07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Erlendur Þorsteinsson:

Hv. 1. þm. Eyf. endaði ræðu sína með því að segja, að stefna Framsfl. í skattamálum væri fullkomlega samkeppnisfær við stefnu Alþfl. og Sjálfstfl. Ég hafði nú álitið, að hann mundi vegna afstöðu sinnar og flokks síns til landsmála yfirleitt vilja telja stefnu sína og flokks síns í hvaða máli sem er fremur samvinnufæra en samkeppnisfæra, en samvinnufær er hún ekki, a.m.k. ekki við Alþfl. Það er svo með þennan hv. þm. eins og fleiri af hans flokksmönnum, að hann nálgast þá stefnu í þjóðmálum að vera frekar samkeppnisfær en samvinnufær. Ég ætla hér ekki að fara út í pólitíska raunasögu Framsfl., sem hv. 1. þm. Eyf. var að rekja, en eins og oft er, er sjaldan rétt hermt, þegar einn greinir.

Hv. 1. þm. Eyf. og hv. 1. þm. Reykv. vildu leggja þann skilning í orð mín, að ég væri á móti ýtarlegum undirbúningi frv., en það er langt frá, að svo sé. Ég vítti það, að innan flokkanna skyldi vera svo mjög gert út um þetta mál, að fyrir lægju opinberar yfirlýsingar um, að ekki þýddi að koma fram með mótbárur gegn þessum ráðstöfunum. Þetta liggur skýrt fyrir. Eins og sést á nál. fjhn. Nd. á þskj. 180, vildu þeir hv. þm. A.- Húnv. og hv. þm. Dal. bera fram till. til breyt., en þar sem búið sé að semja um málið, þá sjái þeir ekki þýða að flytja brtt. við það. Ég veit ekki, hvað er skýrara en þetta. Hv. þm. hafa með þessu viðurkennt, að þeir hafi allt aðrar skoðanir á þessu máli heldur en búið er að semja um, en ekki muni þýða að reyna að lagfæra það! Og við getum verið sammála um það, ég og hv. 1. þm. Reykv., að ef við ættum bifreið og hefðum 40–50 þús. kr. árstekjur og fengjum 15 þús. kr. á ári, skattfrjálst, til þess að endurnýja bifreiðina, þá mundum við þiggja það. Þetta er munurinn, sem verður á skattborgurunum. Að annar fær 30% skattfrjálst til síðari eigin notkunar, en hinn ekki neitt. Við getum ekki deilt um það, að það er sama fyrir fyrirtækið, hvort féð er lagt í varasjóð eða ekki. Það er alveg sama skattfrelsið, og þess vegna er það ekkert annað en blekking að tala um 90% skatt á þessum félögum. Þau hafa 40% skattfrjálst. Þessir peningar eru til staðar. Þeir geta keypt fyrir þá skip, þegar ófriðurinn er búinn, og þeim eru gefin þau forréttindi að ráða yfir atvinnutækjunum að ófriðnum loknum. Þar skilur milli mín og hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Eyf. Þeir líta á þetta sem sjálfsagt, en ég lít á það sem sérstöðu. Þessir menn hafa fengið þessa sérstöðu, af því að þeir réðu yfir framleiðslutækjunum á þessum tíma. Þess vegna eiga þeir að halda áfram að hafa þessi sérréttindi. Þessum mönnum á að vera tryggt, að eftir stríðið hafi þeir öll yfirráð atvinnutækjanna, en öllum öðrum er meinað að komast í þá aðstöðu vegna þeirra . forréttinda, sem nú skapast.

