13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. frsm. meiri hl. lauk máli sínu með því, að ég væri illorður. Ég man ekki eftir neinu orði, sem hægt væri að taka þannig upp, að öðru leyti en því, að ég tel, að orð mín hafi komið illa við þennan hv. frsm. Þó að leitað sé í ræðu minni, sem ég flutti í dag, þá finnst þar ekkert, sem er hægt að kalla illyrði, en ég veit, að þar kom margt fram, sem, eins og ég sagði, hefur komið illa við hann, því að það hefur rumskað við samvizku hans, sem hefur verið óhappamaður í Framsfl.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál, því að það er þegar vitað, að Alþ. er þegar búið að kveða upp sinn dóm um afdrif þess. Má segja, að það að ekki nema til að tefja þingið og skemmta okkur nú að flytja langar ræður um það, því að það er séð, að málið á að ganga sinn gang í gegnum þingið. En það er til annar dómstóll og annað dómsstig fyrir þetta mál. Þjóðin á eftir að segja, hvað mikið heillaspor hún telur, að hér sé verið að stíga, og þangað til sá dómur hefur verið upp kveðinn. skal ég bíða öruggur um afdrif þessa máls.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að þeim röksemdum, sem stuðningsmenn þessa frv. hafa reynt að koma fram með, en skal þar aðeins stikla á stóru.

Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi í nál., að fyrir þessu frv. væri engin röksemd önnur en sú, að það ætti að vera til að jafna rétt þegnanna. Nú held ég, að ég hafi bæði í nál. og eins í ræðu minni í dag bent nægilega greinilega á, að jafnvel út frá því sjónarmiði, sem þeir telja, að þetta sé flutt, er engin trygging fyrir, að það megi verða til að jafna atkvæðamagn á bak við hvern kosinn þm. til Alþ. Við höfum bent á það með fullum rökum í nál. og ég í ræðu minni í dag, að þessar breyt. geta ekki orðið til að auki það misrétti, sem þeir telja, að nú sé. Þarf ekki að benda þar á annað en það, að nokkrir af flm. og stuðningsmönnum telja sig ekki vilja gera aðrar breyt. en þær að hafa hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum.

Forsvarsmenn þessa máls hafa ekki reynt að mæla á móti því, að svo framarlega sem það er ekki víst, að sá flokkur, sem hefur fæsta kjósendur balt, við hvern þm., haldi eilíflega þessum kjördæmum, þá hlýtur þetta að verða til að auka misréttið, en ekki til að minnka það. hað hefur ekki verið reynt að hrekja þetta, og þetta er aðalbreyt., sem borin er fram. Það liggur í hlutarins eðli, að ef Alþfl. eða Sjálfstfl. gerðu sér nokkra von um að vinna meiri hl. í tvímenningskjördæmunum, þá er þetta spor frá því að jafna mismunandi tölu kjósenda á bak við hvern þm. Ég skora á stuðningsmenn frv. að hrekja þau rök, sem ég hér flyt.

Hv. flm. segja, að það sé höfuðáhugamál þeirra að jafna rétt þegnanna með þessu máli, en það, sem þeir eru að gera, er að koma á því skipulagi, að þótt ekki sé nema 1/3 hluti eða enn þá minna, þá skuli hann hafa jafnan rétt og 2/3 hlutar.

Þegar hv. þm. V.- Ísf. var að ræða um, hvernig kosningarnar hefðu farið í tvímenningskjördæmunum síðast, þá skildist mér hann telja þá niðurstöðu óbreytanlega í framtíðinni og að það væri með öllu vonlaust fyrir nokkurn flokk að etja kappi við Framsfl., þar sem hann hefði sigrað. Hann mun hafa reynsluna, og kann það að vera rétt.

