16.05.1942
Efri deild: 59. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Það er nú ekki vert að fara að hefja deilur um þetta mál, þar sem allir virðast eiginlega vera sammála um kjarna þess, þann, að það sé rétt að leggja fyrir fé af þeim óvenjulega stóra sjóði, sem ríkissjóður hefur nú að geyma, sem er tekjuafgangur frá árinu 1941, þangað til versnar í ári. En það er aðeins þetta, sem hæstv. atvmrh. hefur ekki trú á eða, finnst óþarft að vera að setja nokkrar sérstakar reglur um það, hvernig eigi að leggja þetta fé til hliðar, heldur segir hann, að það megi bara geyma það í þeim venjulega ríkissjóði og svo megi grípa til þess, ef þörf gerist á því. En ég vildi þá spyrja þennan hæstv. ráðh. að því, hvort honum finnist það hafa verið tóm vitleysa hjá okkar forfeðrum, án þess þó að nokkurt slíkt happ bærist þeim í hendur eins og nú í hendur ríkissjóðs, þegar þeir stofnuðu viðlagasjóðinn gamla. Man hæstv. atvmrh. ekki til þess að hafa lesið um það, að fé viðlagasjóðs hafi komið að góðu gagni? Og hefur hæstv. ráðh. trú á því, að það fé hefði verið jafnlengi fyrir hendi, ef sjóðurinn hefði ekki verið stofnaður. Ég held, að reynslan um viðlagasjóðinn gamla skeri alveg úr um það, að það er þó ofurlítil trygging í því, þegar mikill tekjuafgangur er, að taka fé til hliðar og eyða því ekki fyrr en í fulla hnefana. Hæstv. atvmrh. segir, að hæstv. Alþ. hafi svipaðan ráðstöfunarrétt á þessu fé framkvæmdasjóðsins, ef frv. verður samþ., eins og þó að það lægi í ríkissjóði og milli þess og ríkissjóðs að öðru leyti væri ekki aðskilinn fjárhagur. Mér finnst þetta ekki vera rétt. Því að ég sé ekki annað en að það hlyti að vera hemill á fjárkröfur hv. þm. og annarra á hendur ríkissjóði, að þetta fé væri beinlínis ekki nú á næstu árum ætlað til að eyðast, heldur til að geymast. Og ég sé ekki, að samkvæmt l. væri það í sjálfa sér heimilt að ráðstafa þessu fé með einföldu lagaákvæði. Þetta finnst mér vera töluverður munur frá því að geyma fé þetta á þann hátt, sem hæstv. atvmrh. vill. En það er náttúrlega eðlilegt, eins og nú er komið, að þessi hæstv. ráðh. treysti hæstv. ríkisstjórn bezt til þess að geyma þessa peninga með því að hafa þá undir sinni hendi, án þess að ríkisstjórnin sé bundin í því efni með l. Ég ætla nú ekki að bera hér fram neitt vantraust til þessarar nýju stjórnar. En ég verð að segja það, að ég álít það öruggara að hafa þá skipun á, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að taka þetta fé til hliðar á þennan hátt.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að kreppa getur skollið á fyrr en stríðinu er lokið, og það geta orðið hér vandræði fyrr en stríðinu er lokið. En það er bara þetta, að frv. miðar við stríðslok vegna þess, að þó að hér komi alls konar vandræði áður en stríðinu er lokið, þá er ekki í fljótu bragði hægt að sjá, hvernig úr þeim vandræðum er hægt að bæta með peningum. Ég veit náttúrlega ekki, hvernig þá kreppu mundi bera að höndum, sem kynni að koma, meðan stríðið stendur. En kæmi slík kreppa, eru langmestar líkur til, að hún kæmi þá vegna siglingaerfiðleika, þannig að vörur og alls konar efni fengist ekki flutt hingað til landsins. Og þá væri í raun og veru lítið hægt að bjarga því ástandi við með þessum sjóði. Þess vegna er það, að það er einmitt miðað við það í frv. að reyna að endurreisa atvinnuvegi þjóðarinnar að stríðinu loknu, því að það sjá allir menn, að hverju muni bera hér, þegar stríðið hættir. Þó er ég ekki með þessu að segja, að ég mundi ekki taka til velviljaðrar athugunar breyt. á frv., sem gengju í þá átt, að grípa mætti til þessa fjár til þess að afstýra alveg sérstökum vandræðum, meðan á stríðinu stendur, ef það þá væri hægt með því móti.

Annars er það undarlegt, að það á að vera eitthvað alveg sérstakt með ríkistekjurnar og ríkissjóðinn. Það er varla til það hlutafélag eða samvinnufélag eða yfirleitt fyrirtæki, að það komi sér ekki upp varasjóði. Meðferð sumra slíkra varasjóða er að vísu bundin dálítið með landslögum, svo sem t.d. samvinnufélögin. En það eru líka félög og fyrirtæki í landinu, sem ekki eru bundin neinum ákvæðum um varasjóði, sem samt hafa varasjóði. Þau hafa því ráðstöfunarrétt yfir varsjóðum sínum, alveg eins og hæstv. Alþ. mundi hafa yfir þessu fé, sem hér í frv. er gert ráð fyrir að leggja til hliðar. En samt telja þau tryggara að hafa þessa varasjóði, þannig að þau taka fé til þeirra úr atvinnurekstrinum til þess að tryggja framtíð sína. Það er einkennilegt, ef þetta er af öllum talið rétt um „prívat“ fyrirtæki og félög, að þá skuli það vera tóm vitleysa, ef ríkissjóður fer eins að, þegar hann á kost á því.

