21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Ég skal játa það, að ég vildi gjarnan, að þessu þinghaldi færi að ljúka, og ég vil því ekki tefja tímann með óþörfum umræðum. En mér finnst þó skylda mín að bera hér fram fyrirspurn til þeirra, sem að þessu máli standa, Sjálfstfl., Alþfl. og Kommúnistafl., eða Sameiningarfl. alþýðu. Það er nefnilea þannig, að blöð þessara flokka hafa marglýst yfir því, að samið hafi verið um þetta mál, og það er helzt að skilja það svo, að samið hafi verið um það í öllum atriðum. Það virðist því vera tilgangslaust fyrir okkur framsóknarmenn að bera fram brtt. við frv., en að bera fram brtt. í tilgangsleysi er fjarri mínu skapi. En ég skal þó játa, að ég hef mikla löngun til þess að bera fram brtt. við þetta mál, og það kann að vera, að ég geri það við 3. umr., ef ég hef nokkra von um það, að hún sé ekki fyrirfram dauðadæmd, jafnvel þó að menn gætu efnislega á hana fallizt, m.ö.o., að hún verði athuguð. Ég er ekki að heimta fylgi við þá till., sem ég kynni að bera fram, fyrirfram, en það er vitanlega tilgangslaust að bera slíkt fram, ef það verður ekki einu sinni athugað. Þessir flokkar, sem að frv. standa, hafa jafnan kvartað yfir því, þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu, Sjálfstfl. hér áður og Kommúnistafl., oft á liðnu kjörtímabili, að það hafi verið samið um málin á milli stjórnmálaflokka, áður en þau hafi verið lögð fyrir þingið. Þessir flokkar hafa talið þetta þingræðibrot. Þó hefur aldrei mér vitanlega verið samið um annað á milli stjórnmálafl. heldur en aðalatriði málanna. Þegar skattal. voru á ferðinni, þá hélt hv. 10. landsk. langa ræðu um það, hversu óþinglegt það væri, að Sjálfstfl. og Framsfl. hefðu samið um þetta mál, áður en þau voru lögð fyrir þingið, og þó höfðu þessir flokkar aldrei samið um annað en aðalatriði málsins. Fyrirspurn mín er því sú, hvort að það sé útilokað, að brtt. við þetta frv. verði teknar til greina, og hvort þessir flokkar eru, bundnir við það að samþ. frv., eins og það nú er, í öllum atriðum. Við þessu vildi ég fá skýr svör. Ég er að vísu andvígur þessu frv., eins og það liggur fyrir í höfuðatriðum. Þó mundi ég telja, að frv. mætti bæta án þess að fara út fyrir þann ramma, sem frv. nú er settur, sem er kjördæmabreytingin. Ég skal nú geta. um það, hvaða breyt. það eru, sem ég vildi helzt óska eftir, að gerðar yrðu á þessu frv., jafnvel þó að höfuðtilgangi þess væri haldið. Með þessu frv. er áreiðanlega verið að skerða rétt sveitanna í landinu, og til að draga ofurlítið úr því vildi ég láta takmarka að einhverju leyti rétt utanhéraðsmanna til þess að bjóða sig fram í kjördæmum. Ég veit, að það er óhugsandi, enda ekki rétt, að banna þetta með öllu eða útiloka, en ég tel vel geta komið til mála að takmarka þennan rétt að einhverju leyti. Mér sýnist þingið, eins og það er nú skipað, bera töluverðan keim af því, að það sé samkoma fyrir Rvík, en ekki þjóðarsamkoma, og Reykvíkingar eru komnir í meiri hl. hér á Alþ. Ég heyrði í útvarpinu í gærkvöldi, að hæstv. atvmrh. sagði, að þeir flokkar, sem að þessu standa, neituðu því, að með þessu væri verið að skerða rétt sveitanna. Þeir segja, að með þessu gerist aðeins það, að minni hl. í sveitakjördæmunum eigi að fá rétt til þess að senda sinn fulltrúa á Alþ. En þeir gleyma einu, þessir herrar, og það er, að ekkert af þessum tvímenningskjördæmum, sem þeir eru að tala um, eru hrein sveitakjördæmi nema e.t.v. aðeins 1 af þessum 6. Þeir kalla það sveitakjördæmi, þó að þau séu það raunverulega ekki. Í þessum kjördæmum eru, a.m.k. þar, sem ég þekki til, 90% sveitamanna, sem kjósa Framsfl., en atkv. þau, sem Sjálfstfl. og aðrir. flokkar fá, eru frá kaupstöðum og kauptúnum, sem í þessum kjördæmum eru. Það er því þannig, þó ,að þessir menn neiti því, að tilgangurinn með þessu frv. er sá, að kaupstaðirnir og kauptúnin fái annan fulltrúann af þessum 2, sem eru í tvímenningskjördæmum. Auk þess munu atkvæðin í Rvík eingöngu skapa uppbótarþm. eftir breytinguna.

