07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

55. mál, lækningaleyfi

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það hefur ekki komið fram neitt sérstakt hér í hv. d., sem ég hef ástæðu til að andmæla. En hæstv. forseti lýsti því af forsetastóli við fundarsetningu, að lögð hefðu verið fram á lestrarsal mótmæli gegn þessu frv. frá félagi læknanema við háskólann.

Það er rétt, sem hæstv. forseti tók fram, að á miðvikudaginn, síðast þegar hitt læknafrv. (nr. 50) var til umr., þá var þetta mál rætt líka, og ég gerði það vegna þess, að þessi mál eru mjög nátengd. En ég skal reyna að haga orðum mínum svo, að þau eigi nú aðeins við þetta frv., sem fyrir liggur.

Þessi andmæli, sem komu fram frá félagi læknanema við háskólann og hafa verið lögð fram á lestrarsal hv. þm. til athugunar, þau eru komin fram gegn þessu frv., sem fyrir liggur. Og þó að ég hafi ekki séð þau nú, eru þau mér nokkuð kunn af umr. við sendinefnd frá, þessu félagi, sem heimsótti nokkurn hluta allshn. á miðvikudaginn var. Sérstaklega eru tvær ástæður færðar fyrir þessum andmælum, að með þessu frv. sé lögð þvingun á læknanema, sem þeir vilji ekki sætta sig við, og það einkum vegna þess, að gert sér ráð fyrir að neyða þá til þess að gegna störfum úti í héruðum, þar sem laun séu óviðunandi, sem verði til þess að tefja fyrir þeim um tíma að ná því takmarki, sem þeir keppa að. Þessi andmæli gefa mér tilefni til þess að rifja nokkuð upp þær ástæður, sem fram eru færðar, hvernig búið er að þessum læknum í útkjálkahéruðunum, og þá sérstaklega að því, er launakjörin snertir. Og eftir þeim beztu heimildum, sem ég hef aflað mér, vil ég skýra þetta fyrir hv. deild.

Reykjarfjarðarhérað hefur verið og er nú læknislaust, og útlit er fyrir, að það verði læknislaust. Launin í þessu héraði eins og í öðrum héruðum í sama flokki eru þessi: Grunnlaun eru ákveðin í launal. 3500 kr. og aldursuppbót með 3–4 ára fresti, að ég hygg, 300 kr. og 300–400 kr., þannig að eftir h.u.b. 10 ár eru þau komin upp í 4500 kr. En allmörg undanfarin ár hefur þetta verið praktiserað þannig, að þeir, sem í héruðin fara, fá strax aldursuppbótina, þannig að launin eru ekki 3500 kr., heldur 4500 kr. Þeir, sem gegna embættum í þessum héruðum, fá svo dýrtíðaruppbót samkv. l., sem gilt hafa um nokkur ár, 25% á, að mig minnir, 4400 kr. Og reikni maður það, þá eru launin komin í 5600 kr. Eftir gildandi ákvæðum um verðlagsuppbót og eins og verðlagsuppbótin er ákveðin í dag, þá fá þeir svo 83% verðlagsuppbót á öll launin. Og þegar það er tekið með í reikninginn, þá eru launin komin upp í rúmar 10000 kr. Ég fæ ekki betur séð, en þetta séu sómasamleg laun sem byrjunarlaun og að sú ástæða sé því fallin, sem læknanemar hafa gegn þessari kvöð, að þetta sé svo illa launað, að ómögulegt sé að hlíta því. Ég skal geta þess, að í Reykjarfjarðarhéraði hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir að því, er snertir lyf og lækningatæki. Þau munu vera þar til á staðnum og verða afhent lækninum, þegar hann tekur héraðið. Ég get nefnt eitt enn, að í flestum þessum héruðum eru læknisbústaðir, sem læknar fá til afnota með mjög vægum kjörum. T.d. í Reykjarfjarðarhéraði er læknisbústaður, og leigan, sem læknirinn á að borga fyrir hann, er 1000 kr. á ári. Slík kjör mundu vera talin góð í Reykjavík. Sama er að segja um hin önnur læknishéruð, sem eru í þessum flokki. Launin eru þau sömu og aldursuppbót í þeim flestum, t.d. Hróarstungulæknishéraði. Og kjör læknisins um húsaleigu eru alls ekki lakari þar en í Reykjarfjarðarlæknishéraði.

