20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. 5. þm. Reykv., sem síðast talaði, gaf mér sérstakt tilefni, að mér fannst, til þess að taka til máls, með því að mér skildist hann vilja vita ríkisstj. fyrir það, að hún hefði ekki beitt sér fyrir endurskoðun stjskr. og flutningi frv. um breyt. á stjskr. Og hann talaði um í því sambandi, að forustan væri lin, og skal ég að vísu ekki mótmæla því. En það er nú sagt yfirleitt, að hver þjóð hafa þá þm., sem hún verðskuldi. Ég það má þá sennilega halda áfram og segja, að hvert þing hafi þá ríkisstj., sem það verðskuldar. Að sjálfsögðu er það á valdi þingsins að skipta um ríkisstj. Og ef því finnst stj. í lélegra lagi, þá skellur skuldin á því, ef það aflar sér ekki betri forustu. En ég vil vísa til þess, að hið háa Alþ. getur ekki vænzt þess, eftir því, sem það skildi við málið á síðasta reglulegu Alþ., að ríkissj. hafi beitt sér fyrir endurskoðun á stjórnarskránni og flutningi frv. til stjórnskipunarl., því að á síðasta reglulegu Alþ. var gerð samþykkt, þar sem beinlinis var ráðgert, að endurkoðun stjskr. yrði frestað til ófriðarloka. Og þar með var í raun og veru lagt fyrir ríkisstj. að hafast ekkert að í því máli að sinni. Þar við bætist, að hið háa Alþ. hefur gert samþykkt um að fresta alþingiskosningum, eiginlega að skilja. má, þar til ófriðnum sé lokið. Og sú samþykkt er óbreytt í gildi enn. En það liggur hins vegar í augum uppi, að ef ríkisstj. hefði flutt frv. til breyt. á stjskr., þá hefði hún breytt alveg þvert ofan í fyrirmæli Alþ., sem fólust í ákvæðunum um frestun alþingiskosninga, því að breyt. á stjskr. getur ekki farið fram, nema kosningarfari jafnframt fram. Fyrst er hins háa Alþ. að taka aftur þá ákvörðun að fresta kosningunum, áður en ríkisstj., sem starfar í umboði þingsins, getur haft skyldu til þess að leggja fyrir þingið frv., sem beinlínis gengur út frá því, að kosningar eigi að fara fram. Nú má að vísu segja það, að það hefur heyrzt frá ríkisstj., að hún telji, eða einhver hluti hennar, að kosningar eigi að fara fram á næstkomandi vori. Það er alveg rétt, að það hefur heyrzt. En hvorki hæstv. forsrh. né stjórnin í heild ræður neinu um þetta. Það er hið háa Alþ., sem verður að taka aftur sínar ákvarðanir um það, svo að það út af fyrir sig réttlætir ekki þá kröfu til ríkisstj. um, að hún beri fram frv, á Alþ., sem beinlínis byggist á því, að þingið sé horfið frá sínum fyrri ákvörðunum í þessu efni.

Að öðru leyti er ekki nema gott eitt um það að segja, að slíkt frv. komi fram eins og það, sem hér liggur fyrir, frá einstökum hv. þm., því að þeir eru ekki eins og ríkisstj. bundnir af fyrri ákvörðunum þingsins.