Við skulum þá líta á kosningarnar frá 1937. Hv. þm. segir, að í Rangárvallasýslu hafi Framsfl. fengið 940 atkv. og tvo þm., en hinir hafi fengið 900 atkv. og engan þm., í Eyjafirði hafi Framsfl. fengið 1600 atkv. og tvo menn kjörna. en hinir 2000 atkv. og engan þm. Þetta er ósatt. Hann má kalla þetta illyrði, ef hann vill, en ég segi, að þetta er ósatt, og skal sanna það. Þessi 900 atkvæði í Rangárvallasýslu sendu þingmann á þing sem uppbótarþingmann, Jón, Ólafsson, sem féll, en komst samt að á þessum 900 atkvæðum. Þessi 2000 atkv. í Eyjafirði, sem hann segir, að hafi engan þm. fengið, hafa 3 menn á þingi. Þeir féllu allir í Eyjafirði, Garðar Þorsteinsson, Erlendur Þorsteinsson og Stefán Stefánsson, en é veit ekki betur en þeir sitji allir á þingi. Og á hvaða atkv.? Hvað á svona málflutningur að þýða, þar sem við höfum mennina ljóslifandi fyrir augum okkar hér í þinginu, og einn þeirra situr nú við hliðina á hv. frsm. meiri hl. (Hlátur). Ég skal segja það, að þá klígjar ekki við ýmsu þessa menn, sem halda slíku fram, og þeir halda, að það sé hægt að bjóða þjóðinni flest á þessum tímum, þegar þeir bjóða upp á það frv., sem hér liggur fyrir. Og það er ekki aðeins minni hl. í þessum kjördæmum, sem hefur sent menn á þing, heldur minni hl. í öllum tvímenningskjördæmunum. Og svo segja þeir, að réttur minni hl. sé fyrir borð borinn og taka .verði upp hlutfallskosningar til að lagfæra það, þó að minni hl. flokkur hafi 3 menn á þingi, en sá flokkur, sem sigraði, aðeins tvo.

Þá var hv. þm. að bera saman þingmannatöluna í Rvík og í Osló, sem, hefur 6 þm. Hann segir, að í Osló samsvari það, ef hún hefur 7 þm., en íbúatala 300 þús., þá hafi hún 1/20 af þm., og eftir því ætti Rvík að hafa 1/6 hlutann. Þetta er líka ósatt. Í Noregi eru stórþingsmennirnir 150, og 7 skilst mér, að sé ekki 1/20 hlutinn af því. Það getur hver maður reiknað, það þarf ekki þm. til þess, hvað þá mann, sem hefur verið forsrh. og bankastjóri. Hann segir, að þá eigi Rvík að hafa 8 þm. En hvað hefur hún marga þm. nú? Ekki nema 6? Ef hann vill halda því fram, þá er það líka ósatt. Við skulum athuga uppbótarsætin í Rvík. Reykjavik fékk síðast á þing 3 uppbótarþm., sem þar höfðu boðið sig fram, svo að þar er strax komin hærri tala en hv. þm. segir, að Rvík þurfi að fá, og þar að auki má fullyrða, að a.m.k. 4 hafi komizt á þing fyrir atkvæðamagn Reykjavíkur, svo að Rvík hefur nú raunverulega 10–14 þm., svo að það er tvöfalt við það, sem Osló hefur, þó að ekki sé farið að bæta þar tveimur við nú.

