16.03.1942
Neðri deild: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

*Finnur Jónsson:

Ég vildi taka undir ósk hv. 3. þm. Reykv. í þessu efni, því að það er nú svo komið, að það lítur út fyrir, að öryggi landsmanna sé nokkur hætta búin af þeirri „vernd“, sem við erum búnir að fá, því að maður heyrir rétt daglega um það, fyrir utan stórslys, sem orðið hafa, að ráðizt hefur verið á menn á götum og jafnvel á aðalgötum Reykjavíkur og þeir slegnir niður alveg að ósekju. Enn fremur veit maður um það, að það eru varla til svo sumarhús í nágrenni Rvíkur, að ekki hafi verið brotizt inn í þau og tekið úr þeim allt, sem hægt er að flytja burt. Það væri því ákaflega nauðsynlegt að gera einhverja gangskör að því að fá þessu kippt í lag, ef einhverjir möguleikar væru til þess.