Það er ákaflega mikið um það talað og öðru hverju breytt eftir því, að við lifum á erfiðum tímum og að við þurfum að lifa í bróðerni og friði okkar á milli vegna þess ástands, sem nú er i heiminum. Þetta vill nú fara út um þúfur dálítið öðru hverju hjá okkur. Og við erum allir með því marki brenndir að vera ekki fullkomnir, og er ekkert við því að segja, þó að slettist upp á vinskapinn öðru hverju. En það má nokkuð á milli vera, hvort við lifum i þeim eindregna ásetningi að lifa í allsherjarfriði okkar á milli og hins, að stofna til eins hatrammra deilna eins og við höfum dæmi um út af kjördæmamálinu. Ég tel rétt að rifja það upp fyrir hv. þm., að árið 1931 var borið fram frv. um breyt. á stjskr. og kjördæmaskipuninni. Það leiddi til þess, að þingið var rofið, — ja, það töldu margir, að það hefði legið við byltingu í landinu út af því tilefni. Ég hygg nú, að menn hafi stillzt svo, síðan það var, að það þurfi ekki beint að óttast slíkar afleiðingar, og mönnum hafi lærzt að taka með meira jafnaðargeði því, sem að höndum ber, heldur en þá var raun á. En áframhaldið var þó ekki þannig, að við getum af því dregið þær ályktanir, að allt muni fara með friði og spekt fram, ef á að fara að skerða þann helga rétt vissra hluta landsins, sem menn telja, að felist í núverandi kjördæmaskipulagi landsins. Ég minnist þess, að á þinginu — 1932, hygg ég, að það hafi verið, — þá var fitjað upp á því á nýjan leik að breyta kjördæmaskipuninni. Þá stóð svo, að Sjálfstæðisflokksmenn og Alþýðuflokksmenn skipuðu helming þingsæta í Ed. og gátu þar að vísu ekki komið neinu máli fram, þótt þeir væru einhuga um það. Nd. var hins vegar þannig skipuð, að þessir flokkar tveir voru í algerum minni hluta, gátu hvorki komið málum fram né stöðvað þau. En í Ed. gátu þeir í sameiningu stöðvað hvert mál, sem þeir vildu. Þessir tveir flokkar höfðu tekið höndum saman um það að koma fram breyt. á kosningafyrirkomulaginu í landinu með hverjum ráðum, sem þeir hefðu til þess. Og sannleikurinn varð sá, að þeir þurftu að taka á öllu, sem þeir áttu til, til þess að koma því máli fram. Það var ekki fyrr en þm. þessara tveggja flokka höfðu fullkomlega sýnt forsrh., sem nú er flm. þessa frv. hér í hv. d., fram á það, að ef ekki kæmist fram breyt. á kjördæmaskipuninni, þá yrði stöðvað fyrir stjórninni hvert það mál, sem hún þyrfti að koma fram. Og það var ekki fyrr en ríkisstj. þáverandi, undir forustu hv. þm. V.-Ísf., flm. þessa máls nú, komst að raun um hina gallhörðu alvöru þessara tveggja flokka, að ríkisstj. lét undan í þessu efni. Af þessu skilst mér, að menn geti ráðið það, að það fáist ekki alveg fyrirhafnarlaust sú breyt. á stjórnskipuninni, sem farið er fram á í þessu frv. Menn gera sér það þá væntanlega ljóst, að hæstv. Alþ. verður þá algerlega að hverfa frá þeim fögru ráðagerðum, sem það hefur haft á undanförnum þingum, um að lægja sem mest öldurótið í stjórnmálunum í landinu, ef til kosninga þyrfti að ganga, þó að það yrðu fríðarkosningar, sem mest að orðið gæti. Það yrði sjálfsagt að gera ráð fyrir því, að það yrði tekið á öllu því, sem til væri, í slíkum kosningum af hálfu hvers flokks fyrir sig. Og það hafa náttúrlega þeir hv. þm. gert sér ljóst, sem nú beita sér fyrir þessu máli.

