19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

13. mál, skemmtanaskattur

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins skjóta því fram í sambandi við þá miklu hækkun, sem hér er lagt til að gera á skatti á ákveðnar skemmtanir, hvort ekki væri ástæða til, jafnframt því, sem það væri gert, að endurskoða þessa löggjöf að öðru leyti. Það horfir dálítið sérstaklega við með þennan skatt, þar sem hér er lagt til að leggja skattinn á í öllum kaupstöðum víðs vegar um land, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri, og verja því fé til ákveðinna framkvæmda á einum stað á landinu, sem sé þjóðleikhússins í Reykjavík, og nú er lagt til, að þessi skattur verði svo gífurlega hár sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og brtt. Mér virðist þetta gefa fullkomlega tilefni til, að l. séu tekin og athuguð að öðru leyti, um leið og gengið er frá þessum breyt., svo mikil hækkun sem þar er lögð til. Segja má, að gott sé að koma upp myndarlegu þjóðleikhúsi og það sé að vissu leyti landsmál og sá menningarauki, sem að því er, geti haft þýðingu fyrir leikmenntina á landinu yfirleitt, en þó er það vitanlegt, að það er víðar en í Reykjavík, sem menn eru með leiksýningar og annað slíkt. Það er því fullkomin ástæða til að athuga, hvort þeir staðir, sem greiða þetta gjald, eigi ekki að fá eitthvað af því, til þess að greiða götu leikmenntarinnar, þar sem hún er rekin, sem mun vera alls staður í kaupstöðum, þar sem íbúar eru yfir 1500.

Ég vildi aðeins hreyfa þessu, hvort n. vildi ekki taka þetta til athugunar fyrir 3. umr. málsins. Mér virðist þessi mikla hækkun gefa fullkomlega tilefni til þess, að I. yrðu líka að þessu leyti endurskoðuð.