18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég ætla fyrst að minnast á það atriði, sem hv. þm. Borgf. drap á í byrjun ræðu sinnar. Hann talaði um, að ég hefði verið svo æstur, að ég vissi ekki, hvað ég sagði. Sjálfur talaði hv. þm. sig upp í svo mikinn æsing, að hann lauk ræðu sinni með því að gera mér upp orð, sem mér hafa aldrei til hugar komið. Ég hafi átt að segja, að minni hlutinn væri úrþvætti, og hann lemur sig allan utan og mótmælir þessu kröftuglega. Það er einmitt hv. þm. Borgf., sem veit ekki, hvað hann segir, og ég held honum farist ekki að tala um, að ég sé æstur. Það getur verið, að ég hafi að einhverju leyti farið rangt með það, sem hann sagði um kjördæmamálið, enda er oft erfitt að fylgjast með þræðinum í ræðum þessa hv. þm. Er það samrýmanlegt, úr því að hv. þm. er á móti einum kosningum, að hann gleypi við tvennum kosningum á sama sumrinu? Það er einkennileg röksemdafærsla að þykjast vinna fyrir almennri kosningafrestun og samþ. svo tvennar kosningar með litlu millibili.

Þá minntist hv. þm. nokkuð á kosningafyrirkomulagið í búnaðarfélaginu. Ég var aldrei spenntur fyrir, að þetta fyrirkomulag yrði upp tekið, og ég skal, hvenær sem er, taka höndum saman við hann og koma upp einmenningskjördæmum til búnaðarþings. Það var samþ. á síðasta þingi, að tvískipta mætti kjördæmunum, ef þess væri óskað, og þeim yrði. breytt í einmenningskjördæmi. Hv. þm. Borgf. sér, hvert straumurinn stefnir í þessu efni, og það mun ekki standa á okkur framsóknarmönnum að vinna með honum að frekari breyt. á þessum grundvelli. Það þarf heldur ekki stjskrbreyt. til þeirra hluta.

Ég skal nú ekkí ræða mikið um það, sem hæstv. forsrh. sagði. Ég er honum þakklátur fyrir, að hann skyldi standa hér upp og segja nokkur orð í þessu máli. Hann sagðist ætla að skýra frá afstöðu sinni í þessu máli í sambandi við útvarpsumræður, sem fram eiga að fara næstu kvöld, en það verða ekki umr. um stjórnarskrármálið. Nú hafði ég einmitt lagt áherzlu á, að ríkisstj. léti til sín heyra í þessu máli, áður en d. afgreiddi það, og það mun eiga að fara út úr d. í dag. Ég verð þó að sætta mig við það, sem hæstv. forsrh. sagði. En ég get ekki tekið því þegjandi, þegar hann talaði um leikaraskap Framsfl. í þessu máli og að hann hefði beitt málþófi til að tefja afgreiðslu þess. Annan daginn, sem hann situr í forsætisráðherrastóli, bregður hann Framsfl. um, að hann sé að beita málþófi. Ég býst við, að hæstv. forsrh., sem sjaldan sést í þessari d., hafi ekki vitað, hvenær umr. þessi byrjaði. Umr. þessi er búin að standa yfir í tæpar tvær klukkustundir, þegar forsrh. bregður Framsfl. um leikaraskap. og að hann ætli að hafa málþóf, af því að 3. umr. í Nd. um breyt. á stjórnskipunarl. landsins er búin að standa yfir tvo tíma! Ég held, að nokkuð mikil einræðiskennd sé strax farin að segja til sín á öðrum valdadegi hæstv. forsrh. Ég er alveg undrandi yfir að heyra þessi orð hæstv. forsrh. Hvernig er svo forsaga þessa máls? Hefur þessi nýskapaði meiri hluti sýnt svo mikinn dugnað í því að koma málinu áleiðis? Hvað er langt síðan frv. kom fram? Ég veit ekki betur en að það lægi óbreytt í 4–5 vikur, eftir að stjskrn. skildi við það, Þetta er allur dugnaður hv. meiri hl. við að koma fram málum í þinginu. Svo er komið með ávítur um, að málið sé rætt of mikið, ef 3. umr. stendur yfir í 2 klukkustundir1 Mér finnst varla sæmandi fyrir forsrh. að viðhafa slík ummæli.

Hæstv. forsrh. talaði um, að við framsóknarmenn hefðum allir óráð, eins og við værum í dauðateygjunum. Ég efast ekkert um, að hann óski þess, að dauðastund okkar sé komin, pólitískt séð, en um það skulum við ræða að afloknum næstu kosningum. Hann hótaði mér því, að á yfirreið minni nú um kosningarnar skyldi hann koma á eftir. Hann er nú orðinn minn yfirmaður, og ég verð víst að hlýða honum að einhverju leyti, en ég vil vona, að hann stundi þá eftirreið vel, eftir því sem hann getur. Ég skal mæta honum, hvar sem hann kemur á fundi, og mér væri sönn ánægja að eiga við hann orðastað þar.