Ég held því fram, að þetta sé ekki rétt stefna, og þess vegna beri okkur að taka þetta fé, en ekki láta það til einstaklinga í þjóðfélaginu, til þess að þeir geti skaltað og valtað með það.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi, að ákvæðin í c-lið væru til þess að koma í veg fyrir það, að eigendur þessara hlutafélaga gætu veitt sjálfum sér hlunnindi. Ég er ekki á þeirri skoðun, að þeir mundu fyrst kaupa eignir lægra verði og láta svo kaupa af sér með hærra verði. C-liður segir aðeins, að ekki megi ráðstafa fénu til þess að kaupa eignir óeðlilega háu verði, en ég vil hafa grein um það, að peningarnir séu eingöngu notaðir í það, sem rekstrinum er nauðsynlegt. Það er mikilsvert atriði, þegar um er að ræða verðbólguna í landinu, að hafa féð sem allra mest bundið, þannig að það valdi ekki verðhækkun á hinum ýmsu eignum í þjóðfélaginu. Það má lengi deila um það, hvort þetta eða hitt sé rekstrinum viðkomandi, hvort t.d. félag eigi að kaupa jörð uppi í sveit til þess að framleiða kjöt handa verkafólkinu. — Hv. 1. þm. Reykv . talaði um, að stórblöð Bandaríkjanna ættu skóglendur. Allir vita, að viður er notaður í pappír, svo að það er talsvert nær rekstrinum heldur en það, ef Kveldúlfur kaupir jörð í sveit. Aðalatriðið virðist mér vera það, að binda þessar eignir, þ.e. að gefa ekki þessum mönnum ofan á skattfrelsið tækifæri til þess að keppa við aðra um eignir í þjóðfélaginu. Mér sýnist, að eftir nokkur ár geti þessi félög átt meiri hlutann af eignum landsmanna, þegar allir aðrir skattþegnar en hlutaféIög og samvinnufélög greiða 90% af tekjum sínum í skatta, hafa þeir ekki mikið til þess að kaupa fyrir. En þegar nú myndast þessir geysistóru sjóðir og peningamarkaðurinn er eins og nú, þegar ekkert er hægt að gera við peningana nema að láta þá liggja arðlausa í banka, þá er það mikil freisting að kaupa húseignir í kaupstöðum, jarðeignir í sveitum, veiðirétt í ám o.s.frv., þótt það sé greitt háu verði. Vitanlega er það alveg rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að ýmis önnur ákvæði eru um það, hvernig varasjóðunum skuli ráðstafað. Helmingurinn af þeim er bundinn, og hef ég hugsað mér að leggja fram brtt. um, að tryggt yrði, að 75% væri sett fast til nýbygginga. Þetta er ekki af því, að ég vilji veita þeim, sem hlut eiga að máli, nein forréttindi, heldur af því, að ég vil láta binda sem mest.

Út af till. minni um að fella niður 7. gr. og um tvísköttunina, má kannske um það deila, hvort um tvísköttun er að ræða, en hitt er víst, að ef 7. gr. verður samþ. óbreytt, komast menn hjá að greiða skatt af verðmætum, sem eru mikils virði. Það má vel vera rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að ef hann á hlutabréf, sem eru 100 þús., kr. að nafnverði, og selur mér þau fyrir 300 þús. kr., þá verði það hann, sem á næsta ári borgar af 300 þús. kr., en ég af 100 þús. kr., en svo lengi sem hann á hlutabréfin og ég peningana, nýtur hann skattfrelsisins. Ég álít, að eignarskattsákvæðið byggist á því, að eignarskatturinn sé lagður á eftir raunverulegu verðmæti. Þess vegna hlýtur það að vera sama eignin, þó að hún í dag sé 100 þús. kr. hlutabréf, en á morgun 300 þús. kr. í pextingum. En í fyrra tilfellinu er greiddur eignarskattur af 100 þús. kr., í því síðara af 300 þús. kr.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta: Hv. 1. þm. Eyf. lýsti yfir því, líklega fyrir sinn flokk (BSt: Nei, aðeins fyrir sjálfan mig.), að hann mundi samþykkja þetta frv., eins og það liggur hér fyrir. Mér þykir það næsta ótrúlegt, að hann og flokksmenn hans skuli vilja taka á sig ábyrgðina af því að gefa víssum mönnum eftir eignarskattinn. Ég get vel skilið það með suma sjálfstæðismenn, að þeir geri það, en mér finnst það ósennilegra með framsóknarmenn.