19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

13. mál, skemmtanaskattur

*Fjmrh. (Jakob Möller):

þetta mál heyrir raunverulega undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið, eins og sjá má af frv., og ég stend nú ekki upp fyrir þann ráðh. En þar sem fjármálaráðuneytið hefur haft þetta mál til meðferðar að undanförnu, þá má segja, að það sé eðlilegt, að ég hafi eitthvert orð í að leggja um þetta mál.

Um það, hvernig ríkisstjórnin hugsi sér að framkvæma þessi l., skilst mér það vera augljóst af frv. eins og það liggur fyrir, að skemmtanaskatturinn verði innheimtur með 80% álagning allt árið 1942. Þetta kann kannske að þykja dálítið hæpið, vegna þess að heimildin féll niður frá 1. janúar til 4. febrúar þetta ár. En það er vitað, að kvikmyndahúsin héldu áfram að innheimta skemmtanaskattinn með 80% álaginu, þ.e.a.s. hafa aðgangseyrinn það háan sem svaraði því. Þess vegna er það talið réttmætt að innheimta skemmtanaskattinn fyrir þetta tímabil, sem ég gat um, með 30% álaginu, af því að kvikmyndahúsin hafa gert það á þennan hátt. Öðru máli gegnir um það, ef Alþ. ákveður að hækka skattviðaukann upp í 200%, hvort fært þykir að innheimta skattinn frá nýári með 200% álaginu. Ég býst ekki við, að það verði gert og hann verði ekki innheimtur með því álagi nema frá þeim tíma, er bráðabirgðal. voru sett og kvikmyndahúsin fengu tilkynningu um það, að sá skattur væri genginn í gildi og heimild l. til innheimtu á honum yrði notuð. Annað held ég ekki, að sé ástæða fyrir ríkisstjórnina að leggja orð í belg um þetta.

Það skal játað, að 200% skattviðauki hljómar náttúrlega ákaflega illa í eyrum manna, sem þurfa að borga hann. En þegar þess er gætt, að grundvallarskatturinn er ekki nema 10%, þýðir þetta, að allur skatturinn verður 30% hækkun á aðgangseyri að kvikmyndum. Það má sjálfsagt segja, að það sé nokkuð hár skattur, og ég skal ekki neita því. En það er mál hv-. þd. að ákveða um það, hvort hún vill leggja samþykki sitt á það, að skatturinn verði hækkaður eins og hér er farið fram á.