09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

55. mál, lækningaleyfi

Einar Olgeirsson:

í sambandi við þetta frv. hefir nokkuð verið komið inn á læknaskipunina í landinu almennt. Ég ætla ekkert að fara að ræða hana, en mér virðist, að þau vandkvæði, sem á því eru að fá lækna í útkjálkahéruðin, stafi af því, hvernig hefur verið búið að þessum mönnum, þ.e.a.s., að laun þeirra hafa farið eftir því, hve margir menn væru veikir í héruðunum. Það, sem manni virtist vera — eðlilegast, væri það, að laun þeirra væru því meiri sem heilsufar væri þar betra, því að það væri læknunum hvöt til, að t.d. íbúðirnar væru ekki pestarholur, eins og á sér stað víða í Reykjavík. Hér er áberandi, hvað læknar hafa lítið gert til að berjast á móti þeim pestarholum, sem hér viðgangast. Þetta er nú almenn heimspeki í sambandi við það mál, sem hér hefur verið komið inn á.

Annars held ég, að ef farið er að athuga heilbrigðismál og læknalaun almennt, að mætti hafa það bak við eyrað, hvort ekki væri þörf á róttækari ráðstöfunum en þeim, að bæta launin í útkjálkahéruðunum, sem vafalaust er rétt, eins og hæstv. forsrh. hefur haldið fram.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið, er sú, hversu erfitt er að fá aðstoðarlækna í læknishéruð út um land. Af hverju er það erfitt? það er af því, að þeim hefur verið borgað of lítið. Það hefur verið upplýst, að það séu meira að segja til þau héruð, sem enginn læknir hefur fengizt í, og þar sem þó hefur ekki verið læknislaust, hafi alveg vantað vinnukraft til að koma af þeim störfum, sem læknum er skipað að gegna. Það virðist enn. fremur vera samkomulag um, að þessi vinnukraftur fáist ekki af því, að hann sé of lítið borgaður. Manni virðist almennt séð frá heilbrigðu sjónarmiði, að þar sé eitt ráð, að borga það vel, að menn fái þennan vinnukraft, það eru ekki nema tvær leiðir til að leysa svona vanda. Önnur er sú að borga það, sem þarf, en hin er sú að beita þvingun, sem sé að koma á þrælahaldi í landinu. Það er einkennilegt, að þegar svona mál koma fram á þingi hvað eftir annað, þá skuli alltaf vera valin sú leiðin að skylda menn með l., skylda ákveðnar stéttir manna til að gegna störfum, sem stj. leggur fyrir hana.

Nú er það svo, að þegar stúdentar útskrifast, þá er þeim upp á lagt að vinna eitt ár til þess að komast inn í sitt starf. Nú á að bæta hér við 6 mánuðum. Læknastéttin mun vera eina fagstéttin frá háskólanum, sem slík vinnuskylda er lögð á herðar. Lögfræðingum er ekki skipað að fara út meðal fólksins og kenna því, hvað eru lög í landi, sem væri þó ekki vanþörf. Guðfræðingum er því síður sagt að fara og prédika fyrir mönnum kristindóm og góða siðu. Læknarnir eru þeir einu, sem hafa þessa skyldu, og nú eiga þeir að bæta við sig 6 mánuðum með þeim launakjörum, sem ríkisfyrirtækjunum þykir rétt að bjóða sínum sendisveinum. Þetta nær engri átt. Þetta er óréttur gagnvart læknum og röng leið til að leysa slíkt vandamál.

Hvað mundi þetta þýða fyrir sveitirnar? Halda menn, að það væri heppilegt fyrir sveitirnar að senda menn þangað til að vinna þar samkv. valdboði þennan örskamma tíma, og þeir séu hálfneyddir til að vinna þar þau störf, sem mikillar alúðar þarf við? Hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir sveitirnar? Þær mundu fá lækni í 8 mánuði, sem færi burt á augabragði og þessi skyldutími væri á enda, og í staðinn mundi koma annar, og hann færi alveg eins að. Ég er undrandi yfir því, ef þeir, sem telja sig fulltrúa dreifbýlisins, gera sér þetta að góðu. Mig furðar á því, ef þeir gera ekki harðar kröfur um, að læknar þar séu nægilega vel launaðir. Með því að hafa þá lágt launaða og beita þvingun, er tryggt, að alltaf verða lélegustu læknarnir úti í sveitunum. Fulltrúar sveitanna verða að segja: „Ríkið hefur næga peninga til þess að borga. nógum læknum vel úti í sveitunum:“ En með þessu frv. er ekki verið að finna heppilegustu lausnina, heldur þá óheppilegustu, sem hægt er að finna.

Hvað snertir ríkisafstöðu þeirra ungu embættismanna, sem hér er um að ræða, þá verð ég að segja, að það liti öðruvísi út með að gera sterkar kröfur til manna, sem útskrifast úr háskólanum, ef ríkið hefði að öllu leyti kostað þessa menn, ef ástandið væri þannig við menntaskólann og háskólann, í fyrsta lagi, — að hver maður, sem til þess hefði andlega hæfileika, gæti komizt inn í þessar stofnanir, og efnahagur hefði þar ekkert að segja, og í öðru lagi að þessir námsmenn fengju styrk frá ríkinu til að halda sér uppi, meðan þeir eru að nema, svo að efnahagur skyldi ekki verka á nám þeirra, svo að þeir þyrftu ekki að þræla sig áfram eins og nú. Ef þetta væri gert, þá væri eðlilegt, að ríkið gerði kröfur til þessara manna. En nú er það þannig, að efnuðustu mennirnir hafa sérréttindi til að láta börn sín ganga þessa leið. Á þann hátt velst varla af betri endanum, eða a.m.k. er það tilviljun, hverjir veljast til að gegna þessum störfum. Margir, sem góðum hæfileikum eru gæddir til að ganga þessa leið, en eru fátækir, komast ekki að, sérstaklega eftir þá miklu takmörkun, sem sett hefur verið og öllum er kunn. Og þeir, sem ganga þessa leið og eru af fátæku fólki komnir, eru venjulega þrælskuldugir eftir námið, nema þeir séu svo heppnir að fá uppgripavinnu á sumrin, en venjulega hefur verið mjög erfitt fyrir þá að fá góða vinnu. Meðan þetta ástand ríkir, að það verður að ráða, hverjir ganga menntaveginn, hversu efnaðir þeir eru eða hversu gott lánstraust þeir hafa eða aðra möguleika til náms, þá er ekki um annað að ræða fyrir ríkið en að láta þessa samkeppni halda áfram, eftir að námi er lokið, og borga þessum mönnum, sem koma út úr skólunum og hafa klifið til þess þrítugan hamarinn, svo vel, að þeir geti lifað.

Þess vegna held ég, að það, sem eigi að gera í sambandi við þessi frv., sé að fella þetta frv. á þskj. 92, sem setur læknakandídötum það skilyrði, að þeir verði að vinna aðstoðarlæknisstörf í 6 mánuði, en breyta frv. á þskj. 80 þannig, að gert sé ráð fyrir betri launum en nú er gert, svo að tryggt sé, að hægt sé að fá menn til að gegna þessum störfum.