Ég verð að segja það alveg afdráttarlaust, að mig undrar það, ef til er nokkurt réttlæti í heiminum, sem þarf slíkan málflutning. Ég hef aldrei vanizt því, að réttlætið þyrfti annað en að rétt sé sagt og rétt sé skýrt frá málum. Ég hef aldrei vanizt því, að þyrfti að grípa til stórkostlegra ósanninda frammi fyrir alþjóð manna og Alþ., ef verið væri að flytja rétt og satt mál. En einmitt slíkur málflutningur sannar ljóslega, hvers eðlis mál þetta er. Mig undrar ekkert, þótt þm. sé nú að biðja um orðið, væntanlega til, þess að snúa frá villu síns vegar og þeim málstað, sem hann hefur kosið sér. Þá reyndi hann að leita röksemda víðs vegar að, m.a. til guðfræði, því að guðfræðingur er hann upphaflega að menntun, og sagði, að einhvern tíma hefði verið uppi guðsmaður, sem sagt hefði, að allar sálir væru jafnréttháar. Hann vill gera sálirnar jafnréttháar með breyttri kjördæmaskipun og finnst vel fara á að líkja sér þá við guðsmanninn frá Nasareth. En sá guðsmaður deildi ekki um mál eins og kjördæmaskipun. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ sagði hann. Hann lét sér alveg á sama standa um frelsisbaráttu Gyðingaþjóðarinnar gegn Rómaveldi, neitaði að taka þátt í henni (ÁÁ: En í m,jólkurmálinu?) Ef við hv. frsm. meiri hl. (ÁÁ) litum á okkar guðfræði, gerum við áreiðanlega réttast í því samkv. kenningu Jesú frá Nasareth að blanda henni alls ekki saman við pólitík okkar. Ég ræð þessum hv. þm. til að grípa ekki oftar til slíkra röksemda.

Það skiptir miklu að skapa sem mest réttlæti í þjóðfélaginu. En það er glíma, sem okkur gengur illa við. Það er ekki búið að sanna mér, að rétt sé, að bóndi norður á Ströndum og embættismaður í Rvík hafi þá jafna aðstæðu til áhrifa á þjóðfélagsmál, ef jafnmörg atkvæði standa að baki hverjum þm. í Rvík og þar nyrðra. Ég fullyrði, að bankastjórinn (ÁÁ) hefur margfalt betri aðstöðu en bóndi í dreifbýli til áhrifa á landsmál. Og þessi samanburður gæti raunar átt við hvern menntaðan mann hér í Rvík. Þó að við tækjum þetta atriði réttlætisins út af fyrir sig, fullyrði ég, að hv. frsm. er ekki búinn að finna púðrið, þegar hann heldur, að það eitt sér réttlátt, að jafnt atkvæðamagn standi að baki hverjum þm. Ég er sannfærður um, að með því lagi mundi ríkja hið herfilegasta ranglæti um áhrifarétt manna á Alþ. Ég skal játa, að erfitt er að finna þar réttlæti, sem allir geta viðurkennt.

Ef nú liggur svo lífið á að breyta kjördæmaskipuninni, að þess vegna þurfi á tímum sem nú að setja landið á annan endann í tvennum kosningum, er þá ekki nauðsyn að jafna þetta misrétti sem mest, þar sem það er augljóst? Er það ekki svo augljóst misrétti, að menn með enga sérstaka verðleika eiga nú milljónir, en aðrir jafnduglegir menn ekkert, að þetta verði að laga tafarlaust? Er það jafnrétti, að sumir menn hafa t.d. bankastjóralaun og eitthvað í ofanálag, en sumir verkamenn eða bændur fá 2–3 þús. á ári? Nei, eina misréttið, sem hv. þm. V.-Ísf. kemur nú auga á, er kjördæmaskipunin og ranglætið, sem Rvík verði að þola í öllum málum á þingi. Eins og ég hef minnzt á fyrr í umr., veit ég ekki betur en reykvískir kjósendur hafi fengið alveg eins mikið uppfyllt af óskum sínum og aðrir landsmenn og meira og varla verið neitað um neitt hér á Alþ. Allt landið kostir skólana, sem haldið er uppi hér til þess með framlagi dreifbýlisins, að reykvískir borgarar hafi öðrum landsmönnum betri aðstöðu til hvers konar menntunar. Og núna, þegar farið er þess á leit, hvort ekki megi rannsaka skilyrðin til þess að flytja menntaskólann í Skálholt, þangað, sem hann var margar aldir, þangað, sem skóli hefur lengstum staðið síðan fyrir 900 árum, þá standa fulltrúar Reykjavíkur upp, hver af öðrum, og láta eins og heimurinn muni forganga, ef Skálholt fái aftur skóla sinn. — Reykjavík þarf að hafa einokun á stúdentsmenntun. Þeir leyfa ekki einu sinni, að þetta skólamál sé athugað. Þar er jafnréttisbaráttu þessara manna rétt lýst. Að öðru leyti fá réttlætið og jöfnuðurinn að hvílast rótt. Jú, einu réttlætismáli þeirra Alþflm. var ég að gleyma, till. þeirra í dýrtíðarmálunum, þar sem þeir vilja festa verðlag á öllu, sem bændur framleiða, en hitt, sem þeirra umbjóðendur hafa að selja, á að fá að vera óbundið. Þannig mun réttlæti þeirra vera allt á eina bókina lært.