Þá er að athuga hina mótbáruna, kúgunina til þess að gegna þessu starfi í allt að 6 mánuði og að verða við það fyrir töfum á braut sinni að settu takmarki, þ.e. því að verða læknar þar, sem meira er að hafa upp úr sér heldur en í þessum útkjálkahéruðum. Ég gæti þá látið mér detta það í hug, að það, sem menn keppa þá að, sé að verða praktiserandi læknar í Reykjavík eða öðrum bæjum, og það væri það, sem væri hér verið að stefna að að tefja þá frá. Ég er nú ókunnugur í Reykjavík og veit því ekki, hvernig það er fyrir lækna, sem koma frá prófborðinu, að komast að sem praktiserandi læknar í Reykjavík. Mér hefur verið sagt, að hér séu 60 læknar í Reykjavík. Ég veit það ekki fyrir víst, en gæti vel trúað því. En hvað sem því líður, þá er það víst, að það er býsna mikið af læknum hér í Reykjavík. Ég hef verið að reyna að grennslast eftir, hvað þessir praktiserandi læknar mundu hafa í tekjur á ári. Mér er sagt, að það sé ákaflega misjafnt, og er það sjálfsagt rétt. Aðalpraksísinn geri ég ráð fyrir, að sé bundinn við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Og mér hefur verið sagt, að það væri óhætt að telja það fullkomið meðallag, ef læknir gæti haft 1000 númer frá sjúkratryggingunni. Mér hefur líka v erið sagt — en ég þekki það ekki af reynslu — að fyrir hvert númer væru greiddar 14 kr. Þetta eru þá föst laun þessara manna. Þetta er mér sagt, að megi telja miðlungs fastar tekjur þessara manna, 14000 kr. Ef maður svo tekur 14000 kr. laun fyrir lækni hér í Reykjavík og ber saman við 10000 kr. laun læknis — í Reykjarfjarðarhéraði, þá held ég, að læknirinn í Reykjavík sé verr settur fjárhagslega heldur en læknirinn í Reykjarfjarðarhéraði. Því að þegar læknirinn í Reykjavík er búinn að greiða fyrir húsnæði handa sér, lækningastofu og kostnað við bíl, annaðhvort sem hann á sjálfur eða hann hefur samið við bílstjóra um að vera alltaf til taks, þegar hann þurfi á að halda, sem hann verður annars að gera, þá held ég að kjörin verði lakari fyrir lækninn í Reykjavík heldur en fyrir lækninn í Reykjarfjarðarhéraði. Þess vegna held ég, að ef þessi samanburður er gerður með fullri alvöru og vilja á að leita hins rétta, þá falli það þannig, að það sé síður en svo, að það sé verið að gera þeim mönnum óleik, sem þessi l. taka til, ef frv. verður samþ., með því að láta þá fara í þessi útkjálkahéruð. Ég geri nú ráð fyrir, að sumir praktiserandi læknar hafi meiri fastar tekjur en þetta, sem ég til tók. En ég geri ráð fyrir, að nýútskrifaðir læknar, sem koma beint frá skólaborðinu, geti ekki náð þeim launum strax, og ekki fyrr en eftir langa og stranga baráttu. Ég held því, að þessi andmæli frá Félagi læknanema við háskólann séu komin fram af misskilningi. Og mér er fyllsta alvara, þegar ég held því fram, að við, sem leggjum, fram þetta frv. hér, séum ekki að gera þeim með því óleik, heldur þvert á móti að opna augu þeirra fyrir því, að fyrir þá eru möguleikar að komast strax frá prófborðinu að stöðu, þar sem þeir geta unnið að þeim hugðarmálum, sem þeir hafa fyrir sig lagt. Og ég held, að það taki þá miklu lengri tíma en 6 mánuði að vinna sig upp í það að verða praktiserandi læknar, hvort sem er í Reykjavík eða í öðrum kaupstöðum landsins, til þess að ná í sultarlaun, sem kölluð eru, þegar um útkjálkahéruðin er að ræða. Ég held, að það geti tekið þá 6 ár. Og ég vil í fullri einlægni telja þessa menn á að fara út í héruðin og þjóna þar, ekki aðeins 6 mánuði, heldur 6 eða allt upp í 10 ár. Því að ég hef þá trú, að þeir verði þá orðnir sæmilega fjárhagslega stæðir menn og komnir vel á, veg á braut sinni.

Ég hygg, að andstaðan gegn þessu frv. sé á misskilningi byggð, og get ég því ekkí með beztu sannfæringu tekið gagnrök til greina á móti því. Ég held, að hér sé verið að vinna þarft verk fyrir þá menn, sem algerlega misskilja þetta mál. Ég taldi rétt, áður en málið færi úr d., að þessi samanburður kæmi fram, því að það hefur alltaf klingt gegnum allar þessar umr., að það væri ekki von, að læknar fengjust í þessi afskekktu héruð, vegna þess að launin fyrir að vera þar væru svo lág. Nei, ég hygg, að það sé eitthvað annað, sem gerir það að verkum, að andstaða er svo mikil gegn þessu frv. Og ég er sannfærður um, að eru sönn orð þess reynda læknis, sem ég hef minnzt á í umr. um þessi mál, sem sagði, að það mundu ekki vera launakjörin, sem gerðu það að verkum, að læknar fengjust ekki í þessi afskekktu héruð. En hvað því veldur, veit ég ekki. Ég held, að það sé algerlega misskilinn greiði við Iæknastéttina yfirleitt, að vera sífellt með þennan launabarlóm fyrir hennar hönd. Því að ég hygg, að það hafi komið fram fullur skilningur á því, bæði hjá heilbrigðisstjórninni og líka úti um land, að það eigi að búa vel að læknum, og ég álft, að það sé mjög sæmilega gert.

Ég vona þess vegna, að hv. d. láti þetta frv. ganga fram og fylgja. hinu læknafrv. Því að ef þetta frv. gengur fram, hygg ég,. að bót verði að samþ. hins frv. á þskj. 80.