15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

84. mál, jarðræktarlög

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Frv. það, sem landbn. flytur hér á þskj. 161, er enginn nýr gestur í hv. d., því að sama frv. eða frv. hliðstætt því var flutt hér í d. í fyrra og fór umr., laust gegnum tvær umr., en dagaði þá uppi.

Ég vil því skýra frv. nú fyrir hv. dm. og breyt. þær, sem lagt er til, að gerðar verði. Ég skal fyrst geta þess, sem af vangá er ekki tekið fram í nál., að hv. þm. Seyðf. var ekki á fundi, þegar málið var afgreitt, þannig að hann er ekki bundinn við frv. eins og aðrir nm., en hins vegar skal ég geta þess, að fulltrúi Alþfl. í n. í fyrra, hv. þm. V.-Ísf., var frv. þá fylgjandi að mestu leyti.

Eins og hv. þm. er kunnugt, voru jarðræktarl. fyrst sett 1923, og er óhætt að fullyrða, að þau hafi síðan verið grundvöllur að öllum ræktunarframkvæmdum í landinu, enda jukust þær stórlega, þegar sú löggjöf var sett. Það mun vera búið að greiða úr ríkissjóði 8–9 millj. kr. í jarðræktarstyrki, eða nærri lætur, að um 1/2 milljón hafi verið greidd árlega að meðaltali. Styrjöldin hefur hins vegar dregið mjög úr framkvæmdum, svo að s.l. ár voru þær ekki nema um 1/3 hluti þess, sem var fyrir stríð. Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði: 1914–18, eða á styrjaldarárunum fyrri, var það sama uppi á teningnum. Jarðræktarframkvæmdir minnkuðu þá um meira en helming, og ekki voru þær komnar í sama horf og fyrir stríðið fyrr en 1923–24. Nú er þjóðin í enn meiri hættu en þá. Nauðsyn þess að tryggja framkvæmdir í jarðrækt er enn þá brýnni nú. Og það verður að stuðla að því á allan hátt, að menn rækti landið og það verður bezt tryggt með því, að löggjöfin sé þannig úr garði gerð, að jarðræktarmenn sjái, að þeir njóti réttmæts stuðnings hins opinbera. Það er því ekki að ófyrirsynju, að jarðræktarlögin hafa nú verið tekin til endurskoðunar og reynt að bæta úr helztu göllum þeirra og samræma þau, þannig að allir megi vel við una. Ég vil í þessu sambandi benda á eitt atriði, sem kom fyrir, þegar lögin frá 1936 voru prentuð. Þá féll niður ein gr. úr lögunum, sem mun hafa verið 57. greinin, greinatalan hefur því ruglazt í samræmi við það. Þessi grein fjallaði um, að lögin skyldu tekin til endurskoðunar á 5 ára fresti. Hæstv. forseti þessarar deildar benti mér fyrst á þetta. — En þó að þessi gr. hafi á þennan hátt fallið niður, hefur nú samt ákvæði hennar verið framfylgt, þ.e.a.s. á búnaðarþingi 1939 var í samráði við landbrh. skipuð þriggja manna milliþinganefnd til þess að endurskoða jarðræktarlögin. Nefndina skipuðu þeir Jón bóndi á Reynistað, Hafsteinn bóndi á Gunnsteinsstöðum og Þorsteinn bóndi að Vatnsleysu. Þessi nefnd starfaði svo að endurskoðun laganna og lagði síðan fram frv. fyrir búnaðarþing 1941.

Búnaðarþing gerði lítils háttar breytingar á frv. nefndarinnar og sendi það síðan Alþingi. Landbn. Nd. hefur svo einnig gert á því nokkrar breyt. ýtarleg grg. fylgir hér frv., og er því ekki þörf mikilla skýringa, enda mun ég hér aðeins drepa á örfá atriði, er snerta aðalbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir á l. frá 1936.