Þá get ég ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að hv. frsm. skyldi líkja saman árinu 1933 og árinu, sem er að liða. Þó er það ekkert nema eðlileg afleiðing þess ábyrgðarleysis, sem aðstandendur þessarar stjskrbreyt. eru áður búnir að sýna. Nú er eins og þeim finnist allt mega reka á reiðanum, þótt vitað sé, að landið er hernumið. Menn segja e.t.v., að við sitjum hér í skjóli hinna ágætu „verndara“ okkar. En reyndin er, að við höfum orðið að verjast þessum „verndurum“ og eigum eftir að verjast þeim. Hver er hagur okkar orðinn í raun og veru, þegar atvinnuvegirnir eru víða að hrynja, af því að vinnuaflið leitar annað? Ég efast um, að nokkur hernumin þjóð í víðri veröld eigi framtíð sína og sjálfstæði í meiri hættu en við, þó að hv. frsm. segði annað. Það þýðir ekki að ætla sér að telja þjóðinni trú um, að landið sé ekki hertekið, af því að við urðum að samþykkja komu Bandaríkjamanna hingað. Engin þjóð í heimi býr nú við tiltölulega jafnfjölmennt erlent setulið og við, og framtíðin ein veit, hvort það verður okkur ekki ofurefli. meðan geta menn verið að rifast og setja allt í háaloft út af kjördæmaskipun. Ég er ekki viss um, hve þakklát þjóðin verður fyrir það, þegar stundir liða og afleiðingarnar fara að sjást.

Hv. frsm. vildi gefa mér góð ráð. Ég vildi segja honum, að ráð hans í stjórnmálum hafa fáum gefizt vel. Það var ráðlegging hans, að við framsóknarmenn skyldum skrúfa niður í sjálfum okkur, því að þá færi allt fram með friði og spekt. Ég segi honum, að jafnvel þó að við þm. flokksins þegðum og brygðumst skyldu okkar, mundu einhverjir aðrir snúast til varnar og þjóðin öll rísa upp til mótmæla. Það er ágætt fyrir árásarmanninn að segja: „Hafðu þig bara hægan, meðan ég geng frá þér.“ — Þetta er ekki boðsskapur manssonarins frá Nasareth, þótt borinn sé fram undir réttlætisyfirskini. Þetta er bara aðferð bófans.

Hv. frsm. o.fl. er tíðrætt um, að þeir séu að afnema sérréttindi, sem Framsfl. hafi haft. Ég er víst ekki læs á stjskr., því að ég sé þar ekkert un sérréttindi neins sérstaks stjórnmálaflokks, og þar er enginn Framsfl. nefndur. Allir flokkar eru jafnréttháir í hvaða kjördæmi, sem er. Ef tilteknir stjórnmálaflokkar eru útilokaðir frá að vinna kjördæmi dreifbýlisins, er þeim það sjálfum að kenna. Þeir hafa vanrækt málefni þeirra og því ekki náð þar vinsældum. Ef þeir eru búnir að gefa upp von sína um sigur þar, en telja Framsfl. meiri hl. vísan í kjördæmunum, er það þeim flokki mikil traustsyfirlýsing, en kemur engum sérréttindum við. Stundum orða menn þetta svo, að það sé ekki Framsfl., heldur sveitakjördæmin, sem hafi of mikinn rétt. En hv. flm. frv. bæta því við í ákafa, að sín hugsun sé alls ekki að rýra rétt sveitanna í neinu. — Ég er svo fáfróður, að ég skil þetta ekki. Tilætlunin er að auka rétt margmennisins í Rvík og víðar á kostnað dreifbýlisins. Þetta ar ekki unnt að gera nema á kostnað þess. Hitt er blekking. Þó að þetta réttlæti kynni að láta vel í eyrum einhverra skrælingja, þýðir ekki svona málflutningur við gáfaða þjóð eins og Íslendinga.

