið þá sögu. Ég bæti aðeins þessu við:

Ég held, að vel fari á, ekki sízt fyrir hv. fyrrv. ráðh. Framsfl., að tala lítið um þessi mál. „Tillögur minar“, sem hv. 1. þm. S.- M. kallar, eru þannig til komnar, að eftir miklar umræður á stjórnarfundi, þar sem ræddar voru hinar ýmsu leiðir í dýrtíðarmálunum, færði hæstv. þm. þær í letur og veik nokkru við eftir geðþótta, en kenndi síðan tillögurnar við sjálfan sig. Hitt er rétt, að minni hyggju, að enginn hinna ráðherranna átti meiri skapandi þátt í niðurstöðu þeirra viðræðna en hv. 1. þm. S.-M.

En þegar þessi hv. þm. brigzlar um brigðmælgi, minni ég aðeins á, þegar Stefán Jóhann Stefánsson, Jakob Möller og ég hinn 20. okt. s.l. að mig minnir gengum beint af fundi Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar og tilkynntum flokkum okkar, að sættir hefðu tekizt í dýrtíðarmálunum. Framsfl. hefði aðhyllzt frjálsu leiðina. Daginn eftir kom svo í ljós, að Framsfl. tilkynnti, að hann færi úr stjórn, ryfi samstarfið, stofnaði til glundroða, óreiðu, upplausnar o.s.frv., eins og hv. 1. þm. S.-M. nú nefnir það, ef frjálsa leiðin yrði farin. Var það upphaf þeirrar háðungar, er þingið á síðasta hausti sat í 5 vikur aðgerðarlaust í leit að nýrri stjórn, sem endaði með sömu stjórn, með þeirri breyt. þó, að forsrh. tók fram að hann og flokkur hans bæri enga ábyrgð á framkvæmd þjóðmálanna. Mun það eins dæmi í veraldarsögunni, eins og líka hitt, að Framsfl. svíkur nú samvinnuna og gengur úr ríkisstjórninni, en lýsir því jafnframt yfir, að afleiðingin verði sú, að landið verði raunverulega stjórnlaust á þessum hættunnar tímum.

En um það, hver svikið hafi, verða menn að trúa því, sem þeim finnst Sennilegra: Það, að Stefán Jóh. Stefánsson, Jakob Möller og ég höfum farið rakleitt af fundi Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar til þess beinlinis að segjl okkar eigin flokkum rangt frá um höfuðágreiningsmálið eða hitt, að Framsfl. hafi brugðizt loforðinu um að aðhyllast frjálsu leiðina. Bæði hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Str. sögðu algerlega rangt frá málefnaumræðum innan ríkisstjórnarinnar, bæði varðandi launaskatt, tekju- og eignarskatt og margt annað. 141un það síðar skýrt í umræðum og blöðum. En brosleg var myndin, sem hv. 1. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, dró í gær upp af baráttu Framsfl. innan stjórnarinnar. Samstarfsflokkarnir, Sjálfstfl. og Alþfl., voru hvor öðrum verri, fyrirlitlegri og sviksamari. Alþfl. taglhnýtingur kommúnista, en Sjálfstfl. sjálfum sér sundurþykkur og því þróttlaus og getulítill. Gegn þessum undirlægjuhætti Alþfl. og sundrung og sviksemi Sjálfstfl. barðist svo hinn heilsteypti flokkur Jónasar Jónssonar og Hermanns Jónassonar, treystur böndum órjúfanlegrar vináttu og samstæðra lífsskoðana. Og sjá, þrátt fyrir sviksemi og pretti, — alltaf sigrar Framsfl., en hin góðu málin eru hans hlutur, en það, sem á vantar og miður hefur farið, er okkar sök. Og ofan á allt þetta getum við svo ekki svo mikið sem unnt Framsfl. að fá að vera í friði með þessa smávægilegu aukagetu, — tvöföld mannréttindi handa Framsóknarkjósendum og svolítil sérréttindi handa yfirstétt landsins, forustuliði Framsfl., mönnunum, sem elskuðu svo mikið dreifbýlið, að þeir lögðu á sig að yfirgefa það og setjast að í hinu andstyggilega þéttbýli, einvörðungu til þess að geta varðveitt hag þeirra, sem eftir urðu í dreifbýlinu. Hvílíkt hróplegt ranglæti !