Fyrsta breyt. er við II. kafla laganna, sem fjallar um styrki til jarðræktar- og húsabóta. Breytingarnar eru við 9. gr. Aðalbreyt. er sú, að styrkir til framræslu eru hækkaðir frá því, sem áður var. Mun hækkunin nema nál. 25%, en er dálítið breytileg eftir því, um hvers konar framræslu er að ræða (opna skurði eða lokræsi). Þessi breyt. stafar af því, að reynslan hefur sýnt, að styrkir til framræslu eru of lágir, miðað við aðrar framkvæmdir. Það hefur svo haft þær afleiðingar, að jörðin er ræst fram miklu verr en skyldi. Ég lít svo á, að hér sé um mjög hóflega hækkun að ræða, og orkar tvímælis, hvort hún sé ekki of lítil.

Styrkur til jarðvinnslu er mjög lítið breyttur, t.d. viðvíkjandi græði- og sáðsléttum. Þó er um eitt nýmæli að ræða, að sérstakur styrkur er veittur fyrir sáðsléttur, sem hafa 1–2ja ára forrækt, þ.e.a.s. hafa verið í ræktun 1–2 ár, áður en grasfræinu er sáð. Reynslan hefur sýnt, að þessi aðferð gefur langbeztan arangur, og er auðsætt að stefna ber að því, að þessi aðferð nái sem mestri útbreiðslu.

Aðrar breytingar eru tiltölulega litlar, nema styrkir til votheysgryfja hafa verið hækkaðir nokkuð. Áður voru þeir kr. 2.50 á teningsmetra steyptra votheyshlaða, en hér er gert ráð fyrir, að styrkurinn verði kr. 3.50–4.00 á teningsmetra. Þetta er gert út frá þeim forsendum, að nauðsynlegt sé, að notkun votheysgryfja fari í vöxt.

Þetta eru höfuðbreytingarnar á styrkveitingum til jarðræktarframkvæmda. Í sambandi við þetta vil ég svo geta þess, að í 2. gr. er lagt til, að ríkissjóður greiði verðlagsuppbót á jarðræktarstyrki, eftir því sem meðaltal vísitölu kauplagsnefndar segir til. Landbn. vill í því sambandi taka fram, að henni finnst sjálfsagt, að verðlagsuppbætur verði greiddar á styrki ársins 1941, samkv. vísitölu kauplagsnefndar, eða með 60%, því að það mun vera meðaltal vísitölunnar 1941. Ég sé, að hv. þm. Seyðf. er nú kominn í d., og vil ég geta þess, að hann var ekki á fundi, þegar. landbn. afgreiddi frv., og er hann því að sjálfsögðu á engan hátt bundinn við það álit landbn., sem hér er lagt fram. Hins vegar starfaði fulltrúi Alþfl. í landbn. í fyrra, hv. þm. V.- Ísf., að þessu frv.

Í sambandi við breyt. á II. kafla vil ég nefna eitt atriði enn, þó að það snerti ekki frv. beint, en það er hin margumdeilda 17. gr., sem allir hv. dm. kannast við af þeim umræðum, sem fram hafa farið um það mái.

Eitt af því, sem mþn. búnaðarþings vann að, er hún var að endurskoða jarðræktarlögin, var að komast að samkomulagi um 17. gr., sem fjallar um kvaðir á jarðræktarstyrknum. Nefndin komst að samkomulagi sín á milli og lagði fram sérstakt frv. þar að lútandi fyrir búnaðarþingið, sem hún nefndi frv. um sölugjald af jörðum og átti að koma í stað 17. gr. — Ég var þessu frv. fylgjandi, en á búnaðarþingi náðist ekki samkomulag um frv. Eigi hefur heldur náðst samkomulag um þetta atriði í landbn. þessarar d., en það mun nú frekar athugað undir umr. í þessari hv. d., og eru einstakir nm. algerlega óbundnir um þetta atriði.