Þá sagði hv. frsm., að hann hefði þegar 1933 viljað varðveita sem mest af því gamla í kjördæmaskipuninni. Ég hef bent á það áður, hversu vel hefur gefizt að setja nýja bót á gamalt fat. Ég held, að allir hugsandi menn séu sannfærðir um það nú, að sú bót, sem á var sett með uppbótarþingsætunum 1933, hafi reynzt illa, ekki bætt vinnubrögð Alþ. né pólitíska heilbrigði yfirleitt. Það er misvitur maður, sem hrósar sér af að hafa „varðveitt hið gamla“ á þann hátt.

Ég skal minnast ofurlítið á ræður annarra stuðningsmanna þessa frv. Hv. 5. þm. Reykv. (SK) vildi halda því fram, að það væri mest að kenna Framsfl., að stjórnarsamvinnan hefði brugðizt. Það má segja alla hluti. En ég held enginn sé búinn að gleyma því, að flokkur haus sjálfs samþ. aðeins með herkjubrögðum, með 9:8 atkv., að ganga í stjórnarsamvinnuna 1939. Það reyndist síðan svo, að sá hluti Sjálfstfl., sem á móti hafði verið, leit áfram á sig sem stjórnarandstæðinga. Í blöðum og hvarvetna rangfærðu þeir og rægðu stjórnarsamvinnuna. Það er einnig kunnugt, hvernig þessi flokkur þm. brást því algerlega s.l. sumar að halda uppi samþykktinni um kosningafrestunina, þegar von var um, að Sjálfstfl. gæti unnið þingsæti í Norður-Ísafjarðarsýslu. Hefði verið látið undan kröfu um kosningar þar, var úti um það vopnahlé, sem samþykkt hafði verið með kosningafrestuninni. Þingmenn hefðu þá sagt af sér hver af öðrum og kosningar orðið að fara fram almennt. Þá heimtuðu þessir menn úr Sjálfstfl. Stefán Jóh. Stefánsson burt úr samsteypustjórninni og sögðu, að þm.- Alþfl. væru gerviþingmenn. Hvernig er hægt að halda uppi stjórnarsamvinnu, ef ekki er sýndur meiri drengskapur en þetta? Það, sem stjórnarsamvinnan hefur strandað á, er fyrst og fremst drengskaparleysi þeirra manna, sem gengu í þá samvinnu, þótt þeir raunar væru á móti henni, og slepptu engu tækifæri síðan til að spilla henni. Þeir voru ekki menn til að standa við áform sín og gefin loforð. Það þarf að vera hægt að treysta drengskap og loforðum manna í stjórnarsamvinnu, — tilgangslaust annars. Sá flokkur, sem á aðalsökina á því, hvernig komið er, ætlar nú að mynda stjórn upplausnarinnar, stjórn, sem eiginlega enginn flokkur vill styðja og bera ábyrgð á. Þetta ætti hv. þm. að íhuga og leggja á minnið, áður en hann fer næst að kenna Framsfl. um að hafa rofið stjórnarsamvinnuna. Hinar almennu eldhúsumr. um Framsfl. ætla ég ekki að fást mikið um. En það vildi ég segja um hv. 5. þm. Reykv. (SK), að ég viðurkenni, að hann er einn af hreinskilnustu mönnum flokks síns. Í ræðu sinni var hann ekki með sama yfirklórið og hv. frsm. (ÁÁ) um réttlætið og hófsemdina, heldur játaði hann hispurslaust, að tilgangur frv. væri fyrst og fremst að leggja Framsfl. niður við sláturtrogið, ná úr honum gorgeirnum. Það er alltaf drengilegt að þora að kannast við það, sem maður meinar, og það gerði þessi þm. nú eins og oft endranær. Hann lýsti yfir því, að þessi breyt. á kjördæmaskipun væri aðeins spor í áttina, síðan mundu rísa nýjar kröfur, og því næst yrði gerð ný breyt. á kjördæmaskipun, sem gengi lengra. Það er einn af stjskrnm., sem lýsir yfir þessu, meðan flm. frv. þora ekki við það að kannast opinberlega. Slíkum mönnum er hægt að treysta vegna hreinskilni þeirra, og skal þess minnzt um leið og ég víti það drengskaparleysi margra flokksmanna hans, sem varð til þess, að stjórnarsamvinnan rofnaði.

