09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég vildi ákaflega eindregið mælast til þess við hv. d., að hún afgr. þessi tvö mál á þessum fundi. Sannleikurinn er sá, að það er orðið svo áliðið, að hver dagurinn er dýr, þar sem skattanefndir um land allt bíða eftir afgr þess, og hefur afgr. raunar dregizt of lengi. Ég verð þess vegna þegar af þeirri ástæðu að leggja á móti þessari brtt. hv. þm. Hafnf. Ég skal ekki deila við hann um það, hversu mikið sanngirnismál þetta kunni að vera, sérstaklega að því, er snertir Hafnarfjörð. Hins vegar vil ég benda honum á það, að þó að þetta yrði ekki sett inn í l. að svo stöddu, er ekki þar með loku skotið fyrir það, að leiðrétting fengist, ef reynslan sýndi, að þessi kaupstaður eða aðrir verða illa úti í sambandi við skipting stríðsgróðaskattsins. Hins vegar er vafasamt, hver trygging er í því, jafnvel þó að sett verði í l., því að vitanlega getur Alþ. alltaf breytt þeim l. aftur. Ég held líka, að ef farið er að senda málið nú á milli d., sé ekki aðeins um að ræða töfina, sem enginn veit, hvað mikil getur orðið, því að óvíst er, að hv. Nd. léti sér þá nægja þá einu breyt., svo að málið þyrfti kannske að koma aftur hingað, — heldur bætist við, að eins og frv. er, hygg ég, að meginhluti þingsins uni sæmilega afgreiðslu þess. Þegar þess er gætt, að ekki er loku fyrir það skotið, ef um einhverja sanngirniskröfu er að ræða af hálfu bæjarfélaga, að henni gæti fengizt framgengt síðar með sérstakri lagaheimild, vil ég mælast til, að hv. d. afgreiði málið, eins og það nú liggur fyrir.