22.04.1942
Sameinað þing: 7. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (1429)

73. mál, áfengismál

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég vil gjarnan nú þegar, að svo miklu leyti sem í mínu valdi stendur, gera grein fyrir afstöðu ríkisstj. til þessa máls, og að því leyti sem till. á þskj. 133 gefur tilefni til.

Eins og hv. frsm. og aðalflm. till. gat um, þá var á s.l. ári tekið það ráð að loka áfengisverzluninni. Þessi aðgerð var nú í raun og veru ekki alls kostar af sömu ástæðu frá upphafi til enda. Það var, eins og kunnugt er, fyrst lokað í maí í fyrra, og svo aftur í júlí, og að lokum var svo tekin endanleg ákvörðun um það í ágúst að opna ekki aftur til almennrar sölu. Þegar lokað var í maí, var það eingöngu fyrir þá sök, að verzlunin hafði ekki til þær víntegundir, sem mest eftirspurn var eftir. Þótti þá ekki rétt að halda útsölunni opinni, því að þá mátti gera ráð fyrir, að þær birgðir, sem til voru af öðrum vínum, mundu seljast upp. Var þá tekið það ráð að loka í bili, þangað til þær tegundir, sem mest eru keyptar, væru aftur fyrir hendi.

Þetta var gert vel vitandi það, að í l. er ekkert áfengissölubann, heldur þvert á móti. Alþ. hefur fellt úr gildi sölubann og í rauninni lagt fyrir ríkisstj. að selja áfengi með þeim hætti, sem áfengislöggjöfin gerir ráð fyrir, þ.e. með einkasölu. Að þessu leyti má segja, að ríkisstj. hafi, þvert á móti því, sem Alþ. hefur með löggjöf lagt fyrir hana, gert þessa ráðstöfun. En það var, eins og ég sagði áðan, af þeirri sérstöku ástæðu, að vegna viðskiptaörðugleika voru ekki til þær víntegundir, sem mest eftirspurn var eftir. Þegar svo birgðir komu, var opnað á ný, en lokað aftur í júlí til bráðabirgða, en það var af allt annarri ástæðu en áður. Þá komu, eins og kunnugt er, nýjar hersveitir til landsins, og þótti þá rétt af lögregluástæðum að loka áfengisútsölunni í bili, til þess að sjá, hverju fram yndi um viðskipti landsmanna og þessara nýju liðsveita. Þetta hefur svo haldizt þar til um síðustu áramót, að farið var að veita undanþágur eða tilslakanir undir víssum kringumstæðum, án þess að opna vínbúðirnar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er heimilað í lögum, að lögregluvaldið taki þannig í taumana, t.d. að það loki veitingastöðum og banni áfengissölu í bili, Þetta hefur áður verið gert og að sjálfsögðu látið óátalið. Ég er ekki að lýsa þessu vegna þess, að hv. aðalflm. hafi veitzt að stj. fyrir að hafa gert þessa framkvæmd, heldur þvert á móti, því að flm. till. eru sammála ríkisstj. um, að eins og á stóð hafi verið rétt að loka áfengisverzluninni.

Hvað viðvíkur þeim hluta fyrri tölul. tillgr. að skora á ríkisstj. að „láta nú þegar niður falla allar þær tilslakanir, sem gerðar hafa verið“. þ.e.a.s. hinar svo kölluðu undanþágur frá almennu sölubanni, get ég upplýst, að ríkisstj. lítur svo á, að þótt ástæða geti verið til, að lögregluvaldið grípi þannig fram í að banna tiltölulega lítið takmarkaða sölu áfengis í landinu, þá er ekki þar með sagt, að nokkur ástæða þurfi að vera því til hindrunar, að einstakir menn geti, við hátíðleg tækifæri eða þegar sérstaklega stendur á, haft aðgang að áfengi með þeim hætti, sem heimilað er með þessum undanþágum. Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu litið svo á, að engin almenn hætta stafaði af slíkum útlátum, sem lögregluvaldið þyrfti að láta til sín taka, og á þeim grundvelli ekki séð nægilega ástæðu til þess að neita með öllu um slíkt áfengi. Hitt liggur í hlutarins eðli, að ef Alþ. vill ganga lengra en ríkisstj. hefur gert í þessu efni, þá er það auðvitað á þess valdi. En þessi orð mín eiga alla ekki að skiljast svo, að ég sé með þeim að andmæla því, sem í till. er farið fram á, að hér eftir verið allar undanþágur niður felldar. En ég lít svo á, og ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. geri það öll, að þar sé dálítið öðru máli að gegna heldur en um hitt, að banna óhindraða sölu á áfengi, og hljóti því í rauninni að liggja nokkuð aðrar ástæður fyrir því en hinu.