Þá skal ég að lokum víkja örfáum orðum að hv. 4. þm. Reykv. (EOl), þó að ég hafi þar litlu að svara, því að hv. þm. Barð. hefur þegar gert það nægilega. Ræða hans var öll byggð á kvörtunum út af því, að viss kjördæmi úti um landið ættu málsvara á þingi, sem vildu koma fram umbótum, vegum og símum o.s.frv. Hann sagði, ef ég man rétt, að kjördæmakosnu þm. væru bundnir á sinn bás og þeir væru að koma með alls konar mál til umbóta fyrir kjördæmin, og ef einhver maður kæmi með till. um veg, þá kæmu menn úr öðrum kjördæmum og vildu líka fá veg hjá sér, og eins færi, ef fram væru bornar till. um ábyrgðir fyrir rafveitur. Þetta taldi hann aðalgallann á því, að þm. væru kjördæmakosnir, að skilningur væri á hverjum stað fyrir umbótum í héruðunum. Þennan hugsunarhátt get ég vel skilið hjá honum. Hann er sjálfsagt réttur frá hans sjónarmiði, en okkar sjónarmið eru gagnstæð og gerólík í þessu efni. Ég tel eðlilegast, að fulltrúar þjóðarinnar á Alþ. séu sem víðast að af landinu, þekki lífsskilyrðin og reyni að bæta þau á allan hátt, leggja vegi og síma, reisa rafveitur og byggja nýbýli, en um þetta talar hann eins og það sé mesta goðgá. Þarna eru gerólík sjónarmið. Þá vil ég spyrja hann: Hvar eiga þm. að vera búsettir, ef þeir mega ekki vera kosnir af héruðunum; þar sem þeir hafa kunnugleika? Ég veit, hvar hann vill, að þeir séu búsettir. Í Rússlandi fyrst og fremst til þess að gæta hagsmuna ráðstjórnarríkjanna, eins og hann og hans blað gerir. Þess vegna er það, að hann styður að upplausn þjóðar sinnar á þessum hættutímum, að hann heldur, að það muni koma Rússum að gagni. Þess vegna viti hann, að allur okkar vinnukraftar fari til landvarna fyrir Stalin og hans hjálparheri, sem hér sitji í landinu, en hitt geri minna, þótt atvinnulíf okkar fari í rústir. Ég er viss um, að hann vildi óska, að allir þm. sæktu umboð sitt til Moskva, þangað sem hann sækir sína línu. Ég get sagt, eins og einn mikill maður sagði út af deilu, þegar hann vildi ekki ræða við andstæðing sinn: „Þér eruð af öðrum anda en vér.“ Við erum ekki af sama anda. Lífsskoðun okkar og sjónarmið eru svo gerólík. Ég álít, að það eigi fyrst og fremst að hugsa um hinar ýmsu byggðir landsins og það fólk, sem þar býr, en stórþjóðirnar eigi að hugsa um sinn hag, og þeim er fullkomlega trúandi til að gera það. Og ef við hér úti á hjara veraldar hugsum ekki fyrst og fremst um okkar land, þá gera aðrir það ekki.