Ég vil ekkert um það segja, hversu gætilegt það er, en hv. síðasti ræðumaður tók mjög ákveðið til orða um það, að það væri tóm vitleysa, sem yfirleitt væri sagt um það, að við lifðum nú undir alvarlegum kringumstæðum. Ég skal ekkert um það deila. Um það getur hver sagt það, sem honum finnst rétt, eða eins og kerlingarnar forðum: „Klippt var það, skorið var það“ — þangað til eitthvað sker úr um það. En frá sjónarmiði Sjálfstfl. út af fyrir sig, þá er ákaflega fjarri því, að hann geti amazt við því, að slíkt frv. sem þetta komi fram. Það hefur að sjálfsögðu verið mál Sjálfstfl. ekki síður en þess flokks, sem nú hefur komið þessu frv. áleiðis inn í þingið, að koma fram því fyllsta réttlæti, að því er snertir áhrif kjósenda almennt í landinu á meðferð þjóðmála. Og sannleikurinn er sá, að ég hygg, að ef Alþfl. hefði verið reiðubúinn til þess á undanförnum þingum, allt frá 1934 og þar til a.m.k. í ófriðarbyrjun, að koma þessu máli fram með samtökum við Sjálfstfl., þá hefði Sjálfstfl. alltaf verið reiðubúinn að gera það. En hitt veit ég líka jafnvel, að frá 1934 og til 1941 hefur Alþfl. verið gersamlega ófáanlegur til þess að koma þessu máli fram, ófáanlegur til þess að beita sér fyrir því með Sjálfstfl. og þeim öðrum mönnum í þinginu, sem því máli hefðu viljað fylgja, að koma fram breyt. á kjördæmaskipuninni, og ber því að fagna stefnubreytingu þessari.

Ég geri ráð fyrir því, eins og hæstv. forsrh. veik að, að það verði að ráði að skipa sérstaka n., ekki aðeins til þess að athuga þetta mál, sem hér liggur fyrir um breyt. á kjördæmaskipuninni og kosningafyrirkomulaginu, heldur einnig til að yfirvega, hvort ekki eigi að gera þá allsherjarbreyt. á stjórnskipun landsins, sem við allir að sjálfsögðu gerum ráð fyrir, að hljóti að koma til aðgerða þingsins á næstunni. Ég vil vekja athygli á því, að samkv. sambandslagasamningnum við Danmörku, sem við segjum að vísu, að sé fallinn úr gildi, þá var gert ráð fyrir því, að Íslendingar gætu tekið öll sín mál í sínar hendur 1943, skilst mér. Það er því áreiðanlega samkv. því tími til þess kominn, eins og hv. 5. þm. Reykv. veik að, að taka stjórnarskrármálið fyrir í heild til endurskoðunar og setja nýja stjskr. og skipa þeim málum endanlega. Stjskrfrv., sem nú yrði samþ. á þessu þingi, kæmi til endursamþykktar á Alþ. 1943 og væri þá alveg í samræmi við nýja ákvörðun um það, að Ísland lýsti yfir fullum sambandsslitum við Danmörku formlega, eins og þegar hefur verið gert í framkvæmdinni.

Mér er ekki ljóst, hvers vegna hv. flm. þessa frv., úr því að þeir fóru að bera fram till. um breyt. á stjskr., tóku ekki málið róttækt fyrir, þ.e.a.s. gerðu ekki till. um allsherjar breyt. á stjskr. í sambandi við það ástand, sem nú ríkir, ástand, sem við gerum ráð fyrir, að verði í framtíðinni, að Ísland verði alveg sjálfstætt og laust allra máli við fyrra sambandsríki sitt, Danmörku, þeir hefðu haft sínar ástæður til þess. Man ég þó ekki eftir, að hv. frsm. tæki neitt fram um það. En frá mínu sjónarmiði er það dálítið viðkvæmt að fara að hrófla við stjórnskipunarl. í grundvallaratriðum, þar sem um kosningafyrirkomulagið er að ræða, án þess að gera það frá rótum. Það gæti skilizt þannig, að einhverjar efasemdir væru uppi um það, að breyta ætti frá því, sem verið hefur um afstöðuna til okkar fyrra sambandsríkis, og gæti þannig valdið nokkrum misskilningi.

Ég tel sjálfsagt, að n. taki málið til athugunar, einnig frá þessari hlið, og svo að sjálfsögðu það, sem ekki þarf að taka fram, en er aðalatriði þó, sem sé, hvað hentugur tíminn sér til að gera þá breyt., sem þar væri um að ræða, eða yfirleitt breyt. á stjskr.