Hv. aðalflm. vakti athygli á því í sambandi við 2. lið till., að hér mundi eiga sér stað allverulegur innflutningur áfengra drykkja af hálfu einstakra manna í herliðum þeim, sem hér hafa aðsetur. Hann virtist vera í nokkrum vafa um það, hvort íslenzk lög gætu tekið til slíks innflutnings, þannig að þeir erlendu menn, sem þar eiga hlut að máli, gætu verið látnir sæta viðurlögum eftir íslenzkum l. fyrir þær aðgerðir. Ég skal ekki fullyrða neitt um þetta, en ég er ákaflega hræddur um, fyrir mitt leyti, að erfitt mundi að koma fram ábyrgð á hendur þeim samkv. íslenzkum lögum. Persónulega er ég alveg sannfærður um, að það yrði ekki hægt. Hitt er annað mál, að það má ætla, að einhver áhrif mætti hafa á þennan innflutning með samningaumleitunum við herstjórnirnar. Þó get ég fullvissað menn um það, að slíkir samningar eru alls ekki auðfáanlegir, því að sannleikurinn er sá, að þeir menn, sem þarna eiga hlut að máli, líta allt öðrum augum á þessa hluti en gert er hér á landi, og þó sérstaklega öðruvísi heldur en litið er á það af hv. flm. þessarar till. Og ég geri mér satt að segja litlar vonir um árangur af því, þó að slíkar samningatilraunir væru reyndar, að herliðin eða einstakir menn úr þeim flytji ekki inn áfenga drykki til sinna þarfa. Hitt er í sjálfu sér alls ekki viðurkennt, að þeir selji Íslendingum þessa vöru. Fyrir því veit ég ekki til, að liggi neinar sannanir. Annars eru hér lög um það sett, sem ég hygg, að séu fullkomlega viðurkennd af herstjórnunum, að setuliðsmönnum er bannað að selja landsmönnum nokkrar vörur. Íslenzk lög taka að vísu ekki til setuliðsmannanna, en ef á þá yrði sannað, að þeir selda innlendum mönnum þessa vöru, þá ætti að kæra það fyrir herstjórnunum og þær að framfylgja refsingu gagnvart sínum mönnum, eins og íslenzka ríkisvaldinu ber að sjálfsögðu að framfylgja refsingu gagnvart þeim, sem kaupa af setuliðsmönnum þessa vöru. En í framkvæmd geri ég ráð fyrir, að erfitt muni vera að hafa hendur í hári slíkra lögbrjóta.

Hv. aðalflm. innti að því, að það mundu vera einn eða fleiri íslenzkir kaupsýslumenn, sem störfuðu að því að útvega mönnum í erlenda setuliðinu áfenga drykki frá útlöndum. Ég hef heyrt þetta líka og skal ekki á neinn hátt véfengja það, þó að ég hafi að vísu ekki neinar sannanir fyrir þessu og ekkert annað en orðróm. Það hafa ekki komið fram, svo að ég viti, neinar kærur, sem að vísu væri hugsanlegt, fyrir ólöglegt athæfi, sem ég hins vegar efast um, að hægt væri að koma fram ábyrgð fyrir. Lögin banna einstaklingum að flytja inn áfenga drykki, það hefur aðeins áfengiseinkasala ríkisins heimild til. En þessir menn, sem kynnu að vera milliliðir milli þeirra erlendu setuliðsmanna og erlendra verzlunarfyrirtækja um útvegun á vinum, þeir eru ekki innflytjendur, heldur hermennirnir, sem eru kaupendur og innflytjendur þessarar vöru. Og ég efast um, að starfsemi þessara Íslendinga varði við lög. Hið opinbera ákæruvald hefur ekki tekið þetta mál upp, og ég býst varla við því, að það geri það, en fullyrði það þó ekki. Og ef kæra kæmi fram, mundi málið að sjálfsögðu verða athugað. Það er vafalaust rétt, að mikil brögð hafa verið að því, að erlendir menn, sem hér eru staddir, ekki einungis setuliðsmenn, heldur einnig skipshafnir á erlendum skipum, sem hingað koma, — sem hafa sennilega með sér áfenga drykki — selji hér ólöglega. Og verður svo allt andvirði þessa víns borgað hér og sennilega að svo og svo miklu leyti í erlendum gjaldeyri. Því að mennirnir, sem við andvirðinu taka, fara að sjálfsögðu með þá íslenzku peninga, sem þeir fá, í bankann og fá þeim skipt fyrir erlendan gjaldeyri. En að því leyti, sem vín kann að vera flutt inn af setuliðsmönnum sjálfum meir og minna opinberlega og fyrir milligöngu íslenzkra kaupsýslumanna, eins og hv. aðalflm. veik að, þá hygg ég þeir menn fái ekki gjaldeyri til að greiða þá reikninga og veit ekki annað en neitað hafi verið um gjaldeyrisleyfi fyrir slíkar greiðslur. Aðstaða stjórnarvaldanna, sem um þetta hafa fjallað, hefur verið sú, að þeir verði sjálfir að sjá fyrir gjaldeyri fyrir þessa vöru. Hitt er annað mál, að ef þeir síðan selja innlendum mönnum, fá þeir íslenzka peninga fyrir, sem þeir fá rétt til að skipta fyrir útlenda peninga, enda ekki hægt að upplýsa, hvernig þeir komust yfir þessa íslenzku peninga. Þannig getur mjög veruleg fúlga orðið greidd í erlendum gjaldeyri fyrir þessa vöru, miklu hærri en fyrir innflutt áfengi til einkasölunnar, vegna þess að verðið í launsölu útlendinga er miklu hærra en innflutningsverð einkasölunnar. Að þessu leyti er bersýnilegt, að slík verzlun verður miklu útdráttarsamari fyrir þjóðarbúið hvað erlendan gjaldeyri snertir.

En vinningurinn verður sennilega alltaf sá, að minna magn verður selt heldur en í opinberri sölu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en málið er að sjálfsögðu aðeins á þingsins valdi. Þegar ákvörðunin var tekin viðvíkjandi lokun áfengisverzlunarinnar í ágúst s.l., var ráðgert að láta Alþ. skera úr, hvort svo skyldi vera eða ekki framvegis, og viðurkennt í rauninni, að það væri mjög vafasamt, hvað mikla heimild ríkisstj. hefði til þess að loka áfengisverzluninni, samkv. þeim l., sem um það mál gilda.