29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Þó að nokkuð sé búið að ræða þetta mál í Nd., hafði ég búizt við, að ríkisstj. mundi fylgja því úr hlaði hér, einkum með tilliti til þess, að fylgifiskur þess eru hin illræmdu gerðardómsl. Það er sem stjórnarflokkarnir hafi ekki treyst sér til að leggja það fyrir Alþ., fyrr en liðinn var 6 vikna tími af þingi. Og í sambandi við ummæli hv. 1. þm. N.- M. vil ég benda á, að ef menn þurfa að bíða lengi eftir afgreiðslu þessara l. úti um land, er engum um að kenna nema ríkisstj. sjálfri. Á dagskránni eru 2 frv., sem eiga nokkra samleið, og er ekki gott að ræða annað, nema minnast á hitt um leið. Vænti ég, að hæstv. forseti virði mér til vorkunnar, þó að ég komi almennt inn á bæði málin.

Það var látið í veðri vaka, einkum af framsfl., að verið væri að gera róttækar breyt. á skattalöggjöfinni, svo að í flestum tilfellum yrðu tekin 90% af stríðsgróða. Þetta er í raun og veru blekking, því að í frv. er svo langt frá því, að svo sé, að háu tekjurnar eru verndaðar, og er um þrenns konar skatt að ræða. Af tekjum yfir 200 þús. kr. eru tekin 10%, ef um einstakling er að ræða. Ef um hlutafél. er að ræða, þá 20%, sem fél. fær að leggja í varasjóð, og þá til viðbótar 10%, sem ekki er ætlazt til, að skattlagt verði, en ef um samvinnufél. er að ræða, 40% í varasjóð og svo 10%. Að vísu er þetta réttlátt, hvað samvinnufélög snertir, af því að ekki er heimilt að greiða varasjóð til meðlima við félagsslit. En það kastar tólfunum, þegar um stórútgerðarfél. er að ræða. Þau geta að verulegu leyti ráðstafað varasjóðnum, og þar að auki hafa þau eins og áður 5% af hlutafé sínu. Í c: lið 3. gr. l. er einmitt atriði, sem losar mjög um varasjóðstillag félaganna, þar sem teknar eru burt hömlur við því, að keyptar séu aðrar eignir en viðkomandi rekstrinum.

Nú er það svo, og það skal viðurkennt, að með till. Alþfl. var ekki gengið lengra en hér, en till. hans voru þó þær, að það, sem rynni í nýbyggingarsjóð, skyldi haldast þar undir umráðum opinberrar n. í þarfir eigendanna, en er nú sett undir stjórn atvinnufyrirtækjanna sjálfra. Þess ber að gæta, að þegar till. voru settar fram, óraði engan mann fyrir, hvílíkan geysigróða yrði um að ræða, og á tímum sem þessum er fullkomið álitamál, hvort þessa sjóði á að auka úr hófi fram.

Í þessum l. eru líka gerðar þær breyt., að arðsútborgun hefur engin áhrif á verð hlutabréfanna, og gæti það orðið til að ýta undir, að félögin greiddu óeðlilega mikinn arð. Að vísu þurfa hluthafar að greiða skatt af því, sem er fram yfir 5%, en það fer eftir atvinnutekjum eigenda, hvort þeim finnst það borga sig.

Þá vantar í þessi l. ákvæði til að koma í veg fyrir, að þetta fé í varasjóði sé sett í umferð. Það tíðkast sem sé upp á síðkastið, að sú aðferð sé höfð að selja hlutabréfin sjálf fyrir margfalt verð, og þá losnar allt það fé, sem áður var bundið hjá fyrirtækjunum. Nú kynni einhver að segja, að í 2. gr. séu settar hömlur við þessu, því að tiltekið sé, að greiða skuli tekjuskatt. En þá kemur það, að þessar tekjur eru skattfrjálsar, ef eigandi hlutabréfanna hefur gætt þess að hafa átt þau í 3 ár, áður en sala fer fram, og ef stríðið stendur nokkuð lengi enn, er hægur vandi að hafa eigendaskipti á þessum hlutabréfum.

Þá er enn eitt atriði, sem ég vil minnast á, sem sé ákvæðin um útsvarsskylduna. Það er tekið fram í l. um stríðsgróðaskatt, að 90% skuli tekin aðeins af tekjum upp að 200 þús. kr., en sveitar- og bæjarfél. verða að leggja öll útsvörin á þá borgara, sem hafa undir 200 þús. kr. Hins vegar hefur það oft komið fyrir hér, að orðið hefur að leggja útsvör m.a.s. á tapsrekstur. En þessi munur á milli þegna þjóðfélagsins er líka á milli þeirra, sem græða mikið, af því að félögin eru misstór.

Ég er síður en svo letjandi þess, að tekið sé ríflega af mönnum í ríkissjóð, en ég er viss um, að menn hljóta að verða óánægðir, þegar þeir sjá, hvílíkt misrétti er hér um að ræða eftir því, hvaða atvinnu menn stunda. Því að það er gefið, að til er atvinnurekstur annar en bara útgerðin, sem líka er áhættusamur.

Í 7. gr. frv. er lagt til, að við mat á eignum til eignarskatts skuli hlutabréf talin með nafnverði, ef hlutaféð er óskert, en annars með hlutfallslegri upphæð, miðað við upphaflegt hlutafé. Í grg. frv. eru forsvarsmenn þess fáorðir um þetta, segja bara, að það sé gert til að koma í veg fyrir tvísköttun. Við skulum athuga það nánar.

Ef við lítum á útsvarsskrá Rvíkur, sjáum við, að nokkrir borgarar, sem áður voru eignalausir, hafa mikinn eignarskatt. Það er ekki um það mikinn gróða að ræða, að þess vegna safnist eign, heldur stafar þetta af því, að skattan. hafa áður metið hlutabréfin eftir söluverði á hverju ári. Ég vil varpa fram þeirri spurningu, hvort hér er um samkomulag að ræða við einstaka. borgara í þjóðfélaginu. Ég get ekki séð, að hér sé verið að gera annað en að gefa nokkrum mönnum þá aðstöðu að geta samið af sér réttlátan eignarskatt.

Í nál. frá Nd. kom í ljós, að tveir meðlimir fjhn. voru á móti ýmsu í þessari löggjöf, en tóku það fram, að þeir vildu ekki bera fram brtt., af því að búið væri að semja.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að persónufrádráttur sé sá sami og í gildandi l., en það væri ekki nema eðlilegt, að hann væri hækkaður verulega, í samræmi við vísitöluna.

Frv. þessu verður vísað til n., sem ég á sæti í, svo að mér gefst betri tími til að athuga það þar, en ég vildi ekki láta 1. umr. líða hjá án þess að benda á megingallana, einkum þá hættu, sem felst í því að leggja útsvörin á þá, sem hafa undir 200 þús. kr. í tekjur. Væri ekki betra að stíga sporið til fulls og ákveða, að menn greiddu vissar prósentur af tekjum sínum í skatta?