18.05.1942
Efri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Hv. þm. Vestm. á hér brtt., sem hæstv. forseti lýsti hér, sem um það, að l. nr. 82 frá 9. júlí 1941 skuli numin úr gildi. Hv. þm. Vestm. hefur nú verið veikur og er það enn og hefur því ekki getað komið hingað á fund. En eins og hv. þdm. muna, beindi hann til þáv. hæstv. viðskmrh. nokkrum fyrirspurnum í sambandi við þessa brtt. og kvaðst mundu taka hana aftur, ef hann fengi fullnægjandi svör frá hæstv. ráðh. um það, sem hann spurði þar að. Þessi svör hafa nú ekki fram komið. En ég hef átt lítillega símtal við hv. flm. brtt. og vil segja það, að ég mun fyrir mitt leyti leitast við að setja mig inn í það spursmál, sem fyrirspurnin var um, svo fljótt sem ég get því við komið. Ég býst við, að öllum hv. þm. þyki það eðlilegt, að ég sé ekki búinn að gera það nú þegar. Og ég hef sagt hv. þm. Vestm., að ég muni taka spurningar hans til athugunar, sem voru sérstaklega um gjaldeyri þeirra fyrirtækja, sem hafa lent í því að fá sinn enska gjaldeyri svo að segja allan bundinn, þannig að þau standa uppi eiginlega gjaldmiðilslaus til að greiða skatta og annað. Ég mun taka þessar fyrirspurnir hv. þm. Vestm. til velviljaðrar athugunar í sambandi við þær athuganir, sem gerðar verða í þessu máli í heild sinni. Því að það er ekki ástand, sem getur verið til frambúðar, að taka þannig lítinn part af þeim erlenda gjaldeyri, sem myndazt hefur ytra, og binda hann, en láta annað af gjaldeyrinum vera laust. Ég hef tjáð hv. flm. brtt., þm Vestm., þessi svör mín, en að vísu eru nokkuð óákveðin, en þó svo ákveðin, að ég held, að óhætt sé að skila því til hæstv. forseta, að hv. þm. Vestm. taki brtt. aftur.