Ég skal í þessu sambandi engan dóm á það leggja, hvort það sé heppileg stefna að koma öllu valdi í þjóðfélaginu í hendur kaupstaðanna, en ég vil, að menn segi satt, en séu ekki með alls konar yfirvarp um það, hvað þeir virkilega meina. Við útvarpsumr. um þetta mál í hv. Nd. hefur nú verið mikið um þetta frv. rætt, og andstæðingar okkar framsóknarmánna hafa óskapazt yfir því, hvað Framsfl. njóti mikilla hlunninda með því fyrirkomulagi, sem nú er, og þar hafa þeir eingöngu miðað við kosningarnar 1937. Trúa þessir menn því þá virkilega, að atkvæðamagn flokkanna geti aldrei verið öðruvísi en það var 1937? Ég býst við því.1937 héldu sjálfstæðismenn, að hver flokkur fengi nákvæmlega sama atkvæðamagn og 1934. Þess vegna gerðu þeir þá bandal,ag við Bændafl. og reiknuðu honum sama atkvæðamagn og 1934. Bættu því svo við sín eigin atkvæði frá sömu kosningum, og með þessu áttu svo að vinnast mörg kjördæmi frá Framsfl. En þeir reiknuðu bara ekki með því, þeir góðu herrar, að kjósendur geta breytt afstöðu sinni og fylgja ekki foringjunum út í hvað, sem er. Og þó að ég ætlaði ekki hér að gera annað en bera fram örstutta fyrirspurn, þá get ég þó ekki annað en bætt við annarri fyrirspurn til hæstv. atvmrh. Hann var að tala um það í útvarpsumr. í gærkvöldi, hvílíkur háski það væri, ef Framsfl. fengi stöðvunarvald og gæti stöðvað þetta frv. með 25% af kjósendum. Hann gerði ráð fyrir, að þetta gæti komið fyrir. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort honum dettur í hug, ef Framsfl. fær ekki meira atkvæðamagn en þessi 25%, að hann (Framsfl.) geti þá stöðvað málið. Mér skilst, að til þess að fá stöðvunarvald þurfi flokkurinn að bæta við sig miklu atkvæðamagni, því að án þess fjölgar ekki þingmönnum flokksins. En tölurnar frá 1937 virðast sitja fastar í heila hæstv. ráðh. Allt þetta mál er byggt á því, að þær geti ekki breytzt.

Ég skal að lokum segja það, að mér finnst vera einn ljós punktur í þessu frv., og það er, að Siglufjörður verði gerður að sérstöku kjördæmi. Við síðustu stjskrbreyt., sem þó var gerð til að fullnægja „réttlætinu“, eins og nú stendur til, var þó lögfest það ranglæti, að Seyðisfjörður, sem ekki hafði nema 900 íbúa, var látinn haldast sem sérstakt kjördæmi, en Siglufjörður, sem hafði fjórum sinnum fleiri íbúa, varð engra réttinda aðnjótandi í því efni. Ég get ekki látið vera að minna hæstv. forsrh. á það; að einu sinni flutti ég till. um það að gera Siglufjörð og Hafnarfjörð að sérstökum kjördæmum, án þess að taka annan þingmanninn af Gullbringu og Kjósarsýslu, eins og síðar var gert, en núverandi hæstv. forsrh. vildi ekki ganga inn á það þá. En nú ætlar hann a,ð samþ. það að gera Siglufjörð að sérstöku kjördæmi. Má það undarlegt heita, að hann skyldi ekki á þeim tíma hafa notað þetta tækifæri, sem honum þá bauðst, því að þegar till. mín kom fram um þetta, þurfti ekki til þess stjskrbreyt. að koma því í kring. Til þess þurfti þá aðeins kosningalagabreyt. En þá var ekki litið á þetta. En svo á næsta þingi var Hafnarfjörður gerður að sérstöku kjördæmi, og þá hneykslaðist hæstv. forsrh. mjög á því, að ég var því fylgjandi. En það var réttlætismál. Á því átti aftur þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu, núverandi hæstv. forsrh., sök, að annar þingmaðurinn var þá tekinn af kjördæmi hans. Hefði hann stutt till. mína, hefði aldrei til þess komið.