3. kafli laganna frá 1936, er fjallar um félagsræktun, er gerbreyttur, en nú eru það 8.–11. gr., sem fjalla um það efni. Þessi kafli fjallaði um skipulag félaga, sem vinna að ræktunarmálum. Er það einkum í kringum bæi og kauptún, sem um slíkt er að ræða. Þær breyt., sem hér er um að ræða, eru góðar og stefna að meira öryggi fyrir þennan félagsskap. Að öðru leyti er ekki ástæða til þess að fjölyrða um þetta. Það er auðvelt að bera saman 3. kaflann í l. frá 1936 og 8: 11. gr. þessa frv.

4. kafli, um verkfærakaupasjóð, er gerbreyttur nú, og eru það gr. 12.–17., sem fjalla um hann nú. Þessir sjóðir hafa verið þannig myndaðir, að þeir hafa verið séreign hreppabúnaðarfélaganna, því að ríkisstyrknum hefur verið skipt á milli þeirra. Þau hafa síðan í framkvæmdinni alveg ráðið yfir þessum sjóðum. Þetta skipulag hefur reynzt erfitt og ekki heppilegt. Sum hreppabúnaðarfélögin hafa safnað gildum sjóðum, önnur hafa ekki getað staðið straum af nauðsynlegum kostnaði.

Mþn. og búnaðarþing álitu því nauðsynlegt að breyta þessu. Skv. þessu frv. eru þessir sjóðir hér eftir gerðir að einum allsherjarsjóði fyrir allt landið. Að sjálfsögðu halda þau félög, sem nú eiga sjóði, þeim áfram. — Þetta er alger skipulagsbreyting, og hygg ég, að hún reynist heppilegri í framtíðinni.

Á 5. kafla l., sem fjallaði um vélasjóð, hafa verið gerðar allmiklar breyt. Eru það nú 18.–26. gr. í þessu frv., er koma í stað 5. kaflans. Aðalbreyt. er sú, að lagt er hér til, að þessi sjóður fái meira fé en undanfarið, því að tekjurnar hafa reynzt allsendis ónógar. Lagt er hér til, að ríkissjóður leggi honum 25 þús. kr. á ári hverju. Starfsemi sjóðsins er tvískipt. Hann á:

1. að lána fé til kaupa á landbúnaðarvélum, og 2. að kaupa nýjar vélar í tilraunaskyni. Okkur Íslendinga hefur vantað mjög tilfinnanlega vélar til framræslu. Við eigum, ómetanlega fjársjóði fólgna í mýrunum okkar, en 3etum ekki haft þeirra not, nema mýrarnar verði framræstar í stórum stíl, en það er ekki hægt án véla. Slíkar vélar eru nú að koma á markaðinn, og hefur mér gefizt kostur á að sjá þær hjá ameríska setuliðinu, sem hér er, hvernig þær vinna. Leikur enginn vafi á, að hér er um vélar að ræða, sem eiga eftir að hafa gífurlega þýðingu fyrir jarðræktina hér á landi. Það á að vera hlutverk sjóðsins að kaupa og gera tilraunir með þessar vélar, svo og , að veita lán til slíkra vélakaupa. Þetta er ef til vill allra merkasta nýmælið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég hef nú stiklað hér á stóru og aðeins drepið á helztu atriðin í frv., því að eins og ég sagði áðan, fylgir frv. svo ýtarleg grg., að ekki er þörf langra skýringa, en ég taldi hins vegar rétt að drepa á helztu nýmælin, sem líkleg eru til þess að valda straumhvörfum í íslenzkum landbúnaði og jarðrækt.

Ég vil að lokum geta þess, að landbn. leggur áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. T.d. það ákvæði frv., að verðlagsuppbót verði veitt á jarðabótastyrkinn, er svo sjálfsagður hlutur, að þetta Alþ. getur ekki slitið störfum án þess að ganga svo frá því, að tryggt sé, að jarðræktarmenn fái verðlagsuppbót greidda á styrkinn 1941, sem á að greiða í þessum eða næsta mánuði.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. Til n. sé ég ekki ástæðu til að vísa því, þar sem það er frá nefnd.