Þá var hv. þm. mjög gramur út af því, að við framsóknarmenn hefðum brugðizt stefnu okkar í þýðingarmiklum málum með samstarfi okkar við auðvaldið, við Kveldúlf. Mér liggur við að segja eins og mörgum kemur til hugar: „Hvað heyri ég?“ Til hvers er hann sjálfur að stofna hér? Hann er að stofna til þess, að Kveldúlfsfjölskyldan geti einráð stofnað ríkisstj. hér á Íslandi, eins og hann segir oft, í fyrsta sinni í sögu þessa lands, þannig að hún geti orðið einráð. Mig undrar ekki, þó að hæstv. atvmrh. sé brosleitur yfir að vera búinn að vinna slíkan sigur yfir honum, enda sé ég, að hann er mjög brosleitur, sem mig furðar ekki. Það má segja um hann og hans fyrirtæki, að „víða koma Hallgerði bitlingar“, þegar hann ofan á allan stríðsgróðann hefur nú fengið forustumenn kommúnista til að gerast sínir stuðningsmenn og þjónar. En út af því, sem hann annars lét sér um munn fara, þegar hann var að deila á Framsfl..og sagði, að hann vildi fyrst og fremst níðast á öllum verkamönnum og þeim, sem verst eru settir, þá vil ég segja, að ómerk séu ómaga orð. Nú veit ég, að hann vill telja sig í þeim flokki, sem hann telur, að sérstaklega hafi verið ráðizt á, en ég veit ekki betur en þegar hann var fluttur af landi burt, þá reyndi sú stj., sem þá sat, og Alþ. að gera allt, sem í mannlegu valdi stóð, til að bæta fyrir það. Ég álít ósæmilegt af honum að koma með slíkar almennar ásakanir á stj. og menn, sem honum er persónulega kunnugt um, að létu sér annt um, að hlutur hans yrði sem beztur. Og enginn veit betur en hann persónulega, að hann hefur ofmælt með slíkum gífuryrðum.

Hann segir, að ekki sé verið að rýra rétt sveitakjördæmanna. Það sé mesti misskilningur. Það sé aðeins verið að taka af Framsfl. En er þá ekki fyrst og fremst verið að rýra áhrifavald þeirra kjördæma, sem treysta forustu Framsfl. bezt? Hann segir, að sveitamenn geti haft sinn rétt, ef þeir vilji vinna með verkalýðnum og bæjarbúum. Þetta er nákvæmlega sama röksemdafærslan og hjá Sjálfstfl.. þegar hann er að mynda verkalýðsfélög í bæjunum eins og Óðin hér í Rvík. Þeir segja: „Við viljum lána ykkur hafa öll ykkar réttindi, ef þið viljið vinna með atvinnurekendunum og fara að þeirra vilja.“ Og það hafa margir blekkzt á þessu. Það sama er nú sagt við fólkið í dreifbýlinu: „Þið skuluð fá að halda ykkar rétti, þið skuluð fá að kjósa ykkar þm., og við skulum vera góðir við ykkur, ef þið viljið hlíta okkar ráðum og láta þéttbýlið ráða: Ég ætla að segja honum og öðrum fylgismönnum þessa frv., að bændur þessa lands vilja eiga sinn rétt einir, en hvorki eiga hann undir vilja eða óvilja hv. 4. þm. Reykv. eða annarra. Þeir vilja vera sjálfráðir, en ekki neitt undirfélag eins og Óðinn undir öðrum stjórnmálasamtökum. Þeir vilja vera sjálfráðir með simi flokk, sitt starf og sín samtök, en ekki vera nein undirdeild annarra. Íslenzkir bændur hafa aldrei lært og munu aldrei læra að ganga undir neitt jarðarmen hjá þessum hv. þm. eða neinum af hans fylgifiskum.