Hv. 1. þm. S.- M. lagði sig mjög fram um að sýna fram á, að þeir flokkar, er stæðu að kjördæmamálinu, ættu að öðru leyti ekki samleið. Taldi hann það þjóðarvoða. Sjálfur lýsti hann þessum flokkum sem taglhnýtingum, sundurþykkjumönnum og svikurum.

Hvaða samleið getur hann og flokkur hann átt með slíkum lýð? Og hvernig á eiginlega að stjórna landinu á komandi árum, ef stærsti flokkur þjóðarinnar má ekki leysa áhugamál sitt með öðrum en Framsfl., en Framsfl. er svo tárhreinn og ábyrgur, að hann getur ekki unnið með sjálfstæðismönnum og þaðan af síður hinum flokkunum? Og hver getur tekið alvarlega harmagrát hv. 1. þm. S.- M. og flokks hans út af samvinnuslitum við flokka, sem hann lýsir þannig? Þ.m tár eru krókódílatár eða stóryrt fleipur.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði margt fleira skemmtilegt, svo sem að Sjálfstfl. væri hræddur við dóm þjóðarinnar í kjördæmamálinu og Sjálfstfl. hefði rofið friðinn, og þá líklega með því að vera eini flokkurinn, sem vildi standa við ákvörðun Alþ. um að fresta kosningum. Hann leyfði sér að væna þá um., sem Sjálfstfl. í haust fær kosna í tvímenningskjördæmum, um þann fáheyrða ódrengskap að ætla að nota traust sveitanna til að svíkjast aftan að sveitavaldinu o.s.frv. Þessi málflutningur er engum til sóma. Ég afsaka Eystein Jónsson með þessum orðum úr ræðu hans í gær: „Öll mál eru einskis virði fyrir þann, sem hugsar um það eitt að -bjarga pólitísku lífi sínu,“ — hann hefði átt að bæta við: Eins og við framsóknarmenn nú gerum.

Þessum umr. er nú lokið af hendi þeirra, er vantraustið flytja. Fyrir hönd ríkisstj. og Sjálfstfl. tel ég ekki ástæðu til að kvarta. Persónulega hefur mér fallið heldur verr, að mér hefur þótt kenna af hendi fyrrv. ráðh. Framsfl. fullmikils hita, að ég ekki segi ofsa, meiri missagna en títt er, jafnvel í slíkum umr., og alveg tilefnislausra árása, svikabrigzla og hvers konar óhróðurs um okkur fyrrv. samstarfsmenn þeirra í ríkisstjórn landsins um þriggja ára skeið. Hitt er mér hvorki undrunar- né hryggðarefni, að hv. 1. þm. Rang. hefur talað eins og óvandaður maður. Það er þó bót í máli, að þó að hann lýsi málefnunum rangt, þá lýsir hann sjálfum sér rétt með þessu.

Ég skil, að hv. Framsfl. sé ekki sársaukalaust að missa hin alveg einstöku réttindi sín. Mér finnst mannlegt, að reynt sé að halda í þau og fast tekið á móti, þegar á er ráðizt og barizt er um, hvort Framsfl. á að hafa 19 menn á þingi eða kannske 12 eða 13, eins og sennilegast er, að verði eftir síðari kosningarnar. allt er þetta mannlegt. En mér hefði þótt mikilmannlegra, að háttv. fyrrv. ráðherrar Framsfl. hefðu tekið þessu með meiri stillingu. Englendingar, sem allra þjóða mest meta réttar og drengilegar leikreglur, dæma þyngst, ef út af bregður, að menn séu það, sem þeir kalla „good looser“, þ.e.a.s. verði vel við ósigri sínum. Og fyrir það hefði ég fremur vænzt þess af háttv. fyrrv. samstarfsmönnum mínum, að af fenginni reynslu ætla ég báðum að geta skilið, að það, sem nú er að ske, hlaut að vera í vændum. Það var með öllu óhugsandi, að Framsfl. gæti um aldur og ævi haldið tvöföldum eða margföldum mannréttindum á við alla aðra þegna þjóðfélagsins. Ég veit, að fyrr en varir skilst þeim þetta. Þá færist ró yfir þá. Til lengdar er ekki hægt að ganga berserksgang fyrir langlætinu, jafnvel þótt flokkslegir hagsmunir séu annars vegar.

