19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

141. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Bjarni Bjarnason:

Ég get að vísu viðurkennt rétt þeirra, sem að þessum skólum standa, til þess að ráða mestu um það, hvernig fyrirkomulag þar er haft, en þó hafði mér á sínum tíma, þegar ég beitti mér fyrir því að fá l. um húsmæðrafræðslu í sveitum, ekki dottið í hug, að andúð kæmi á móti því að hafa skóla fyrir æsku landsins hvern nálægt öðrum. Við, sem vorum hvatamenn að þessu máli á þeim tíma, lögðum það til, að húsmæðraskólarnir yrðu reistir nálægt héraðsskólunum eða á sama stað, og hv. landbn., sem þá fjallaði um þetta mál, var einnig þeirrar skoðunar. En mér var hins vegar kunnugt um það, að úr þessu héraði, Borgarfirði, höfðu komið fram óskir um það, að skólinn yrði ekki reistur í Reykholti, eins og gert var ráð fyrir í l., heldur annars staðar og mér var einnig kunnugt um það, að þessi skoðun byggðist á því, að það væri óhollt fyrir nemendur þessara skóla að hafa mikinn samgang hver við annan. Auk þess, sem ég tel þetta barnalegt sjónarmið, þá finnst mér sú reynsla, sem ég hef í þessum efnum, að piltar og stúlkur nemi saman, benda til þess, að það geti haft marga kosti, svo að mér finnst ekki koma til greina að fjarlægjast það form. Að vísu má segja það, að það sé að sumu leyti erfitt að stjórna þessum skólum, ef ekki er hugsað um að hafa góða og fullkomna reglu, því að það leiðir af sjálfu sér, að aldursskeiðið frá 16–20 ára hefur oft óróa í för með sér hjá mörgum einstaklingum. En ég veit ekki, hvar slíkar kenndir eru undir öruggari aga heldur en einmitt undir handleiðslu góðra skóla. Ég er sannfærður um það, að þau óþægindi, sem stafa af því að láta pilta og stúlkur nema saman, eru hverfandi lítil í samanburði við það, sem vinnst með því. Af þessum ástæðum er ég andvígur þessari breyt., sem hér er farið fram á. Í öðru lagi hefur það stórkostlega fjárhagslega þýðingu að reisa skólana á sama stað, aðalskólahúsin verða að sjálfsögðu hin sömu, en sameiginlega má nota leikfimishús, sundlaug og að allverulegu leyti kennslukrafta. Það gefur augaleið, að tveir eða fleiri skólar á sama stað geta miðlað kennslukröftum á milli sin þannig, að skólarnir verði miklu fullkornnari heldur en ef þeir eru einangraðir hver frá öðrum. Af þessum tveim ástæðum, sem ég hef nú greint, tel ég þessa breyt. á l. óþarfa. Hins vegar skal ég ekki fara að beita mér á móti þessu máli, ef þetta hérað hefur svo mikla ótrú á því að leyfa umr. fólkinu að menntast saman. Hins vegar hef ég bent á þá kosti, sem því fylgja í fátæku þjóðfélagi, þar sem flestir skólar eru óreistir, að skólarnir standi sem flestir saman, svo að hægt sé að nota sem flest sameiginlega, svo sem leikfimishús, sundlaugar og kennslukrafta.