Hv. 11. landsk. hefur borið hér fram brtt. á þskj. 420, og hann sagði, að það væri um hana, sem hann greindi á við mig. Þetta er nú ekki alls kostar rétt. Ég hef ekki látið í ljós neina andstöðu vegna þessarar brtt. hans. Hann sýndi mér hana, áður en hann sendi hana í prentun, og það er að vísu rétt, að ég vildi ekki gerast meðflm. að henni, af ástæðum, sem ég kem síðar að. En hvað till. sjálfa snertir, er langt frá því, að ég hafi nokkuð á móti henni efnislega. Ég álít einmitt, að fé framkvæmdasjóðs eigi að verja m.a. til þeirra framkvæmda, sem till. hans greinir. Hitt er aftur annað mál, að ég tel ekki nauðsynlegt að breyta frv. á þennan veg, og er það m.a. vegna þess, að það var svo greinilega tekið fram í grg. frv., þegar það var fyrst borið fram, á haustþinginu, og líka, að ég ætla, fræðum hv. flm. þess í hv. Nd., að ætlazt væri til, að fé sjóðsins, þegar til kæmi, yrði varið til slíkra framkvæmda, sem talað er um í brtt. Þessu var ekki mótmælt, og mér finnst maður mega treysta því, að svo verði gert. Ég mun ekki greiða atkv. gegn þessari till., og ég mundi greiða atkv. með henni og meira að segja bera fram viðaukatill. við hana, ef ekki stæði svo á, að þessu mjög svo þýðingarlitla þingi er að verða lokið. Ef farið yrði að breyta frv., mundi það náttúrlega tefja framgang þess og tefla því í nokkra tvísýnu sökum tímaskorts. (ErlÞ: Hv. frsm. hefur breytt því sjálfur.) Rétt er það. En það er um svo sjálfsagt atriði, eins og komið er, að telja má alveg víst, að hv. Nd. fallist á þá breyt. Aftur á móti gæti þessi till. valdið ágreiningi. Af þeirri ástæðu, og með því líka, að ég tel till. þessa í raun og veru ekki nauðsynlega, þá hefði ég talið réttara, að hún kæmi hér ekki fram. Þó mun ég ekki greiða atkv. gegn henni, en verði hún samþ., þá mun ég við 3. umr. málsins að öllum líkindum bera fram viðaukatill. við hana, um nokkur fleiri atriði, sem mér finnst, að alveg eins megi nefna eins og þau, sem till. greinir.

Hv. 10. landsk. var að tala um það, að það væri engin trygging fyrir því, að afkoma ríkissjóðs yrði svo góð til stríðsloka, að ekki gæti verið nauðsynlegt að grípa til þessa fjár fyrr. Það, sem er tilgangur hv. flm. og annarra, sem að, þessu frv. standa, er, að þeir álíta, að þörf ríkissjóðs fyrir fé að stríðinu loknu verði svo rík til þess að rétta við atvinnuvegi þjóðarinnar, að það sé þinganna, sem haldin verða til stríðsloka, að sjá ríkissjóði fyrir nægilegum árlegum tekjum. Ég veit það, að einmitt af því, að þetta fé er nú fyrir hendi, þá mun, ef peningaflóðið inn í ríkissjóð minnkar, verða miklu auðveldara að grípa til þess árlega til venjulegra þarfa ríkisins, ef það er haft í ríkissjóði, heldur en ef það er geymt í slíkum varasjóði, eins og með þessu frv. er lagt til. Svo að þetta finnst mér því vera stuðningur við minn málstað og okkar, sem í meiri hlutanum erum.

Hv. 10. landsk. minntist líka á skuldir, sem enn væru í Bretlandi. Það er náttúrlega rétt og sjálfsagt að greiða þær, þegar það er leyfilegt og hægt, en ég hygg, án þess að ég ætli að fara út í það mál, að af öðrum ástæðum muni verða fullt eins hentugt að taka lán til þess að greiða þær skuldir. Íslenzkir bankar og einstaklingar eiga ekki einasta svo mikið fé úti í Englandi sem ríkisskuldunum nemur, heldur mörgum sinnum meira, og ég fæ í fljótu bragði ekki betur séð en að það yrði öllum aðilum haganlegast, að lán yrðu tekin af þessu fé til þess að greiða skuldir ríkissjóðs í Englandi og færa þær með því í hendur innlendra manna eða stofnana. Ég býst við, að það sé hægt að breyta lánunum þannig, þó að ríkissjóður eigi að vísu sjálfur fé til þess að breyta því í enska mynt á sama hátt. En það þýðir bara það, að taka verður ný lán að stríðinu loknu til þess að reisa við það, sem ætlazt var til, að framkvæmdasjóður ríkisins reisti við í atvinnulífi þjóðarinnar. Og ég veit þá ekki, hvort það munar svo miklu, þó að skuldirnar lækki raunverulega á stuttu árabili. Og á allan hátt finnst mér vera töluverð trygging í þessum ráðstöfunum, þó að ég játi það með hæstv. atvmrh. og hv. 10. landsk., að Alþingi hafi náttúrlega vald yfir þessu á hverjum tíma. Það getur farið illa nei þessar ráðstafanir, sem nú eru gerðar, ef frv. verður að lögum, en þannig er það með allt, sem við samþ. hér og ákveðum, að næsta þing getur gert það allt að engu.