Í þessum umr. hefur meðal annars sannazt: Að með því að standa við ákvörðun þá, sem Alþingi gerði í fyrra um frestun þingkosninga, var misklíðarefninu víkið til hliðar og friður og samstarf varðveitt. Þetta vildi Sjálfstfl., en Framsfl. ekki. Það eru staðlaus ósannindi, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að Sjálfstfl. hefði boðið upp á eitthvert brask um frestun kosninga annars vegar og að eyða kjördæmamálinu hins vegar. Þessi fyrrv. samstarfsmaður minn veit, að ég hef æ ofan í æ klifað á því, að það væri ekki samboðið virðingu Alþ. að ákveða, að kosningar færu nú fram að óbreyttum kringumstæðum, heldur yrði þingið virðingar sinnar vegna að standa við ákvörðun þá um frestun kosninga, sem það tók í fyrra. Sjálfstfl. hefur alltaf talið, að þingið, virðingar sinnar vegna, yrði að standa við þessa ákvörðun sína í fyrra. (EystJ: Þetta er rangt, að Sjálfstfl. hafi yfirleitt viljað þetta.) Það verður skuggi á samstarfi okkar, ef hv. fyrrv. ráðh. staðhæfir í áheyrn alþjóðar, að ég fari ekki hér með rétt mál, og kann ég ekki við að munnhöggvast við þennan mann um þetta í útvarpinu. En hann veit, að ég fer með rétt mál.

Í öðru lagi hefur það sannazt, að úr því að á annað borð var ákveðið að kjósa, kröfðust þeir 3/4 hlutar kjósenda, sem aðeins hafa hálfan kosningarrétt á við framsóknarmenn, að kjördæmamálið yrði samþ. og kosið að nýju. Að synja þeirri kröfu var að kveikja bál úlfúðar og haturs í þjóðfélaginu, stofna til ófriðar, sem aldrei gat endað með öðru en því, að 3/4 hlutar kjósenda sæktu mannréttindi sín í hendur þess 1/4 hluta, sem sérréttinda naut og krafðist.

Það hefur enn sannazt, að sá, sem krafðist kosninga, krafðist því hatramms ófriðar eða tvennra kosninga. Þetta gerði ekki Sjálfstfl., heldur Framsfl.

Enn fremur, að allir, einnig Framsfl., hafa neyðzt til að játa, að rangsleitni gildandi kjördæmaskipunar er óþolandi, og að sú kjördæmaskipun, sem í vændum er, hefur þá höfuðkosti að varðveita eða jafnvel styrkja sveitavaldið, halda óbreyttum hinum fornu kjördæmum, fjölga lítið eða ekkert þingmönnum, og er auk þess líkleg til þess að fullnægja þeirri grundvallarkröfu stjórnarskrárinnar, að Alþ. sé sem réttust mynd af þjóðfélaginu.

Af þessu er bert, að Framsfl. hefur hafið þessa styrjöld og að barátta Framsfl. er nú eingöngu baráttu fyrir gömlum, úreltum, illa fengnum og misjafnlega meðförnum sérréttindum. Slík barátta getur aldrei nema í einn veg endað.

Varðandi sjálft vantraustið segi ég aðeins þetta. Það er fyrst og fremst stutt með því tvennu, að stjórnin sé of veik og því fari hér allt í glundroða, og að Sjálfstfl. hafi stofnað til friðslita og beri því ábyrgð á þessum glundroða.

