06.05.1942
Efri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég held, að tæplega sé hægt að segja það með réttu, eins og ég sagði áðan, að ég hafi verið tregur til að svara fyrirspurnum. Hitt er annað mál, að það er á valdi stjórnarinnar, hvernig hún vill, að þær séu bornar fram, af því að það er ekki munnlegur fyrirspurnatími hér á þingi. Það getur verið rétt að innleiða það, en það hefur ekki enn verið gert. Frá minni hendi er ekki um nein undanbrögð við þingið að ræða í þá átt að gefa ekki upplýsingar um samninga, sem kunna að hafa verið gerðir. Við vitum það allir í þessari hv. d., að þeir hv. þm., sem spyrja, vita miklu meira um þessi mál en blaðið, sem þeir tala um, að viti meira, heldur en þeim hefur verið gefið upp. Það er ekki þess vegna sem þeir spyrja, heldur er það vegna þess að þeir óska eftir að innleiða umr. um samningana á þessu stigi í hv. d., ef þeir liggja fyrir. Og af því að sá hæstv. ráðh. er ekki við, sem þetta heyrir undir, og ég hef ekki þau gögn, sem til þarf, þá kæri ég mig ekki um að fara út í umr. um málið. En ef fyrirspurnin er borin fram á eðlilegan hátt, þá skal ekki standa á mér að ræða þetta mál, því að það er engin launung yfir því.