Varðandi hið fyrra bendi ég á, að um tvö af þrem höfuðverkefnum stjórnarinnar, sjálfstæðismálið og að verjast áföllum, standa þing og þjóð einhuga. Að hinu þriðja, kjördæmabreytingunni, stendur mikill meiri hluti þings, með 3/4 hluta kjósenda að baki sér.

Frá þessu sjónarmiði er stjórnin sterk, kannske sterkasta stjórn, sem hér hefur setzt að völdum.

Sé hins vegar litið á aðeins beint flokksfylgi stjórnarinnar, þá fer hún að sönnu ekki með umboð hálfrar þjóðarinnar, en þó fer því ekki fjarri. Slík stjórn er ekki svo sterk, að ég kjósi ekki heldur þjóðstjórn, en það situr illa á hv. framsóknarmönnum að gagnrýna það jafn hvatskeytlega og þeir hafa nú gert. Sjálfir mynduðu þeir flokksstjórn 1938. Hún hafði að baki sér aðeins rúman helming þess kjósendafjölda, sem stendur að baki núverandi stjórnar, og það sem meira er, stjórnir þær, sem Framsfl. hefur haft forsæti í allt frá 1934 til 1939, hafa aldrei haft að baki sér fylgi fleiri kjósenda en núverandi stjórn. Þessir menn gera sig því beint hlægilega með því að lýsa vantrausti á stjórnina á þessum grundvelli, og þeim er að því engin stoð að vitna til vantrausts þess, er Sjálfstfl. flutti 1938 á flokksstjórn Framsfl., eins og fyrrv. viðskmrh. gerði í gær. Aðstaðan er með öllu ósambærileg. 1938 — í byrjun kjörtímabils — myndaði Framsfl. flokksstjórn, studdur í orði af flokki, sem var svo ósammála Framsfl. um aðalúrlausnarmálin, að hann tók ráðherra sinn úr stjórninni út af ágreiningi um þau. Nú aftur á móti er mynduð stjórn til þess að láta kjósa og auk daglegra starfa hefur það verkefni að ljúka einu máli, sem nær 2/3 hlutar þjóðarinnar eru sammála um, en tveim málum, sem þjóðin stendur óskipt að. Hér þarf ekki frekar vitna við.

Varðandi hið síðara, friðslitin, þá hefur nú verið margsannað, að það er Framsfl., sem veldur.

Væri það venja að bera fram á þingi vantraust á þann, sem fer ekki með völd, teldi ég því maklegt að bera slíkt vantraust fram á hendur Framsfl. út af friðslitunum, og lyst við, að það yrði samþ. Hefði þá Framsfl. upp skorið eins og hann hefur niður sáð, er hann ber á okkur vantraust og eys yfir okkur svikabrigzlum og hvers konar óhróðri, rétt um leið og hann slítur þeirri samvinnu, sem við töldum hafa gengið slysalítið og orðið öllum til blessunar og víssum ekki betur en byggðist á gagnkvæmu trausti þeirra manna, er að henni stóðu.

Svo segir í Njálu, að er þeir Gunnar á Hlíðarenda og Kolskeggur voru á heimleið eftir að Gunnar hafði vegið og Otkel og Skammkel í bardaganum við Rangá, að Gunnar mælti: „Hvað veit ég, hvort ég mun því óvaskari en aðrir menn sem mér þykir meir fyrir en öðrum mönnum að vega menn.“ Við sjálfstæðismenn höfum að þessu sinni verið seinþreyttir til vandræða og haldið fast í friðinn og samstarfið. Á því hefur okkur nú verið enginn kostur ger. Og er nú að sýna Gunnarseðlið, þegar á hólminn kemur. Sannist, að við munum sækja mál okkar og verja af engu minna kappi en aðrir, þótt við höfum langt umfram aðra reynt að sporna við friðslitunum.

Sjálfstæðismenn um land allt. Bardaginn er hafinn. Því er treyst, að hver sjálfstæðismaður geri skyldu sína.